Um mig

Ég er fæddur 27. mars 1955 í Reykjavík

Foreldrar mínir voru þau Gunnlaugur Jónsson dúklagningameistari, f. 16. ágúst 1919 á Fossi, Hrútafirði, d. 16. mars 1998 og Þorgerður Hanna Haraldsdóttir ræstingastjóri, f. 21. september 1926 á Rauðamel, Kolbeinstaðarhreppi, d. 12. ágúst 1985.

Ég er  dúklagningameistari. Á árunum 1972-1981 starfaði ég við ýmislegt: Var á trillu frá Reykjavík, í Vélsmiðjunni Héðni, Vélsmiðjunni Norma, við saltfiskverkun hjá Einarshöfn á Eyrarbakka, starfsmaður Samtaka Herstöðvarandstæðinga og í iðnnámi í dúklögnum og veggfóðrun. Á árunum 1981-2008 starfaði ég við dúklagnir og veggfóðrun á Íslandi og í Kaupmannahöfn en auk þess í Iðnaðarplastverksmiðju í Norköping í Svíþjóð og hjá SÁÁ.

Ég hef átt sæti í borgarstjórn frá september 2007 fyrir V-lista, Vinstri hreyfinguna grænt framboð og átti sæti sem varaborgarfulltrúi 2006 – september 2007. Auk þess hef ég átt, meðal annars sæti í eftirtöldum nefndum og ráðum á vegum Reykjavíkurborgar á þessu kjörtímabili: Framkvæmdaráði 2007-2008, íþrótta- og tómstundaráði 2006- 2007, stjórn eignasjóðs 2007-2008, umhverfis- (og samgöngu) ráði frá 2007, þar af formaður 2007-2008, velferðarráði til 2009, forsætisnefnd frá 2009, stjórnkerfisnefnd frá 2007, stjórn, Faxaflóahafna frá 2008-2009, stjórn Hjúkrunarheimilisins Eir 2006- 2009, stjórn Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar 2006-2009, stjórn Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins bs. 2007-2008, borgarráði frá 2009, stjórn Orkuveitu Reykjavíkur frá 2009 og Gagnaveitu Reykjavíkur frá desember 2009. Auk þessa hef ég setið í starfshópum á vegum velferðarráðs og borgarráðs og sit núna í aðgerðarhópi borgarráðs, aðgerðarhópi í málefnum barna og stýrihópi um búsetuúrræði fyrir eldri borgara.

Ég hef verið virkur í félagsmálum frá 17 ára aldri. Til að byrja með var ég í stjórnum róttækra vinstri samtaka en með árunum varð áhugasviðið víðara. Á árunum 1971-1983 var ég í stjórn KSML í Reykjavík, miðstjórn KSML(b), formaður BSK, og í miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Á árunum 1986-2009 var ég í stjórn og framkvæmdastjórn SÁÁ, formaður Félags dúklagninga- og veggfóðrarameistara, stjórn Meistarasambands byggingamanna, varaformaður og síðan formaður VG í Reykjavík og sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Ég sat í stjórn Neytendasamtakanna, var varamaður í stjórn VG, varamaður í jafnréttisráði, varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og átti sæti í nefnd á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um sameiningu sveitarfélaga.

Ég er núna í framboði á lista Dögunar til sveitastjórnarkosninga í Reykjavík í vor.

Konan mín og minn besti vinur heitir Hjálmdís Hafsteinsdóttir. Hún er félagsliði, f. 8. september 1957 í Reykjavík. Foreldrar hennar eru  Hafsteinn Hjartarson rennismiður, f. 10. Júlí 1932 í Vestmannaeyjum og Fríða Ágústdóttir húsmóðir, f. 25. ágúst 1936 í Gufudalsveit, Barðastrandasýslu.

Synir mínir eru þeir Haraldur Ingi, f. 2. ágúst 1977 og Jökull, f. 17. ágúst 1981.

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi