Flokkur : Úr fjölmiðlum

Rannsóknarnefnd yfir Reykjavíkurborg samþykkt í borgarráði

May 6th, 2010 // 6:13 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 40 athugasemdir

Vísir, 06. maí. 2010 14:35

„Við þurfum að endurheimta traust almennings og því liggur beint við að skipa rannsóknarnefnd. Og þá dugir enginn kattaþvottur,” segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, en tillaga hans um að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd yfir Reykjavík, var samþykkt á Borgarráðsfundi í dag.

Um er að ræða nefnd sem er sambærileg rannsóknarnefnd Alþingis og færi meðal annars yfir stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

Þá verður einnig kannað hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

Tillagan um nefndina verður lögð fyrir borgarstjórn eftir tvær vikur til endanlegrar samþykktar. Svo er stefnt að því að nefndin verði skipið 1. júní næstkomandi og að hún ljúki verki sínu 31. desember.

Samkvæmt Þorleifi þá er stefnt að því að nefndin skoði tvö síðustu kjörtímabil.

Í greinagerð sem fylgdi tillögu Þorleifs kemur fram hvaða þætti nefndin muni rannsaka. Þeir eru eftirfarandi:

-Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

-Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar.
-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.

-Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

-Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Category : Úr fjölmiðlum

Vill rannsóknarnefnd yfir Reykjavíkurborg

April 29th, 2010 // 6:25 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 34 athugasemdir

Visir.is 29.apr 2010

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, lagði fram tillögu á borgaráðs í dag um að fram fari rannsókn á aðdraganda, orsökum og afleiðingum efnahagshrunsins á borgina og fjárhag hennar.

Tillögunni var vísað til aðgerðarhóps borgarráðs sem mun funda um hana á mánudag. Stefnt er að því að afgreiða tillöguna á fundi borgarráðs að viku liðinni.

Í tillögunni kemur fram að slík rannsóknarnefnd ætti meðal annars að kanna stjórnsýslu borgarinnar auk þess sem hún ætti að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

———-

Eyjan 29.4.2010

Tillögu Vinstri grænna í borgarráði þess efnis að farið verði gaumgæfilega í saumana á aðdraganda, orsakir og afleiðingar efnahagshrunsins á borgina og fjárhag hennar var vísað til sérstaks aðgerðarhóps borgarráðs sem taka mun ákvörðun á mánudaginn kemur.

Verði tillagan samþykkt verður skipuð sérstök nefnd sérfræðinga sem fara munu í kjölinn á öllu er viðgekkst í borginni fyrir hrun og eftir með tilvísun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Skal þess gætt að fullt samkomulag allra flokka í borgarstjórn verði um skipan allra sérfræðinga í þá rannsóknarnefnd. Skal hún sérstaklega ganga í:

  • Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum.
  • Að kanna  hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi nokkurn tímann fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
  • Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar og stjórnsýslulegar ákvarðanir.
  • Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.
  • Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.
  • Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar.

Gert er ráð fyrir að tillagan verði afgreidd af borgarráði eftir viku en skilað verði tillögum um hvernig verkið skal unnið fyrir 15. maí. Niðurstaða skal liggja fyrir 31. ágúst.

Category : Úr fjölmiðlum

Borgarráð vill að Orkuveitan elti Landsvirkjun og upplýsi um orkuverð til stóriðju

April 29th, 2010 // 6:22 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Eyjan 29.4.2010

Borgarráð ákvað í dag að beina þeim tilmælum til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að allt orkuverð verði opinberað. Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði, lagði tillögu þess efnis að orkuverð vegna sölu OR til stóriðju verði gert opinbert og var hún samþykkt.

Í greinargerð með tillögunni segir að í ljósi þess að Landsvirkjun ætlar að upplýsa um orkuverð á aðalfundi sínum í næsta mánuði hljóti slíkt leyfi að vera auðsótt fyrir Orkuveituna.

„Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er þar segir: „Stuðlað verði að gagnsæi í orkusölusamningum og leitað leiða til að aflétta leynd af orkuverði til erlendra stóriðjufyrirtækja.  Stefnt verði að jafnræði í verðlagningu raforku í ólíkum atvinnugreinum“. Norðurál er eitt þeirra fyrirtækja sem skipta við Landsvirkjun en HS orka og OR selja einnig orku til Norðuráls,“ segir í greinargerðinni.

Category : Úr fjölmiðlum

Hrafninn reiður

April 20th, 2010 // 4:01 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 30 athugasemdir

Smugan : 19.4.2010 14:22

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri fékk frest til klukkan níu á föstudag til að taka til í kringum lóð sína í Lauganestanga. Fyrirhugað var að framkvæmdir hæfust í dag en því hefur Hrafn mótmælt harðlega.

Áralangt stríð hefur staðið um framkvæmdir Hrafns á Lauganestanga en borgaryfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir linkind í málinu.

Í bréfi frá borgaryfirvöldum til fjölmiðla kemur fram að umrætt svæði á Laugarnesi sé ekki bara land í eigu borgarinnar heldur útivistarsvæði, sem sé á Náttúruminjaskrá. Þar sé einnig að finna friðlýstar fornminjar. Bæði Forleifavernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa nú gert alvarlegar athugasemdir við umgengni á svæðinu og telja að þær feli meðal annars í sér brot á þjóðminjalögum.

Magnaður frekjugangur
Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi Vg átti frumkvæðið að gripið er til aðgerða nú gegn Hrafni en slíkt hefur þó staðið til lengi. Dofri Hermannsson segir á bloggi sínu að Hrafn hafi komist upp með magnaðan frekjugang gagnvart umhverfi sínu í Laugarnesinu. ,,Hann hefur látið stórvirkar vinnuvélar ryðja hluta af friðlýstri fjöru neðan við hýbýli sín og lagt undir sig svæði umhverfis lóð sína sem er margfalt stærra en lóðin sjálf. Sumu af draslinu hefur hann stillt upp á stöðum sem njóta verndar vegna menningarverðmæta og fornleifa.“

Umburðarlyndi borgaryfirvalda
Og líkt og Þorleifur hefur sagt í viðtali við Smuguna, finnst Dofra Hermannssyni að  umburðarlyndi gagnvart Hrafni hafi verið sýnu meira en gagnvart öðrum borgarbúum í sömu stöðu.

,,Borgaryfirvöld hafa sýnt frekjugangi Hrafns Gunnlaugssonar ótrúlegt umburðarlyndi. Látið hann komast upp með að byggja kofaskrifli og stilla upp drasli á stærð við hús út um allt á meðan venjulegt fólk er jafnvel látið rífa kvisti af húsum sínum af því það var ekki búið að stimpla teikningar áður en byrjað var að byggja.“

Category : Úr fjölmiðlum

Vill rannsaka spillingu meðal borgarfulltrúa

April 16th, 2010 // 3:58 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Smugan : 16.4.2010 16:59

,,Nálægðin við höfuðpaura hrunsins hefur verið yfirþyrmandi hjá Reykjavíkurborg á þessu kjörtímabili,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi VG sem vill að þáttur sveitarstjórnarfólks  verði tekinn sérstaklega út í kjölfar bankaskýrslunnar. ,,Ákvarðanir í skipulagsmálum, úthutun lóða, sala almannaeigna, styrkir og boðsferðir til borgarfulltrúa,“ kalla á sérstaka rannsókn að mati Þorleifs.

Borgarráð samþykkti samhljóða tillögu í gær um að fela skrifstofu borgarstjórnar að undirbúa umfjöllun eða viðbrögð í framhaldi af bankaskýrslunni, um hvernig stjórnmálin og stjórnsýslan geti dregið lærdóm af niðurstöðum hennar. Þorleifur vildi hinsvegar ganga lengra og rannsaka hugsanlegan hlut stjórnmálafólks og stjórnsýslu almennt hjá borginni. Hann bendir á að borgarfulltrúar hafi margir hverjir þegið verulegar upphæðir í kosningasjóði og  rándýrar boðsferðir  auk þess sem allt skipulag miðborgarinnar hafi verið um langt skeið í gíslingu auðmanna.

Málið verður til umræðu á fundi borgarstjórnar á þriðjudag.

Category : Úr fjölmiðlum

Veiðar leyfðar í Elliðavatni 1. apríl

March 24th, 2010 // 4:08 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Smugan : 24.3.2010

Stjórn veiðifélags Elliðavatns samþykkti í dag að leyfa veiði í vatninu frá 1. apríl, en venjulega hafa veiðar ekki verið leyfðar fyrr en 1. maí ár hvert. „Með batnandi veðurfari er lífríkið miklu fyrr í gang. Þetta er heimilt samkvæmt veiðilögum og veiðimenn eru óþreyjufullir að fara að veiða og engin ástæða til að banna þeim það. Þetta er í borgarlandinu, þetta eru opin svæði, náttúruleg gæði sem við Reykvíkingar njótum góðs af og eigum að njóta góðs af eins lengi og mögulegt er,“ sagði Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi og fulltrúi VG í stjórn Orkuveitunnar. Hann átti frumkvæði að þessum tillögum í borgarráði,

Enn mun þó rukkað fyrir veiðileyfi og fleiri gjöld en Þorleifur lagði einnig fram fram tillögu um að skoða mögulegt væri að leyfa veiðar án endurgjalds. Þeirri tillögu var vísað til umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar. „Þegar dreginn er frá kostnaður við að rukka og hafa eftirlit verður arðurinn sáralítill. Arður að öllu vatninu var á síðasta ári var um ein og hálf milljón. En Reykjavíkurborg er að leggja til milljón fyrir eldri borgara og börn,“ segir Þorleifur og bætir við að nú sé komið hverfi alveg upp við vatnið. „Mér finnst að íbúarnir eigi að njóta góðs af því að búa þarna.“

Category : Úr fjölmiðlum

Borgarfulltrúar þurfa að greiða fyrir borgarráðsbústaðinn

February 2nd, 2010 // 4:50 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 36 athugasemdir

Vísir, 02. feb. 2010 09:58

Skrifstofustjóri borgarstjórnar, Ólafur Kr. Hjörleifsson, lagði fram bréf að beiðni Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa VG, hjá forsætisnefnd fyrir helgi þar sem lagt var til að gjald yrði tekið af svokölluðum borgarráðsbústaði við Úlfljótsvatn í lok janúar. Tillagan var samþykkt.

Bústaðurinn hefur hingað til staðið borgarfulltrúum til boða án gjalds en það var Fréttablaðið sem skýrði frá málinu í janúar.

Borgarfulltrúi VG, Þorleifur, gerðu athugasemd við þetta kerfi. Fannst honum eðlilegt að gjald væri tekið af borgarfulltrúum vegna afnota af bústaðnum eins og öðrum óbreyttum starfsmönnum Reykjavíkurborgar.

Forsætisnefnd samþykkir málið fyrir sitt leyti en gjaldtakan hófst frá og með 1. febrúar. Gjaldið mun fylgja gjaldskrá orlofshúsa Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Category : Úr fjölmiðlum

Vill að borgin hætti að greiða laun miðborgarprests

February 2nd, 2010 // 4:49 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Vísir, 02. feb. 2010 09:56

Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í borgarráði, lagði fram þá tillögu á fundi borgarráðs í síðustu viku að borgarráð hætti að greiða helming launa miðborgarprests.

Þorleifur Gunnlaugsson telur að mikill niðurskurður í fjárhagsáætlun Reykjavíkur annað árið í röð setji mark sitt á nauðsynlega grunnþjónustu borgarinnar. Það sé því ekki verjandi að leggja 4,6 milljónir í starf miðborgarprests.

Segir Þorleifur að í og við miðborgina sé fjöldi presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar sem þiggi laun sín af skattpeningum borgarbúa. Telur hann að það fjármagn ætti að duga fyrir meintri þörf á sálgæslu á svæðinu, eins og hann sjálfur orðar það.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiddu hins vegar allir atkvæði gegn tillögu Þorleifs.

Category : Úr fjölmiðlum

Hundrað krónur til Haítí

January 23rd, 2010 // 10:49 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 30 athugasemdir

Fréttablaðið, 23. jan. 2010 03:13

Borgarstjórn hefur ákveðið að gefa sem samsvarar hundrað krónum fyrir hvern borgarbúa til neyðaraðstoðar á Haítí. Samtals 11,8 milljónir króna. Féð fer til Rauða kross Íslands.

Áður hafði bæjarstjórn Hveragerðis gert það sama og það var Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, sem stakk upp á því við borgarstjórn að hún færi að fordæmi Hveragerðis. Þorleifur bendir á að fari önnur sveitarfélög að fordæminu safnist 31,8 milljónir. Samkvæmt upplýsingum frá RKÍ hafa fleiri sveitarfélög nú þegar heitið stuðningi.

Með þessu framlagi Reykjavíkurborgar hefur Rauði krossinn nú safnað 45 milljónum króna, tæpum 142 krónum á hvern Íslending. Ríkissjóður hefur heitið fimmtán milljónum, sem skiptast milli félagasamtakanna.

Á Haítí eru nú um fjögur hundruð alþjóðlegra starfsmanna Rauða krossins og um þúsund sjálfboðaliðar úr hópi eyjarskeggja. Samtökin hafa aldrei verið með jafn margar neyðarsveitir að störfum í einu landi. – kóþ

Category : Úr fjölmiðlum

Borgarstjórn samþykkti tillögu VG um að veita 100 kr. á hvern íbúa Reykjavíkur til hjálparstarfs á Haítí

January 20th, 2010 // 11:02 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 34 athugasemdir

VG.is 20.1.2010

Á borgarstjórnarfundi 19. febrúar 2010 var tillaga VG um aðstoð við íbúa Haítí samþykkt. Tillagan er svona: “Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að veita sem samsvarar 100 kr. á hvern íbúa í  Reykjavík til hjálparstarfs vegna náttúruhamfara og yfirstandandi hörmunga á Haítí.Verði Rauða krossi Íslands falin ráðstöfun fjárins. Fjármagnið komi af liðnum ófyrirséð í fjárhagsáætlun.” Hér á eftri fylgir ræða Þorleifs Gunnlaugssonar um málið:

Forseti borgarfulltrúar

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt þjóðir heims til að leggjast á eitt við að aðstoða íbúa Haítí. Hann hefur sagt að ekkert nema sameinað átak þjóða heims geti hjálpað Haítíbúum að yfirstíga erfiðleikana sem við blasi.

Þetta kemur heim og saman við  fréttaflutning af svæðinu og Íslendingar sem vinna við hjálparstarf á eyjunni tjá sig um það að  enginn verði samur eftir að hafa séð með eigin augum þá gríðarlegu eyðileggingu og þann mannlega harmleik sem við blasir

Hveragerðisbær hefur nú tekið af skarið og lagt sem nemur 100 kr. á hvern íbúa í bænum til hjálparstarfsins. Við í Reykjavík eigum að grípa þennan bolta og gera slíkt hið sama.

Íbúafjöldi Reykjavíkur 1. des. 2009 er 118.427. þannig værum við fyrir hönd Reykvíkinga að láta  kr. 11.842.700. renna til hjálparstarfsins. Fari önnur sveitarfélög að fordæmi Hveragerðisbæjar og Reykjavíkur safnast kr. 31.759.300 þar sem Íbúafjöldi landsins  1. des. 2009 er 317.593.

Forseti borgarstjórn

Ég legg til að þessi tillaga verði afgreidd sem tillaga allrar borgarstjórnar. Með henni erum við, fyrir hönd borgarbúa að leggja okkar að mörkum til fólks í sárri neyð og um leið að hvetja aðrar sveitarstjórnir til að gera slíkt hið sama og fylgja þannig góðu  fordæmi íbúa Hveragerðis.

Síðast þegar borgarstjórn lét til sín taka á þessu sviði var það þegar samþykkt var einróma tillaga um að veita 10 milljónum til hjálparstarfs vegna flóðanna í suðaustur Asíu. Þá tók þjóðin höndum saman í átaki sem sameinaði allar hjálparstofnanir, sjónvarps og útvarpsstöðvar og fjölda annarra aðila sem náði hámarki í sameiginlegum sjónvarpsþætti sjónvarpsstöðvanna.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja til þess að það þetta verði gert núna og höfða þá sérstaklega til hjálparsamtaka, sjónvarps og útvarpsstöðva  því tilefnið er ekki síðra nú en þá.

Tillagan er þá þessi og hún er í nafni allra borgarfulltrúa :

“Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að veita sem samsvarar 100 kr. á hvern íbúa í  Reykjavík til hjálparstarfs vegna náttúruhamfara og yfirstandandi hörmunga á Haítí.Verði Rauða krossi Íslands falin ráðstöfun fjárins. Fjármagnið komi af liðnum ófyrirséð í fjárhagsáætlun.”

Category : Úr fjölmiðlum

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi