Flokkur : Vefgreinar

Orkuveitan og almenningur (1.hluti)

August 27th, 2010 // 9:40 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 34 athugasemdir

Meirihlutinn í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og þar með meirihlutinn í Reykjavík hafa tekið af skarið – 28% hækkun að jafnaði til notenda sinna. Jafnframt á að fara í miklar hagræðingaraðgerðir en hinsvegar er óljóst í hverju þær muni felast. Einnig er rætt um sölu eigna og þar á meðal hlut OR í Landsneti og HS veitum. Þrátt fyrir þetta er látið í það skína  að meira þurfi til, til að bjarga fyrirtækinu frá greiðsluþroti. Nú ríður á að almenningur verði á vaktinni því í þessum efnum er ekki allt sem sýnist og hætta er á því að nú sjái þeir sem af því hafa hag spunatækifæri til þess að koma almenningi á þá skoðun að nauðsynlegt sé að selja þann virkjanarétt sem eftir er á Hellisheiði til einkaaðila.Hvernig var hægt að setja veitufyrirtæki borgarinnar  í 240 milljarða skuld?  Veitufyrirtæki borgarinnar voru vel stödd fjárhagslega áður en þau voru sameinuð. Sumir töluðu um gullmola. Um aldamótin var þeim dembt saman í eitt og úr varð Orkuveita Reykjavíkur. Í anda þess sem þá þótti nútímalegt fékk fyrirtækið mikið sjálfstæði og sett í hóp þeirra almannafyrirtækja sem farið var að kalla B-hluta fyrirtæki. Um 2002 stóð til að háeffa OR en VG sem þá var að ganga í R-listann náði að stoppa það með þeim rökum að um væri að ræða einkavæðingarvegferð í anda þess sem alltaf fylgdi hlutafélagavæðingu almannafyrirtækja. 
 


Stjórnendur Orkuveitunnar héldu sínu striki og bruðlið hófst. Fasteignir veitufyrirtækjanna voru seldar og hafist handa við byggingu risa byggingar í Árbænum. Upphaflegar áætlanir byggðu á því að söluverð veitufyrirtækjanna dygði fyrir nýja húsinu en þegar upp var staðið fór kostnaðurinn langt fram úr áætlun, enda verið að byggja höll sem er vægast sagt illa nýtanleg. Um svipað leiti voru lagðir miklir fjármunir til að gera upp Stöðvastjórahúsið við Elliðaárnar sem síðan hefur verið notað fyrir yfirstjórnendur og boðsgesti þeirra, oft kjörna fulltrúa sem ógjarnan hafa mætt þangað og þegið góðar veitingar. Útþenslustefnan hófst, keyptar veitur annarra sveitarfélaga, farið að virkja á Hellisheiði og gerð stórinnkaup á japönskum túrbínum sem hver fyrir sig kosta 5 miljarða (í dag liggja þrjár þeirra ennþá ónotaðar) og fjármögnun öll á erlendum lánum.

Ég var varamaður Svandísar Svavarsdóttur í stjórn OR á síðasta kjörtímabili og kom inn sem aðalmaður í júlí í fyrra. Fljótlega eftir að ég kom inn í stjórnina varð mér ljóst að það væri ekki allt með felldu. Ég viðraði áhyggjur mínar í borgarráði og  27. ágúst 2009 lagði ég fram eftirfarandi tillögu:

„Borgarráð felur fjármálaskrifstofu borgarinnar að nálgast árshlutareikning Orkuveitu Reykjavíkur og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til glöggvunar fyrir borgarráð með tilliti til áhættu af fjárfestingaráformum OR fyrir A-hluta borgarsjóðs. Fjármálaskrifstofu er jafnframt falið að gera tillögur til ráðsins um gerð áhættumats þeirra þátta OR sem hugsanlega geta ógnað fjárhagslegu öryggi borgarinnar.“

Meirihlutinn treysti sér ekki til að afgreiða tillöguna fyrr en 15. október og þá til að hafna henni og við það tækifæri bókaði ég:

„Tillaga Vinstri grænna um möguleika á áhættumati ákveðinna þátta Orkuveitu Reykjavíkur hefur hvað eftir annað verið sett á dagskrá borgarráðs og jafnharðan tekin af henni aftur. Nú þegar tillagan fæst loksins afgreidd er það gert til að vísa henni frá. Þessi vandræðagangur meirihlutans er til marks um óöryggi þegar kemur að málefnum Orkuveitunnar. Skuldir OR eru á þriðja hundrað milljarða króna og í þessari stöðu er sú spurning áleitin hvort ekki sé rétt að hægja á fjárfestingum eða jafnvel stöðva þær um tíma á meðan fyrirtækið er að ná betra jafnvægi. Til þess að borgarráðsfulltrúar geti tekið upplýsta umræðu um þetta þurfa þeir að hafa í höndum úttekt eða áhættumat og í ljósi aðstæðna væri eðlilegt að fjármálaskrifstofa borgarinnar framkvæmdi það en hún hefur lýst áhyggjum sínum af því að B-hluta fyrirtækin hafi stöðugt fjarlægst borgina. Úr því sem komið er, er það hins vegar von borgarráðsfulltrúa VG að umræðan verði til þess að borgarfulltrúar verði betur upplýstir um stöðu Orkuveitu Reykjavíkur.“

Meirihlutinn sagði að áhættumat væri óþarft þar sem fjármálaskrifstofan væri að fylgjast vel með OR. Þetta var langt frá því að vera sannleikanum samkvæmt því bæði Fjármálaskrifstofan og Innri endurskoðun borgarinnar höfðu um langan tíma lýst opinberlega yfir áhyggjum sínum vegna þess hversu erfitt væri að hafa eftirlit með B-hluta fyrirtækjunum. Þannig bókaði ég skömmu áður, í borgarráði þegar ársreikningur fyrir 2008 var lagður fram 18. júní í fyrra:

“ Í umfjöllun um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008 vakti fjármálaskrifstofa borgarinnar sérstaka athygli á því að B-hluta fyrirtækin hafi flest fjarlægst borgarráð og stjórnsýslu borgarinnar hratt. Skrifstofan heldur því jafnframt fram að innsýn í rekstur og fjárhagsstöðu fyrirtækjanna fari dvínandi. Borgin ber hinsvegar beina eða óbeina ábyrgð á fyrirtækjunum. Undir þetta tekur innri endurskoðun sem benti á það strax 2003 að B-hluta fyrirtækin væru að fjarlægjast borgina ár frá ári. Þetta eru að mati borgarráðsfulltrúa VG varnaðarorð sem verður að taka alvarlega nú þegar fjárhagsvandi sumra B-hluta fyrirtækja er slíkur að hann gæti stefnt borginni í voða. Því má velta fyrir sér hvort staða þessara fyrirtækja væri jafn slæm og raun ber vitni, ef borgarráð hefði verið betur inni í rekstri þeirra. Það er því nauðsynlegt að endurskoða samband borgarinnar og B-hluta fyrirtækjanna og taka nú þegar til framkvæmdar eigendastefnu borgarstjórnar er varðar aðkomu innri endurskoðunar að eftirliti með öllum B-hluta félögum þar sem borgin á 50#PR eða meira og legið hefur fyrir í tæp 2 ár.“

Það var síðan ekki fyrr en um áramót að fjármálaskrifstofan kom með áhættumat sem að vísu fjallaði aðeins um þetta ár og sýndi að til þess að standast áhættu af greiðsluþroti OR á þessu ári þyrfti borgin að eiga tilbúna í reiðufé um 10 milljarða.

Þegar líða tók á haustið 2009 fór ég að spyrja skriflegra spurninga sem vörðuðu reikninga félagsins og sjóðstreymið, þ.e. möguleika OR til að standa skil á fjárhagslegum skuldbindingum. Svörin sem ég fékk voru þess eðlis að mér þótti verið að snúa út úr. Ég hélt því áfram að spyrja en fékk aldrei fullnægjandi svör við því hvernig fyrirtækið gæti staðið við skuldbindingar sínar með þeim þeim tekjum sem áætlaðar voru. Á sama hátt mótmælti ég lántökum og áframhaldandi orkusölusamningnum til Norðuráls. Þannig bókaði ég til að mynda á stjórnarfundi OR 4. des í fyrra:

„Lögð var fram tillaga á þessum fundi um að Orkuveitan framlengi ekki orkusölusamning fyrirtækisins við Norðurál Helguvík ehf. en hún var ekki tekin á dagsskrá heldur ákvað meirihlutinn að halda uppteknum hætti í þjónkun sinni við þungaiðnaðinn á Íslandi. Gildandi samningur milli Orkuveitunnar og Norðuráls Helguvíkur ehf. er runninn út. Því er nú um að ræða einstakt tækifæri til að endurmeta alla orkusölu frá Orkuveitu Reykjavíkur til langrar framtíðar í þágu sjálfbærrar þróunar og fjölbreytts atvinnulífs á svæðinu. Á það hefur verið bent og nú síðast í greiningu frá ARION banka, að staða Orkuveitunnar er veik, eiginfjárstaðan um 13% og verulega varasamt er að fara í frekari fjárfestingar að sinni. Í stað þess að taka mark á ítrekuðum viðvörunum ætlar meirihluti OR að setja undir sig hausinn og halda áfram á þeirri vegferð að festa OR í samningum við álver sem ekki hefur verið fjármagnað, með virkjunum sem ekki hafa verið fjármagnaðar og með gjaldskrá til álvera sem er helmingi lægri en öðrum bjóðist, þar á meðal garðyrkjubændum.“

Hér ætla ég að láta staðar numið að sinni en mun halda áfram að reifa málið og ýmsar hliðar þess á næstu dögum.

Category : Vefgreinar

Kominn tími til breytinga

August 22nd, 2010 // 9:41 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 38 athugasemdir

Greinin birtist upphaflega 21. ágúst í Reykjavík vikublað. Þau mistök voru gerð í blaðinu að ég var titlaður borgarfulltrúi. Hið rétta er að ég er varaborgarfulltrúi og fulltrúi í velferðarráði.

Þegar hjálparstofnanir fóru í frí í sumar og fjölmargir úr röðum fátækra Íslendinga sáu fram á enn meiri skort höfðu fjölmiðlar samband við opinbera aðila. Borgarstjórinn í Reykjavík hafði ekki kynnt sér málið og hann hefur ekki tjáð sig um það síðan. Fyrstu viðbrögð formanns velferðarráðs voru þau að borgin myndi ekki bregðast við þessum vanda og lét formaðurinn hafa það eftir sér að „fólk hafi síðasta sumar forgangsraðað á annan hátt, jafnvel ekki greitt allt sem það eigi að greiða“. Félagsmálaráðherra sagði að sveitarfélögin ættu að bregðast við vandanum en axlaði sjálfur ekki ábyrgð gagnvart sínum skjólstæðingum, öryrkjum, öldruðum og atvinnulausum. Um síðir og eftir brýningu brást Reykjavíkurborg við gagnvart þeim sem hún hefur lögboðnar skyldur við með því að veita sérstakan sumarstyrk.

Ríkisstjórnin brugðist
Ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju hefur brugðist þessu fólki hrapalega. Atvinnuleysisbætur hafa staðið í sömu krónutölu í tæp tvö ár og húsaleigubætur lengur. Á sama tíma hækkar húsaleiga Félagsbústaða samkvæmt vísitölu á þriggja mánaða fresti og kaupmáttur launa lækkar stöðugt, sérstaklega hjá því fólki sem er skuldum vafið eða þarf að borga háa húsaleigu eða lyfja- og lækniskostnað. Ríkisstjórnin hefur meira að segja farið í sérstakar aðgerðir til að lækka laun aldraðra og örorkulífeyrisþega, hún skattleggur laun undir fátækramörkum og það hefur komið í ljós að þegar Reykjavíkurborg hljóp undir bagga með fátækum í sumar var sá styrkur skattlagður þó svo matargjafir hjálparstofnana væru það ekki. Fátækir verða stöðugt fátækari og þeim dögum fjölgar sem margir þeirra eiga ekki fyrir nauðþurftum fram að mánaðamótum.

Fáir málsvarar
Fátækir eiga sér fáa málsvara. Sjálfir hafa fátækir ekki myndað með sér samtök. Fyrr á tímum átti fátækt fólk bakhjarl í verkalýðshreyfingunni. Þar átti tekjulítið fólk vettvang til að heyja baráttu sína og naut stuðnings þeirra sem voru ívið betur settir. Þarna varð til brennandi barátta fyrir réttlæti. Í krafti samtakamáttarins, innleiddi verkalýðshreyfingin í samstarfi við pólitísk öfl, mestu félagslegu umbætur Íslandsögunnar. En það gerðist ekki átakalaust. Menn sultu frekar en að gefa eftir í verkföllum. Samtakamátturinn þjappaði fólki saman og stéttvísin jókst. Þannig tókst fátæku fólki á fyrri hluta 20. aldarinnar að koma á mun réttlátara samfélagi, þar sem verkfallsrétturinn var viðurkenndur, samið um lífeyrissjóði, lög voru sett um stéttarfélög og vinnudeilur, lagmarksvinnutíma, sjúkratryggingar og laun hækkuð.

Starfandi og óvirkir
Máttur verkalýðshreyfingarinnar er ekki lengur fólginn í fjölda baráttuglaðra félaga. Alþýðusambandið hefur í raun skipst upp í starfandi forystu og óvirkan fjölda. Það sem verra er: Ekki verður betur séð en að þannig vilji forystan hafa þetta. Áhuginn er fremur fólginn í umsýslu sjóða og samvinnu við forystumenn atvinnurekenda og ríkisstjórn en launa- og réttindabaráttu. DV sagði frá því fyrir stuttu að nokkrir helstu forystumenn sambandsins væru með um og yfir milljón í laun á mánuði. Launin langt umfram það sem félagsmennirnir hafa og áhugasviðið sjóðir og umsýsla. Auðvitað á þetta ekki við um alla sem eru í forsvari fyrir verkalýðshreyfinguna. En doðinn á hins vegar við um þau flest. Eða hefur hin starfandi forysta barist af hörku fyrir því að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, sem er 125 þúsund kr. á mánuði til einstaklings eða atvinnuleysisbætur sem eru um 150 þúsund kr. á mánuði, verði hækkuð? Nei, það hefur hún ekki gert. Hvað þá tekið upp viðræður um að bæta hag leigjenda með vísitölubindingu húsaleigubóta eða með því að koma á fót lífsnauðsynlegu félagslegu leigu- og kaupleigukerfi í stað einkaeignakerfis húsnæðismarkaðarins sem hrundi.

Fátækramörk
Hver er ástæðan fyrir því að ASÍ hefur ekki krafist útreikninga á fátækramörkum? Hún skyldi þó ekki vera sú að lægstu umsamin laun yrðu án efa undir þeim mörkum? Í umsömdum láglaunatöxtum er fólginn vandi þeirra sem vilja hækka fjárhagsaðstoð og atvinnuleysisbætur. Launagólfið, sem verkalýðshreyfingin hefur samið um og atvinnurekendur nýta sér í stórauknum mæli, er rétt fyrir ofan bæturnar. Sú spurning er því áleitin hvort verkalýðshreyfingin sé meðsek og meðvirk í að viðhalda fátækt á Íslandi. Þetta eru þung orð. En það er þungbært að eiga ekki fyrir nauðþurftum. Það skilja þau greinilega ekki sem hafa allt til alls, keyra á milli sjóðstjórnarfunda á glæsikerrum með milljón á mánuði í laun. Það er kominn tími á breytingar. Ef verkalýðshreyfingin ætlar að eiga framtíðina fyrir sér verður hún að breyta áherslum sínum. Hún þarf þá að byrja á sjálfri sér. Það þarf ríkisstjórnin að gera líka. Hún hvorki lifir, né getur hún kallað sig velferðarstjórn ef hún stokkar ekki upp í eigin ranni.

—-

Viðbót 22.8.10 kl: 20.43

Guðmundur Gunnarsson svarar grein minni á Eyjublogginu. Ég reyndi að setja inn athugasemd á síðuna hans en fékk villu þannig að ég er ekki viss um að hún skili sér. Ég set hana því inn hér að neðan.

Sæll Guðmundur

Greinin sem þú vitnar í er nú kominn á Eyjubloggið mitt (http://blog.eyjan.is/thorleifur/2010/08/22/kominn-timi-til-breytinga/) og ég hvet lesendur þína að lesa hana því satt best að segja finnst mér og að þú sért að vitna í einhverja aðra grein.

Ég vil leiðrétta ákveðnar staðreyndavillur sem fram koma í blogginu þínu.

Svo því sé haldið til haga þá er ekki rétt að ég kynni mig sem oddvita VG í umræddri grein. Blaðið gerir hinsvegar þau mistök að kynna mig sem borgarfulltrúa en þegar ég sendi greinina undirritaði ég hana : „Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi og fulltrúi í velferðarráði.“

Þú segir að ég „veitist að starfsmönnum stéttarfélaga með rakalausum dylgjum og rógburði.“ Og bendir á að DV hafi farið með rangt mál hvað laun þin varðar. Þessu er til að svara að þær upplýsingar fóru ekki fram hjá mér en eftir sem áður stend ég við þá fullyrðingu að „nokkrir helstu forystumenn sambandsins væru með um og yfir milljón í laun á mánuði“ og þá er ég að tala um heildarlaun (með fríðindum) en ekki úttekt á séreignarsparnaði.

Þú segir í greininni að ég dylgi ég um að verkalýðsforingjar séu á „ mála hjá einhverjum fyrirtækjum“ og sakar mig því um „ ómerkilega rógburð“. Þetta er ekki rétt og hvergi má í minni grein finna slíkar dylgjur. Það var a.m.k. ekki ætlunin.

Þú segir að ég tali um ASÍ eins og það sé stéttarfélag og „ASÍ er sameiginleg skrifstofa sem stéttarfélög á almennum markaði reka“. Í greininni tala ég aldrei um að ASÍ sé eitt stéttarfélag en að halda því fram að aðeins sé um að ræða skrifstofu er mikil einföldun. Á heimasíðu ASÍ segir: „ ASÍ er samband landssambanda og landsfélaga með beina aðild. Æðsta vald í málefnum ASÍ er í höndum ársfunda sambandsins. Árlega koma saman 290 kjörnir fulltrúar launafólks af öllu landinu, en hvert aðildarfélag á rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa óháð stærð. Á fundinum er stefna heildarsamtakanna mótuð og þeim valin forysta.“

Þú segir að ég sé „maður sem ekki er þátttakandi í stéttarfélagi og veit ekkert um hvað hann er að skrifa.“ Um þetta er það að segja að ég er ekki þáttakandi í stéttarfélagi eins og er. Ég byrjaði hins vegar ungur að vinna og var strax um 17 ára aldur virkur á félagsfundum Dagsbrúnar, í iðnnemafélaginu og síðan sveinafélaginu mínu. Ég varð síðan virkur í meistarafélaginu mínu og var formaður þar um tíma. Ég var einnig einn þeirra sem endurreisti Meistarasamband byggingamanna og sat þar í fyrstu stjórn. Í störfum mínum með meistarafélaginu mínu og meistarasambandinu lagði ég áherslu á að hækka þyrfti lægstu laun. Ég benti á hættuna af því að þó svo Íslendingar væru á þeim tíma háttlaunaðir þá gæti það breyst hratt og svo hitt að óprúttnir verktakar stunduðu þann leik að ráða erlenda „fagmenn“ á lágmarkstöxtum.

Þú segir að ég ráðist „að stéttarfélögunum til þess að draga athyglina frá eigin getuleysi“ að ég sé dæmi um „lélega stjórnmálamenn sem ríghalda í það efnahagskerfi sem Ísland hefur, þar sem þeir leiðrétta efnahagsleg mistök með því að fella krónuna“ Þú segir að ég og „hinir stjórnmálamennirnir berum ábyrgð á því að „nú erum við á svipuðum slóðum með kaupmátt og við vorum fyrir 15 árum.” Viltu vera svo vænn að rökstyðja þetta þegar kemur að mínum störfum í stjórnmálum?

Eftir sem áður stend ég við grein mína sem nú er kominn á netið en þeir sem hana lesa sjá að þar er ég fyrst og fremst að gagnrýna ríkisstjórnina og kjörna fulltrúa fyrir að bregðast fátækum og svo verkalýðshreyfinguna fyrir að styðja ekki við bakið á þeim. Ennfremur að samið sé um svo lá laun að þau eru fyrir neðan fátækramörk og hömlun hækkun atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar.

Með kveðju,
Þorleifur Gunnlaugsson

Category : Vefgreinar

Djók um rannsóknarnefnd

May 28th, 2010 // 2:53 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 32 athugasemdir

Ég fordæmi hunsun borgarstjóra á ákvörðunum borgarráðs og borgarstórnar varðandi nefnd óháðra sérfræðinga sem rannsaka átti stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þegar upp er staðið er það ljóst að aldrei hefur staðið til af hálfu borgarstjóra og meðreiðasveina hennar að standa við rannsóknina.

Borgarráð ákvað þann 6. Maí sl. að skipa nefnd til að framkvæma viðamikla rannsókn á stjórnsýslu, stjórnkerfi, og aðkomu stjórnmálafólks,að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum. Til stóð að skipa í nefndina á borgarstjórnarfundi 18 maí en þegar ljóst var að það tækist ekki þar sem skrifstofa borgarstjóra væri að draga lappirnar lagði ég til á borgarstjórnarfundinum að auglýst yrði eftir þremur sérfræðingum í nefndina. Tillagan var samþykkt einróma og jafnframt að borgarráð skyldi skipa í nefndina á fundi sínum í dag, 27. maí.

Borist hafa fjöldi umsókna og tilnefninga í nefndina og um það var rætt að málið hefði forgang þegar tímafrestur væri liðinn sem var á mánudagskvöld. Borgarstjóri boðaði og afboðaði síðan fund um málið þannig að engin vinna kjörinna fulltrúa hefur farið fram vegna skipunar í nefndina og málið var ekki á dagskrá borgarráðs þrátt fyrir ákvörðun borgarstjórnar. Þar með er það fullreynt, nú einum degi fyrir kosningar að ákvörðun um umfangsmikla rannsókn á stjórnsýslu borgarinnar var bara „djók“ í huga Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og félaga.

Category : Vefgreinar

Ert þú með tilnefningar í nefndina?

May 12th, 2010 // 12:08 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 43 athugasemdir

Í borgarráði fimmtudaginn 6. maí var samþykkt að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem mun hafa það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggja fram tillögur að þeim breytingum sem hún telur þörf á.

Jafnframt var samþykkt að nefndin verði skipuð þannig að samkomulag verði um skipan hennar og stefnt er að því að ganga frá þessu á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn kemur, 18. maí. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að gott fólk finnist í þetta verkefni og ég bið lesendur þessvegna um að koma með hugmyndir að góðum aðilum til að sinna þessu vandasama verkefni.

Verkefni nefndarinnar verða ærin og meiningin er sú að þarna verði ekki um neinn hvítþott að ræða. Hún á að  leggja fram starfsáætlun fyrir 1. júní og skila lokaskýrslu ekki síðar en 31. Desember.

Meðal verkefna nefndarinnar er:
-Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

-Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.

-Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

-Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Ef þú veist um einhvern sem þú telur hæfan til að sinna þessu mikilvæga verkefni, vil ég biðja þig um að hafa samband við mig á thorleifur.gunnlaugsson@reykjavik.is.

Category : Vefgreinar

Tillaga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

May 8th, 2010 // 11:03 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 41 athugasemdir

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi og varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga lagði í dag til í stjórn Sambandsins að Lögfræðisviði þess yrði falið að meta  skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis með tilliti til upplýsinga sem þar koma fram og varða sveitarfélögin og lærdóma er viðkoma stjórnkerfi, stjórnsýslu og fjármálastjórn, siðareglur, reglur um skráningu hagsmunatengsla og annað sem að gagni mætti koma fyrir sveitarfélögin. Tillagan var samþykkt en lögfræðisviðinu er falið að skila skýrslu um málið fyrir þing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður í haust en skýrslugerðin verði jafnframt innlegg í endurskoðun sveitarstjórnarlaga.

Tillagan er hér að neðan:

———

Tillaga frá Þorleifi Gunnlaugssyni.

Stjórn sambandsins felur Lögfræði- og velferðarsviði að meta  skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis með tilliti til upplýsinga sem þar koma fram og varða sveitarfélögin og lærdóma er viðkoma stjórnkerfi, stjórnsýslu og fjármálastjórn, siðareglur, reglur um skráningu hagsmunatengsla og annað sem að gagni mætti koma fyrir sveitarfélögin.

Lögfræði- og velferðarsviði er falið að skila skýrslu sinni þannig að hún geti nýst sem innegg í þing sambandsins í haust, jafnframt því sem hún gæti nýst í tengslum við endurskoðun sveitarstjórnarlaga.

Greinargerð:

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis  er ýtarleg umfjöllun um stjórnkerfi og eftirlitsstofnanir íslenska ríkisins og þær umbætur sem nefndin telur þurfa að eiga sér stað á þeim vettvangi.

Þá er í skýrslu vinnuhóps um siðferði að finna umfjöllun um starfshætti og siðferði í stjórnsýslu og stjórnmálum, þ.m.t. varðandi samskipti embættismanna, stjórnmálamanna og einkaaðila.

Efni skýrslunnar snýr eðli máls samkvæmt hvorki beint að stjórnkerfi eða stjórnsýslu sveitarfélaga, enda komu þau ekki með beinum hætti að þeim atburðum sem skýrslan fjallar um. Stjórnkerfi sveitarfélaga er að mörgu leyti ólíkt stjórnkerfi ríkisins. Æðsta vald innan sveitarfélaganna er í höndum fjölskipaðs stjórnvalds, sveitarstjórnar, sem óhjákvæmilega kallar á ákveðna formfestu við ákvarðanatöku, auk þess sem þar sitja fulltrúar bæði meiri- og minnihluta, en ráðherrar fara einir með æðstu stjórn í stjórnsýslu ríkisins, hver á sínu sviði.

Þrátt fyrir þetta hefur skýrslan að geyma mikinn lærdóm um stjórnsýslu, stjórnmál og siðferði sem nýtast þarf öllum þeim sem starfa við opinbera stjórnsýslu hér á landi, jafnt embættismönnum sem kjörnum fulltrúum.

Mikilvægt er því að lærdómur skýrslunnar verði nýttur eins og kostur er við áframhaldandi þróun stjórnkerfis og stjórnsýslu sveitarfélaganna. Í því sambandi hefur skrifstofustjóri borgarstjórnar Reykjavíkur lagt til að  m.a. verði tekin til skoðunar eftirfarandi atriði og er tekið undir það:

a. Ábyrgðar- og verksvið annars vegar embættismanna, þ.m.t. sveitarstjórna, og hins vegar nefnda, ráða og kjörinna fulltrúa. Boðleiðir, stöðuumboð, valdmörk og skipurit.

b. Verkaskipting stjórnmálanna, aðkoma minnihluta, lýðræði og umboð kjósenda.

c. Stjórnarfyrirkomulag B-hluta fyrirtækja, þ.m.t. verkaskipting, stjórnarskipan, eftirlit, boðleiðir og upplýsingagjöf.

d. Siðareglur starfsfólks og kjörinna fulltrúa sem og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum borgarfulltrúa.

e. Skráning upplýsinga, aðgangur að upplýsingum og trúnaður milli aðila.

f. Reglur um gerð fjárhagsáætlunar, fjár- og áhættustýring, áhættumat og eftirlit.

g. Samskipti við einkaaðila sem fara með opinbert fé, hvort sem er á grundvelli samninga, s.s. þjónustu- og verksamninga, eða styrkveitinga.

Category : Vefgreinar

Af hverju segir Ólafur F. Magnússon ekki satt?

April 13th, 2010 // 3:51 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Tekist var á um orkumál í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar fór Ólafur F Magnússon mikinn og ásakaði  Vinstri græn fyrir að hafa greitt atkvæði með öllum lántökum sem Reykjavíkurborg hefur ábyrgst vegna Kárahnjúkavirkjunar,  Landsvirkjunar og raforkusölu til erlendra málmbræðslufyrirtækja vegna fjárfestinga Orkuveitu Reykjavíkur.

Hann dró síðan í land og sagði Vinstri græn hvorki hafa greitt atkvæði með eða á móti lánasamningunum.

Þetta er undarlegur málflutningur frá manni sem er fullkunnugt um andstöðu VG við orkusölu til þungaiðnaðar og hefur sjálfur verið samferða borgarfulltrúum VG í slíkum bókunum og atkvæðagreiðslum.

Á borgarstjórnarfundi 15 janúar 2003 greiddu borgarfulltrúar VG, þau Árni Þór Sigurðsson og Björk Vilhelmsdóttir ásamt Ólafi F Magnússyni atkvæði gegn ábyrgð Reykjavíkurborgará lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Það er undarlegt að stjórnmálamaður sem velur sér listabókstafinn H – fyrir heiðarleika – skuli leyfa sér að fullyrða annað um gjörðir sínar en hægt er að lesa  í fundargerðum fyrirtækja borgarinnar. Ólafur heldur því fram í Silfrinu að alveg frá því í tíð R-listans hafi hann, einn borgarfulltrúa, greitt atkvæði gegn þessum lántökum.

Þetta er ekki rétt. Samkvæmt fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá því 30. ágúst 2006 samþykkti Ólafur sem stjórnarmaður, án þess að bóka eða móralisera á nokkurn hátt, lántöku frá Fortis Bank að upphæð 100 milljónir evra) en stór hluti þeirrar upphæðar fór í virkjanagerð vegna raforkusölu til erlends málmbræðslufyrirtækis (Norðuráls)

Borgarfulltrúar Vinstri grænna og Ólafur F Magnússon eru oft ósammála. En höfum við einhvers staðar átt samleið, þá hefur það verið í umhverfis- og náttúruverndarmálum og málefnum Orkuveitu Reykjavíkur.

Ómálefnalegur málflutningur borgarfulltrúans gagnvart Vinstri grænum hvað þetta varðar er þvíekki lausnarmiðaður  heldur greinilega til þess gerður  að fella keilur.  Honum skyldi þó ekki vera, enn eina ferðina, farið að dreyma um að komst í bólið hjá Íhaldinu?

Category : Vefgreinar

Lýðræðisbyltingu í borginni

February 4th, 2010 // 12:00 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Íbúar Reykjavíkur hafa lýst því yfir á opnum borgarafundum að þeir vilji byggja upp hverfi borgarinnar með aukið umboð til beinna áhrifa á ákvarðanir sem snerta líf þeirra.

Þetta má gera með því að færa stóraukin áhrif til hverfisráða að skandinavískri fyrirmynd.  Borgarstjórn afhendi hverfisráðum umboð til athafna þannig að þau verði raunhæfur samráðsvettvangur í hverfunum. Þetta þýðir að þau stýri allri grenndarþjónustu í nánu samstarfi við íbúa.  Börn, ungmenni, foreldrar, aldraðir, innflytjendur og íbúar almennt, hafi þá tilfinningu að þjónusta borgarinnar sé þeirra, fyrir þá og á þeirra forsendum.

Horfið verði frá stofnanalausnum yfir til lausna sem verða til á vettvangi og út frá þörfum þeirra einstaklinga sem þær þurfa þannig að mannréttindi verði virt að fullu.  Þannig náum við að nýta best þá fjármuni sem til eru, þjónustan verði í takti við raunverulegar þarfir og kalli fólks um alvörulýðræði verði svarað í verki.  Með því að færa borgarbúum vald yfir eigin lífi þá vinnum við gegn spillingu sem þrifist hefur alltof lengi.

Valddreifing og kjarajöfnuður ásamt skýrum leikreglum sem fylgt er eftir, eru öflugar aðferðir gegn spillingu.  Þetta hefur komið fram þegar spilling er skoðuð í víðara samhengi.  Heilbrigða stjórnsýslu má finna meðal frændfólks okkar í skandinavíu.  Það sem einkennir útfærslu hins skandinavíska likans er einmitt valddreifing og áhersla á grenndarþjónustu.  Hafa borgir skipt sér niður í hverfi sem hverfisráð stýra og eru kjörin samtímis borgarstjórn í hlutfallskosningu.

Þau hafa fengið það hlutverk að bera fulla ábyrgð á allri grenndarþjónustu í nánu samstarfi við íbúa þeirra. Þessu er öðruvísi farið hér á landi.  Þó að í Reykjavík séu nú þegar til staðar hverfisskipting af hliðstæðum toga og finna má hjá nágrönnum okkar þá starfa hverfisráð hér án alvöru umboðs þannig að niðurstaðan verður sýndarlýðræði.  Miðlæg stjórnun einkennir borgina með lítilli valddreifingu.  Þessu þarf að breyta og færa ábyrgð verkefna nær íbúum Reykjavíkur með því að efla verulega hverfisráðin og lýðræðislegt starf þeirra.

Í Vesturbænum, Miðborginnni, Hlíðunum, Laugardalnum, Háaleitinu, Fossvognum, Breiðholtinu, Árbænum, Norðlingaholti, Grafarholti, Grafarvogi og Kjalarnesi má finna öfluga hverfismenningu sem þarf að fá að blómstra og styðja.  Framfarir borgarinnar verða hjá íbúum sjálfum og hafa þeir sjálfir lýst því yfir á samráðsfundum að slíkt megi best gera í þeirri félagslegu samstöðu sem myndast hefur í hverfum borgarinnar á löngum tíma.

Þetta er hinn raunverulegi mannauður borgarinnar og eiga starfsmenn borgarinnar að styðja íbúa til þess að byggja upp hverfi sín með störfum sínum.  Á móti þarf að draga úr yfirstjórn og koma á ábyrgri fjármálastjórn í leiðinni en stjórnkerfi borgarinnar hefur þanist á síðasta kjörtímabili með tilheyrandi kostnaði sem betur gæti nýst í þjónustu við sjálfa borgarbúa.

Tímar sýndarlýðræðis og ógagnsæis eru liðnir.  Nú þurfum við að byggja upp gegnsætt lýðræði með virkri þátttöku íbúa í hverfunum.  Þannig hreinsum við út spillinguna, gerum þjónustu borgarinnar betri og komum á heilbrigðu lýðræðissamfélagi.

Category : Vefgreinar

Lækkum framlög til borgarstjórnarflokka

February 3rd, 2010 // 6:00 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 27 athugasemdir

Byggt á ræðu sem ég hélt í borgarstjórn 2.febrúar 2010

Rannsóknir hafa sýnt að samfara auknu fjármagni til stjórnmálaflokka minnkar virkni almennra félaga. Þeir sem veljast til forystu og stjórna daglegu starfi (og þá sérstaklega kosningabaráttu) hafa tilhneigingu til að leita frekar til sérfræðinga, á sviði auglýsinga og annarra almannatengsla, en til almennra félaga í flokkunum.

Staðreyndin er sú að stjórnendur stjórnmálaflokkanna hafi samfara auknu fjármagni hneigst til þess að minnka lýðræðislegt starf vegna þess að þeim finnst það of tímafrekt. Þannig hefur í raun myndast gjá á milli fámennrar virkrar forystu og óvirks fjölda almennra flokksmanna. Vægi almennra flokksmanna og þar með lýðræðis í flokkunum hefur snarminnkað.

Þessi þróun hefur verið stöðug undanfarna áratugi og náði hér  sögulegu hámarki á árunum fyrir hrun. Greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði þannig úr 13,9 milljónum króna árið 2006 í 32,75 milljónir árið 2007. Það er 136% hækkun á einu ári.

Borgarfulltrúar VG lögðu það til við gerð fjárhagsáætlunar í desember að styrkir Reykjavíkurborgar til stjórnmálaflokka yrði lækkaðir um helming. Aðrir flokkar í borgarstjórn hafa tekið tillögunni fálega en hún er nú til afgreiðslu í forsætisnefnd.

Framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka eru meira en helmingi hærri en framlög annarra sveitarfélaga, svo sem Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu. Reykjavíkurborg er vissulega skylt skv. lögum að veita þeim stjórnmálasamtökum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, fjárframlög til starfsemi sinnar, og skal heildarfjárhæðinni skipti milli þeirra í hlutfalli við atkvæðamagn í næstliðnum borgarstjórnarkosningum en í lögum er ekki getið um upphæð framlagsins.

Færa má rök fyrir því að borgarstjórnaflokkar, sérstaklega þeir sem eru í minnihluta, þurfi á fjárframlögum að halda til þess að sækja sérfræðiaðstoð en sú mikla hækkun sem orðið hefur á framlögum undanfarin ár er langt umfram þá þörf. Lækkun framlaga til stjórnmálaflokka svarar kalli tímans þegar mikill niðurskurður kallar á forgangsröðun í þágu velferðarmála.

Það gengur ekki að stjórnmálaflokkar sitji fast á þeim fjármunum sem þeir skömmtuðu sér sjálfir á góðæristímum á meðan fólk á vegum þessara flokka sker niður öll önnur útgjöld.

Skerðing á fjármagni til stjórnmálaflokka, hvort sem það er frá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum, færir þá nær þeim tíma þegar starfsemin var fyrst og fremst byggð á félögunum í flokkunum sjálfum. Lýðræðið er vissulega tímafrekt en ég get ekki ímyndað mér að fólk vilji frekar að ákvarðanir um stefnu og aðgerðir séu allar teknar í lokuðum herbergjum af þeim örfáu aðilum sem leiða stjórnmálaöfl.

Category : Vefgreinar

Blogg á Eyjunni

February 3rd, 2010 // 2:04 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 26 athugasemdir

Ég var að opna blogg á Eyjunni. Þar mun ég birta hluta þess efnis sem verður birt hér á þessari síðu. Ég mæli þessvegna frekar með því að lesendur notist við þennan vef áfram.

Category : Vefgreinar

Sex ástæður til að styðja VG

February 2nd, 2010 // 11:37 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Mjög raunhæfur möguleiki er á vinstri stjórn í Reykjavík á komandi kjörtímabili samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Skoðanakannanir eru vissulega aldrei meira en vísbending um hvað í vændum gæti verið – ekki meira – en þó það.

Vinstrihreyfingin grænt framboð sem fékk 14% fylgi í síðustu borgarstjórnarkosningum og tvo fulltrúa kjörna, fengi samkvæmt könnun Gallup 19% fylgi og þrjá fulltrúa. Þetta hlýtur að teljast góður árangur, ekki síst í ljósi þess að bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking höfðu kastljós fjölmiðlanna á sér vegna prófkjöra um síðustu helgi.

Sterk útkoma VG í kosningunum í vor er mikilvæg fyrir Reykvíkinga af ýmsum ástæðum.

  1. Í fyrsta lagi aukast þar með líkur á að félagslega sinnað fólk hafi stjórn borgarinnar með höndum næstu fjögur árin.
  2. Í öðru lagi eru minni líkur á því að þeir sem minna mega sín í samfélaginu verði skildir eftir utan gátta. Aldrei er eins mikilvægt og á krepputímum að hafa réttlát og félagslega ábyrg markmið á pólitískri stefnuskrá og innmúruð í  sjálfsvitund þeirra sem með völdin fara. VG hefur sýnt í verki bæði í stjórn og stjórnarandstöðu að þessar áherslur eru ekkert sýndartal  í aðdraganda kosninga. Í öllum störfum okkar eru þau efst á blaði.
  3. Í þriðja lagi aukast líkur á því að jöfnuður og jafnrétti kynjanna verði ætíð á forgangslista borgarstjórnar. Þessi sjónarmið eru inngróin í stefnu VG.
  4. Í fjórða lagi geta menn gengið að því vísu að eignir borgarinnar eru í góðum höndum þar sem við erum annars vegar. VG hefur staðið allra flokka fremst í baráttu gegn markaðs- og einkavinavæðingu undangenginna ára. Nægir þar að nefna málefni sem tengjast Orkuveitu Reykjavíkur. Fátt er eins mikilvægt á krepputímum og að halda vel utan um auðlindir þjóðar og allar dýrmætar eignir hennar. Kjósendur gerðu vel í að hugleiða í hverra höndum þessar eignir eru öruggastar.
  5. Í fimmta lagi gengur enginn gruflandi að áherslum VG í umhverfis og skipulagsmálum.
  6. Í sjötta lagi skulu nefndar áherslur VG á mikilvægi þess að stuðla að háu atvinnustigi með fjölbreyttu atvinnulífi.

Þessari upptalningu má halda áfram og verður það gert eftir því sem nær dregur kosningum en þá munu flokkarnir fjalla um einstaka málaflokka sem snerta lífið í borginni hjá ungum sem öldnum, fjölskyldum og fyrirtækjum.

Á þessari stundu er það gleðiefni að meiri líkur en minni eru á því að mynduð verði vinstri stjórn í Reykjavík. Ég er sannfærður um að enda þótt skoðanakannanir gefi okkur vísbendingu um bærilegan árangur, þá á hann eftir að verða enn meiri eftir því sem fleiri hugsa málið til enda. Þegar fólk leggur niður fyrir sér  hvaða áherslur er mikilvægast að hafa efst á blaði eins og nú háttar til í íslensku samfélagi er VG augljós kostur.

Category : Vefgreinar

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi