Flokkur : Úr borginni

Fullnýting útsvars

December 3rd, 2009 // 10:55 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 38 athugasemdir

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2010 (Borgarstjórn 3. desember 2009)

Forseti, borgarfulltrúar. Niðurskurður þessa árs hefur verið sársaukafullur og haft hefur verið á orði að það sé búið að taka alla fitu af og sums staðar vel það. Sá sem hér stendur var þess heiðurs aðnjótandi að vera umfjöllunarefni í Staksteinum í gær. Gott ef það var ekki sjálfur höfuðpaur hrunsins sem skrifaði pistilinn sem er grínaktugur og endar á háðsglósu um það að sennilega þrái Reykvíkingar það helst að fá lítinn Steingrím J. til að stýra skattheimtunni í höfuðborginni. Tilefni skrifa brandarakarlsins er náttúrulega tillaga okkar Vinstri grænna um að borgin fullnýti útsvarsheimildina. Sjálfsagt ylja innvígðir sér við svona spaug með koníakinu við arineldinn á kvöldin en það er ekki víst að almennum kjósendum Sjálfstæðiflokksins sem sáu formann velferðarráðs klumsa þegar sinnuleysis flokksins í velferðarmálum kom í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær.

Það er ekki víst að þeim kjósendum flokksins sé jafnskemmt. Því að í þeim hópi hljóta þeir að vera margir sem átta sig á því að til þess að sinna ört stækkandi hópi þeirra sem eiga varla í sig og á þarf aukið fjármagn. Ef meirihlutanum í Reykjavík er einhver alvara í því að forgangsraða í þágu velferðarmála, verður hann að endurskoða andstöðu sína við það að setja aukið fármagn til velferðarmála. Það þarf að hækka laun þeirra sem lifa á fjarhagsaðstoð og hafa rúmar 115.000 kr. í tekjur á mánuði. Það gengur ekki að þeir eigi að lifa á þeim tekjum út allt næsta ár. Verði farið að tillögum VG hækka þau að lágmarki um 18.000 á mánuði og það að viðbættri sambærilegri hækkun heimildagreiðslna vegna barna, myndi það kosta borgina 230 til 240 milljónir samkvæmt útreikningum borgarhagfræðings.

Og það hlýtur að vera öllum ljóst að það verður að hækka framlag til barnaverndar. Það hefur verið sýnt fram á það að Barnavernd Reykjavíkur er undirmönnuð og málin eru stöðugt að þyngjast. Þar með aukast líkurnar á hörmulegum afleiðingum gagnvart þeim sem ekki geta talað sínu máli. Tillaga okkar Vinstri grænna bíður nú afgreiðslu í velferðarráði, tillaga okkar um fjölgun barnaverndarstarfsfólks í Barnavernd Reykjavíkur.

Það er varhugavert að verðbæta ekki samninga við sjúklingasamtök og áfangaheimili annað árið í röð. Slíkt gæti, í einstökum tilfellum og hugsanlega nokkrum, riðið starfseminni að fullu. Á þessum stöðum er unnið mikilvægt sjálfboðaliðastarf og það er næsta víst að kostnaður borgarinnar myndi stóraukast auk þeirra hörmunga sem af slíku gæti hlotist ef starsemin lognaðist útaf.

Meirihlutinn í Reykjavík og höfundur Staksteina verða að átta sig á því að það hefur aldrei verið mikilvægara að setja aukið fjármagn í velferðarmál og ég endurtek það að verði það ekki gert eru allar fullyrðingar um að verið sé að forgangsraða í þágu velferðar, orðin tóm. Orðin tóm. Það er ekki, ágætu borgarfulltrúar, það er ekki góð fjármálastjórn við þessar aðstæður að fullnýta ekki útsvarið. Röksemdafærsla borgarstjóra þess efnis að fullnýting útsvarsheimildarinnar sé leið hins lata er popúlismi af verstu gerð og með henni er Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri að tala niður til flokksfélaga sinna í flestum bæjarstjórnum landsins.

Við skulum ekki gleyma því að Sjálfstæðismenn æptu sig hása þegar vinstri menn hækkuðu útsvarið upp í 13,03%. En lækkuðu þeir útsvarið þegar flokkurinn komst aftur til valda? Var það? Nei. Fullnýting útsvarsins mun færa okkur 720 milljónir til 740 milljónir. 720 milljónir til 740 milljónir samkvæmt útreikningum sem ég fékk í gær. Þarna er um að ræða mjög mikilvægt fjármagn sem gæti runnið til velferðarmála með sérstaka áherslu á börn. 0,25% útvar mun kosta einstakling með 500.000 króna í laun á mánuði 1.250 krónur. 1.250 krónur. Og kannski ef við setjum hlutina í þetta samhengi, hvað Reykvíkingar fá fyrir þessa skattlagningu, þá er ég nú ekki viss um að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hlæi mikið meira að staksteinum.

Category : Úr borginni

Um „samstarfið“ i borgarstjórn

December 3rd, 2009 // 10:51 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 17 athugasemdir

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2010 (Borgarstjórn 3. desember 2009)

Aðdragandi aðgerðaáætlunar borgarstjórnar fyrir rúmu ári, var með eindæmum og fjórir meirihlutar á kjörtímabilinu með tilheyrandi óstjórn og kostnaði voru ekki til að auka virðingu borgarstjórnar. Í taumlausri valdasýki héldu sjálfstæðismenn í þann leiðangur að narra til samstarfs við sig borgarfulltrúa sem var í veikindaleyfi, með boði um gull og græna skóga, og halda honum nógu lengi til að ná aftur sinni gömlu hækju, Framsóknarflokknum. Á þessum tímapunkti vildu borgarbúar helst fá að kjósa, en það var því miður ekki hægt, en krafan um almennilegt samstarf, raunverulegt samstarf, var skýr. Og samstarfið lofaði góðu og þó ekki væri annað, þá stendur, eins og áður sagði, áætlunin um störfin, gjaldskrárnar og grunnþjónustuna fyrir sínu. Á þessum tíma, fyrir ári síðan, litum við svo á að við værum að stíga okkar fyrstu skref í vinnubrögðum sem kjörnum fulltrúum í Reykjavík væru framandi þó þau væru alsiða í öðrum borgum.

Samstarfið sem var að mörgu leyti gott í 5 manna aðgerðahóp náði þó ekki nema að litlu leyti til ráðanna og þessu lofaði borgarstjóri að bæta úr. Það er því miður þannig að, að sögn flestra fulltrúa VG í fagráðunum er samráðið nú síst betra en það var í ár og flestir félagar mínir bókuðu við framlagningu fjárhagsáætlunar í ráðunum á þessa leið, með leyfi forseta:

Sú áætlun sem hér er lögð fram hefur ekki verið unnin af fulltrúum allra flokka. Þó einstaka fundir hafi verið haldnir um áherslur í málaflokknum hefur ekki gefist svigrúm til að ráðið reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Án slíks svigrúms er ekki hægt að segja að um samráð hafi verið að ræða. Tilvitnun lýkur. En það tekur þó steininn úr, ágætu borgarfulltrúar, þegar borgarstjóri leggur fram frumvarp hér á þessum fundi sem er í veigamiklum atriðum, í veigamiklum atriðum, frábrugðið því frumvarpi sem kynnt var á fundum flestra fagráða í síðasta mánuði.

Forseti, borgarfulltrúar. Það er ljóst í huga þess sem hér stendur að það er nauðsynlegt að breyta því ólýðræðislega kerfi sem við borgarfulltrúar búum við. Þetta mikla gap á milli minnihluta og meirihluta verður að brúa. Borgarstjóri hefur misst af kjörnu tækifæri til að leiða borgarfulltrúa til samvinnu þar sem enginn upplifir sig kúgaðan eða skortir upplýsingar. Þar sem embættismennirnir vinna jafnt fyrir alla borgarfulltrúa og þá um leið kjósendur þeirra. Við réttum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þetta blys og við veittum henni tækifæri til að skrifa nafn sitt á spjöld íslenskrar stjórnmálasögu en hún þarf að skila því aftur og verkinu verður vonandi lokið fljótlega á næsta kjörtímabili.

Category : Úr borginni

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2010

December 3rd, 2009 // 10:44 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 39 athugasemdir

Borgarstjórn 3. desember 2009

Forseti, borgarfulltrúar. Vandi sveitarfélaganna er, eins og hér hefur komið fram, víða mikill. Fjölmörg sveitarfélög hafa ekki enn skilað 6 mánaða uppgjörinu og sagt er að eftirlitsnefndin sé búin að yfirtaka eitt þeirra og að áætlaður halli á A-hluta sveitarfélaganna sé um 20 milljarðar. Við þessar aðstæður er verið, annað árið í röð að leggja fram fjárhagsáætlun borgarinnar sem inniheldur mikinn niðurskurð. Þegar við stóðum í þessum sporum í fyrra þótti okkur nóg um en þá var verið að spá því að gengið færi ofan í 170 stig í lok árs, væri komið upp í 170 stig um þetta leyti, og atvinnuleysið yrði 7% og verðbólgan um 4%. Forsendur dagsins eru aðrar og mun verri, eins og hér hefur komið fram. Nú er verið að spá 11% atvinnuleysi í Reykjavík, og gengið, á landsvísu náttúrlega, verður 235 stig, 235 stig í stað 170, og verðbólgan verði áfram þónokkur, eða um 5% og það fækki áfram Reykvíkingum, eða um 1,5%.

Það hriktir í aðgerðaáætlun borgarstjórnar frá því í fyrra en hún hefur, þrátt fyrir allt, reynst gott veganesti, ekki aðeins fyrir Reykjavík heldur líka flest önnur sveitarfélög á landinu. Við aðstæður sem þessar, þegar fátæktin blasir við, verða markmiðin um að hækka ekki gjaldskrár, verja störfin og grunnþjónustuna, haldreipi sem ekki má sleppa. Markmið sem fyrir stuttu þóttu sjálfsögð eru nú prófsteinn á kjörna fulltrúa sem nú gefst tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og þá kemur í ljós hverjir eru í raun færir um að eyða óvissunni og verja almannahagsmuni.

Forseti, borgarstjórn. Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þeirri stöðu sem við erum í nú er gríðarleg. Frjálshyggjan með tilheyrandi einkavæðingu bankanna og annarra ríkisfyrirtækja. Stóriðjustefnan sem leiddi af sér ofþensluna. Græðgisvæðingin sem leiddi af sér atvinnu og eignaleysi fólks sem ekki fékk einu sinni mola af borðunum. Þetta skrifast fyrst á fremst á gamla valdaflokkinn. Það eitt og sér að koma Sjálfstæðisflokknum sem fyrst frá völdum á síðasta ári var lífsnauðsynlegt. Var lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina. Þó ekki væri nema vegna þess að flokkurinn hafði grafið um sig í stjórnkerfinu, komið sínum alls staðar fyrir og alið á spillingu sem vonandi verður afhjúpuð fljótlega á næsta ári. Auðvitað bera samstarfsflokkarnir, hækjurnar, sína ábyrgð og það gildir bæði um Samfylkinguna  og Framsókn að það verður ekki undan því komist að gera upp við fortíðina á trúverðugan hátt.

Og Sjálfstæðisflokkurinn á líka að yfirgefa stjórnvölinn við borgina. Frjálshyggjan er söm við sig og einkavæðingarhugmyndir sem flokknum tókst ekki að ýta úr vör framan af á kjörtímabilinu og treystir sér til að framkvæma í lok þess eru allar vel geymdar, þær eru allar vel geymdar. Hugmyndir sem stinga upp hausnum annað slagið. Verkefnafjármögnun hjá Orkuveitunni, útboð á sorphirðunni og Droplaugarstöðum og Strætó eru dæmi um einkavæðingarhugmyndir sem verður ýtt úr vör strax í upphafi næsta kjörtímabils, nái Sjálfstæðisflokkurinn völdum aftur.

Category : Úr borginni

Álagningargjald útsvars

December 1st, 2009 // 3:44 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 26 athugasemdir

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi breytingatillögu:

Borgarráð samþykkir að hækka álagningarhlutfall útsvars úr 13,03#PR í 13,28#PR af tekjum einstaklinga í Reykjavík og fullnýta þannig útsvarsheimildir borgarinnar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09110119

Vísað til borgarstjórnar.

Category : Úr borginni

Vinnumálastofnun

November 26th, 2009 // 3:46 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 19 athugasemdir

11. Rætt um fjárhagsáætlun 2010. Jafnframt lögð fram bókun velferðarráðs frá 24. þ.m., sbr. bréf sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. í dag. R09050032

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir að yfirlit yfir eftirfarandi verði lagt fram samhliða fjárhagsáætlun í borgarráði á mánudag: Yfirlit yfir allar gjaldskrárhækkanir sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun, yfirlit yfir fjölda stöðugilda hjá borginni í janúar, apríl, júlí og október 2009 og áætlun um fjölda stöðugilda hjá borginni á sama tíma árið 2010, upplýsingar verði greindar eftir sviðum, yfirlit yfir alla þá þjónustuskerðingu sem fjárhagsáætlunin mun leiða af sér gagnvart borgarbúum, s.s. styttri opnunartíma þjónustustofnana eða annað í þeim dúr. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um hvort og þá hve hárri upphæð sé gert ráð fyrir í miðlægan atvinnumálapott þannig að borgin geti staðið að atvinnuskapandi átaksverkefnum í samstarfi við Vinnumálastofnun.

Category : Úr borginni

Orkuveita Reykjavíkur

November 26th, 2009 // 3:45 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 32 athugasemdir

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarráð samþykkir að fara þess á leit við ríkisstjórn og iðnaðarráðherra að gefinn verði þriggja ára frestur á áformaðri uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt verði lagaákvæði hvað þetta vaðar endurskoðuð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09050088

Vísað til umsagnar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.

Category : Úr borginni

Hugmyndasamkeppni

November 19th, 2009 // 3:50 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 25 athugasemdir

18. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Hvar eru þær hugmyndir aðgengilegar sem gestir skrifuðu á miða og settar voru á spjöld í Tjarnarsalnum?

Hvað verður gert við hugmyndirnar?

Hver var kostnaðurinn af verkefninu? R09090017

Category : Úr borginni

Toppstöðin

November 19th, 2009 // 3:48 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Ein athugasemd

. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 11. þ.m.:

Í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 18. júní sl. um að borgarlögmaður móti samning um tímabundin afnot áhugahóps um nýtingu Toppstöðvarinnar, ásamt því að tryggt verði að öryggiskröfur verði uppfylltar, samþykkir borgarráð meðfylgjandi samkomulag við Toppstöðina, félagasamtök, kt. 521009-2410, um afnot og leigu á 602 m² afmörkuðu rými á fyrstu og annarri hæð varaaflstöðvarinnar, Rafstöðvarvegi 4 í Elliðaárdal, til 1. október 2011. Heimilt er að framlengja samkomulagið tímabundið til eins árs í senn að þeim tíma liðnum. Leigutaka er skylt að veita eiganda upplýsingar um notkun húsnæðisins á fjögurra mánaða fresti.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi viðaukatillögu:

Lagt er til að svæði vestan við Toppstöðina, sem í dag er nýtt sem bílastæði, verði tyrft.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07070122

Tillaga borgarstjóra samþykkt.

Viðaukatillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna samþykkt.

Category : Úr borginni

Kvenfrelsi

November 12th, 2009 // 3:52 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 43 athugasemdir

37. Ályktun borgarráðs:

Í framhaldi af umræðu undanfarna daga um málefni Knattspyrnusambands Íslands áréttar borgarráð það ákvæði í mannréttindastefnu Reykjavíkur, sem skuldbindur borgaryfirvöld til að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Í ljósi þess getur borgarráð ekki annað en brugðist við þegar slík mál komi upp hjá mikilvægum samstarfsaðila borgarinnar um íþróttir, uppeldi og forvarnir. Reykjavíkurborg hefur ætíð stutt myndarlega við íþróttahreyfinguna, enda brýnt að borgaryfirvöld stuðli að bættri heilsu og vellíðan borgarbúa í hvívetna. Starf í þágu barna og ungmenna er þar sérstaklega mikilvægt, enda forvarnargildi íþrótta óumdeilt. Brýnt er því að forsvarsfólk íþróttafélaga og sambanda ástundi þau vinnubrögð sem eru þessu góða og mikilvæga starfi til sóma. Í ljósi þess hvetur borgarráð Knattspyrnusambandið og önnur samtök íþróttahreyfingarinnar til að marka sér skýra stefnu um þessi mál og leita þannig leiða til að slík atvik, sem varpa skugga á annars afbragðs störf íþróttahreyfingarinnar, endurtaki sig ekki. R09110061

Category : Úr borginni

Húsnæðismál

November 12th, 2009 // 3:51 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 24 athugasemdir

18. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um húsnæðismál, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. f.m. R07020171

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúi VG þakkar svarið en óskar eftir svörum við því hvaða annað húsnæði í eigu eða leigu borgarinnar stendur laust. Beðið er um upplýsingar um staðsetningu, fermetra hverrar byggingar og leiguverð ef um leiguhúsnæði er að ræða.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Það liggur fyrir að flutningur á miklum hluta starfsemi borgarinnar í rándýrt leiguhúsnæði Eyktar ehf. með tilheyrandi samningum til langs tíma, samrýmist ekki hagsmunum borgarbúa. Öllum átti að vera ljóst að fyrir jafn stóra rekstrareiningu og Reykjavíkurborg, er það hagkvæmast að eiga það húsnæði sem hún þarf að nota. Samfara stórfelldum flutningum í leiguhúsnæði stendur húsnæði í eigu borgarinnar laust út um allan bæ. Það liggur því fyrir að einkavæðingarstefna meirihlutans hefur og mun stórskaða borgarbúa.

Category : Úr borginni

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi