Flokkur : Úr borginni

Breytingar á stjórnkerfinu

April 19th, 2011 // 9:12 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 39 athugasemdir

Ræða flutt í borgarstjórn 19.apríl 2007

Forseti, borgarfulltrúar

Það er athyglisvert að hlusta á þær umræður sem hér hafa farið fram, og fylgjast með þeim umræðum sem verið hafa í samfélaginu að undanförnu um skóla, leikskóla og frístundamál í Reykjavík.

Ég hef svo sem ekki stillt mér upp í fremstu röð í þessari umræðu en það hefur borgarfulltrúinn okkar, Sóley Tómasdóttir og fulltrúi VG í menntaráði, Líf Magneudóttir svo sannarlega gert og höndlað vel að mínu mati.

Við höfum skipt með okkur verkum og ég mun í minni ræðu fyrst og fremst beina augum að stjórnkerfisbreytingum og lýðræðislega nálgun við breytingarnar almennt.

En nú virðist vera komið að kaflaskilum í þessum málum sem verið hafa meirihlutanum til verulegra vandræða og starfsfólki og foreldrum mikils ama.

Tillögurnar, sem nú verða vafalaust samþykktar með fyrirfram ákveðinni samþykkt meirihluta borgarstjórnar eru þá þessar: (en ég vil biðja ykkur um að taka sérstaklega eftir því við hverja á að hafa samráð)

Þær breytingar sem munu eiga sér stað um næstu áramót verða þær, ef ég skil þetta rétt

Að í Árbænum verður sameining Ártúnsskóla, Kvarnaborgar og Skólasels – grunnskóla, leikskóla og frístundheimilis sem tilraunaverkefni

Þar á að fara fram samstaf við menntasvið Háskólans og samráð við foreldra nemendur og starfsfólk.

Í Grafarvogi verða yfirstjórnir Korpu og Víkurskóla annars vegar og Borgar og Engjaskóla hinsvegar sameinaðar, jafnframt því sem Foldaskóli verður heilstæður safnskóli á unglingastigi fyrir Húsa og Hamraskóla. Samráð verður haft við foreldra nemendur og starfsfólk.

Og í Háaleitinu á að sameina yfirstjórn Álftamýrar og Hvassaleitisskóla og þar verður samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.

Í Fossvoginum á að fresta sameiningum til ársins 2013 en þá á að sameina Fossvogsskóla, Kvistaborg og frístundaheimilið Neðstaland, grunnskóla, leikskóla og frístundaheimili. Í tillögunni er ekki talað um neitt samrá.

Í Breiðholti og í Vesturbæ er allar breytingartillögur lagðar til hliðar en stofnaðir starfshópar.

Í Breiðholtinu er hópurinn myndaður af fulltrúum foreldra, starfsfólks leikskóla, grunnskóla og ÍTR, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Leiknis, Gerðubergs og annarra hagsmunaaðila. Og sá hópur á að skila af sér 1.apríl 2012

Og í Vesturbænum á samráðshópur að skila af sér í des nk. en í tillögunni segir að „menntasviði verði falið að koma á samráði við stjórnendur og starfsmenn grunnskólanna í Vesturbæ auk skólaráða og foreldraráða (skólasamfélagið)

Í einu tilfellinu (Fossvogi) er ekki lagt til neitt samráð, í hinum á að hafa samráð við foreldra og starfsfólk
og allstaðar er talað um samráð við nemendur nema í Breiðholti.

Í eina skiptið sem talað er um samráð við þjónustumiðstöð er í tillögunni um Breiðholt en í engu tilfelli er í þessum tillögum talað um að hafa samráð við Hverfisráð borgarinnar.

Til viðbótar þessu á að sameina yfirstjórn 2ja – 3ja leikskóla í 25 leikskólum þannig að yfirstjórnareiningarnar fari í 11 og þarna er ekki talað um neitt samráð.

Það á að samþætta skóla- og frístundastarf 6-9 ára í einu þjónustuhverfi haustið 2011 og undirbúa sameiningu yfirstjórnar skóla og frístundastarfa í borginni allri og jafnframt því undirbúa sameining yfirstjórnar skóla og frístundastarfs í Reykjavík. Í þessu tilfelli er heldur ekki talað um samráð.

Rúsínan í pylsuendanum eru svo grundvallarstjórnkerfisbreytingar.

Sameining Mennta og Leikskólasviðs og tómsundahluta Íþrótta- og tómstundasviðs og þetta á að gerast hratt því nýr sviðstjóri á að taka til starfa eftir rúma 2. mánuði eða 1. Júlí nk.

Í þessu tilfelli á borgarstjóri að leita eftir umsögn stjórnkerfisnefndar eftir að breytingin hefur verð samþykkt en ekki er talað um neitt annað samráð.

Forseti borgarfulltrúar

Meirihlutinn í Reykjavík hefur verið gagnrýndur fyrir skort á samráði í sameiningarmálunum almennt og maður skildi halda að lærdómurinn værs sá, eftir öll þessi læti, að það er ekki vænlegt að fara af stað með viðamiklar breytingar í almannaþjónustu án þess að gætt sé að góðu samráði

Og í öllum tilfellum sem við ræðum hér þarf að hafa þrenns lags hagsmuni í huga: Hagsmuni þeirra sem þjónustunnar njóta, hagsmuni starfsfólks og hagsmuni skattborgara. Velheppnaðar breytingar byggja á sátt við þau sjónarmið sem þessir hópar túlka.

Að mínu mati eru þær tillögur sem hér eru lagðar fram ekki til að bæta um betur og í þeim virðist vera tilviljanakennt við hverja á að hafa samráð eða hvort yfirhöfuð stendur til að hafa það.

Það er reyndar með ólíkindum að hvergi er að finna tillögur um samráð við Hverfisráð borgarinnar.

Reyndar tel ég að verið sé að byrja á vitlausum enda í málinu öllu.

Hér er verið að leggja til gríðarlegar breytingar og það einfaldlega gengur ekki að gera slíkt án þess að til staðar sé heildarmynd sem öllum er ljós.

Og það er til að æra óstöðugan að skella allt í einu inn tillögu um grundvallar stjórnkerfisbreytingar, sameiningu sviða, án þess að nokkur umræða hafi farið fram um þær nema bara stuttlega í borgarráði og engin formleg tillaga hafi verið lögð fram í stjórnkerfisnefnd.

Forseti, borgarfulltrúar

Hér hafa verið teknar tilvitnanir í kosningastefnuskrár og ég vil bæta um betur.

Meirihlutinn í Reykjavík gaf ákveðin fyrirheit um þá vegferð sem fara átti við stjórnkerfisbreytingarnar :

Hana má lesa í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar og samstarfsyfirlýsingu hennar og Besta flokksins.

Í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar, kaflanum „ Þorpin í borginni“ segir með leifi forseta:
„Samfylkingin vill dreifa valdi og verkefnum og efla sjálfstæði hverfanna, í þeim tilgangi að auka íbúalýðræði og bæta þjónustu borgarinnar við íbúa hennar.“

Og

„Samfylkingin ætlar að….Fella múra milli stofnanna og ná fram hagræðingu og markvissari þjónustu með flutningi verkefna til þjónustumiðstöðva.“

Tilvitnunum lýkur

Í samstarfsyfirlýsingu meirihlutans segir með leyfi forseta
- Hverfaráð verði efld.
- Aukin verkefni og fjárráð flytjist til hverfaráðanna.
- Í samráði við íbúa og starfsfólk verði útfærðar tillögur um hvernig best sé að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfanna með eflingu hverfaráða, hverfatengdrar þjónustu og forgangsröðun í rekstri innan hverfis.

Tilvitnunum líkur

Það sem greinilega stóð til var að ljúka þeirri vegferð sem hófst fyrir rúmum 6 árum síðan, lýðræðisvæðingu borgarinnar sem er væntanlega það sem borgarstjóri átti við með „stóru stjórnkerfisbreytingunum“.

Árið 2005 var grundvallarstjórnkerfisbreytingum hrint af stað í Reykjavík og fyrirmyndin var einna helst stjórnkerfið í Ósló. Þar var að mig minnir, borginni skipt í 21 hverfi sem höfðu mikla sjálfstjórn og fengu um helming útsvars úthlutað úr jöfnunarsjóði.

Hvert hverfi hafði hverfisráð skipað 15 fulltrúum sem höfðu mikið um málefni þess að segja og þjónustumiðstöð sem virkaði sem einskonar undir ráðhús.

Þegar hægrimenn tóku svo við í Osló var hverfunum fækkað í 15 en dreifstýringin var látin standa og engu breytt grundvallarlega svo ég viti.

Ég fylgdist svo sem ekki grannt með stjórnkerfisbreytingum 2005 en það er ljóst að megingalli þeirra var sá stutti tími sem var til kosninga.

Nýr meirihluti tók völdin eftir þær, meirihluti sem var andstæður breytingunum og vann gegn þeim með ýmsum hætti.

Þegar hann tók við var nýstofnað þjónustu- og rekstrarsvið lagt niður, þjónustumiðstöðvarnar settar undir velferðarráð og óburðug hverfisráð voru veikt enn frekar og fjármagn til þeirra minnkað.

Þegar breytingarnar 2005 áttu sér stað var greinilegt að samráð við starfsfólk var af skornum skammti og það var áberandi að starfsfólki fannst að verið væri að tala niður til sín.

Það var svo núverandi stjórnkerfisnefnd sem átti að klára málið eða í þeirri meiningu stóð ég að minnsta kosti.

Hún starfaði af nokkrum krafti að framundir síðustu jól og hélt tíu fundi frá því í júlí og fram í desember og kallaði meðal annars, sviðstjóra, framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva og stjórnsýslusérfræðinga á sinn fund.

Eftir áramót var eins og áhugann vantaði og formaður nefndarinnar, borgarfulltrúi Dagur Eggertsson, hefur aðeins boðað tvisvar eða þrisvar fundi í stjórnkerfisnefnd á þessu ári og þann síðasta í febrúar.

Fyrir áramót ríkti nokkuð góð sátt og samvinna í nefndinni um það hvaða tökum ætti að taka málið og að mínu mati var það almennur skilningur að sú staðreynd að á sama tíma og við erum með útbólgna miðstýringu eru starfræktar 6 þjónustumiðstöðvar, að sú staða væri óásættanleg og alltof kostnaðarsöm.

Eftir stjórnkerfisbreytingarnar 2005 og andstöðu meirihlutans sem tók við 2006 værum við eins og út í miðri á og nauðsynlegt væri að taka bakkann öðru hvoru megin. Taka ákvörðun um ákveðna miðstýringu eða dreifstýringu.

Samþykkt borgarráðs frá því í gær um að sameina mennta-, leikskóla- og frístundasvið hlýtur að koma eins og blaut tuska framan í flesta fulltrúa í stjórnkerfisnefnd því nefndin hefur ekki fengið tækifæri til að gefa umsögn um þessar tillögur.

Að mínu mati er þetta það alvarlegt, að líta má svo á að meirihluti borgarráðs hafi sett stjórnkerfisnefnd af, því eigi nefndin ekki að fjalla um svo róttækar breytingar í stjórnkerfinu, hvað á hún þá að gera?

Reiknar meirihlutinn með því að fulltrúar í stjórnkerfisnefnd komi til með að veita umsögn um grundvallarbreytingar sem teknar voru án nokkurs samráði við nefndina?

Að setja þetta mikilvæga mál, sem ég hélt að ætti að fjalla um lýðræðisbreytingar í borginni, í þennan átakafarveg er sorglegt og meirihlutanum í borginni til skammar og það er reyndar ömurlegt ef þetta verður það starfsumhverfi sem minnihlutanum og þá ekki síður borgarbúum verður boðið uppá næstu þrjú árin

Að hlusta síðan á borgarstjóra tala um, í ræðu sinni það sem hann kallaði „ stóru stjórnkerfisbreytingarnar“ sem hann sagði að þeir hefðu haft áhuga á en að vandlega íhuguðu máli hafi niðurstaðan orðið sú að betra sé að gera slíkar breytingar í smærri skrefum eins og borgarstjóri orðaði þetta.

Að hlusta á þessi orð í ræðu þar sem ekki er minnst á nándarlýðræði, þjónustumiðstöðvar eða hverfisráð, heldur tíundaðar sameiningar sem virðast eiga að efla miðstýringuna og næsta er í mínum huga staðfesting á því að ekki stendur til að hafa samráð um þessi mál.

Ég er sammála borgarstjóra um það að gott geti verið að framkvæma breytingar í áföngum en til þess að vel takist til, þarf að vera ákveðin heildarsýn.

Og hana vantar hér, nema að meirihlutinn lúri á strategíunni og það er ekki sanngjarnt gagnvart borgarbúum.

Að mínu mati er pólitísku línurnar þegar fjallað er um stjórnkerfisbreytingarnar, í raun þær að VG vill ganga lengst í íbúalýðræði og gagnvirkri nærþjónustu og Sjálfstæðisflokkurinn lengst til öflugrar miðstýringar.

Að í okkar fámennu en dreifðu borg verði að taka af skarið varðandi það hvort viljinn sé fyrir miðstýringu eða dreifstýringu með mikilli sjálfstjórn hverfa.

Forseti, borgartjóri

Í stefnuyfirlýsingu meirihlutans segir að, með leyfi forseta: “Stjórnsýsla í ráðhúsi verði endurskipulögð og einfölduð.“ Tilvitnun lýkur

Þetta hefur verið gert varðandi eigna og framkvæmdamálin sem og heilbrigðisnefnd en sú ákvörðun reyndist síðan tóm endaleysa og hefur verið afturkölluð.

Ennfremur stendur til að færa samgöngumálin til skipulagssviðs, nokkuð sem ég hef aldrei fengið útskýrt og eitthvað fleira var í bígerð sem ákveðið var síðan í stjórnkerfisnefnd að bíða með, þar til heildarmyndin lægi fyrir eða þannig skildi ég þetta.

Á þeim tíma sem ég sat í stjórnkerfisnefnd hamraði ég á því að þær stjórnkerfisbreytingar sem hófust árið 2005 verði ekki kláraðar án þess að þær verði í samráði við borgarbúa og frumkvæði þeirra virkjað ekki seinna en strax.

Af hálfu stjórnkerfisnefndar undir stjórn borgarfulltrúa Dags B Eggertssonar hefur enn ekki verið gerð tilraun til að gera lýðræðislegan farveg fyrir borgarbúar til að geti verið með í þessu mikilvæga máli.

Formaðurinn hefur líka stollað tillögu mína um að formenn hverfisráðanna fundi með nefndinni en það gerir mig hugsi yfir stöðu minni og tilgangi sem formaður Hverfisráðs Árbæjar.

Ég var mjög mótfallin því í upphafi að taka embættið að mér þar sem ég bý ekki í hverfinu en það varð til að sannfæra mig um að taka þetta að mér tímabundið að formennirnir áttu að gegna mikilvægu hlutverki í stjórnkerfisbreytingunum og þetta var eina formennskan sem VG bauðst.

Ég er mjög hugsi yfir stöðunni ogverði ekki breyting á mun ég endurskoða þessa ákvörðun.

Forseti, borgarfulltrúar

Vandamálið virðist vera að þrátt fyrir tiltölulega góðan ásetning meirihlutans er allt að fara í handaskolum.

Fyrirheit um aukið íbúalýðræði, þorpin í borginni og Þjónustumiðstöðvarnar sem vera áttu að verða eins konar þorpsráðhús, þessi fyrriheit virðast hafa gleymst einfaldlega vegna þess að meirihlutinn byrjaði á vitlausum stað og tók ekki samtalið við íbúana.

Íbúar Reykjavíkur hafa lýst því yfir, á opnum borgarafundum að þeir vilji byggja upp hverfi borgarinnar með aukið umboð til beinna áhrifa á ákvarðanir sem snerta líf þeirra.

Á það hefur verið bent að þetta megi gera með því að færa stóraukin áhrif til hverfisráða að skandinavískri fyrirmynd.

Borgarstjórn afhendi hverfisráðum umboð til athafna þannig að þau verði raunhæfur samráðsvettvangur.

Hverfisráðin stýri allri grenndarþjónustu í nánu samstarfi við íbúa. Börn, ungmenni, foreldra, aldraða, innflytjendur og íbúar almennt, að íbúarnir fái vissu fyrri því að þjónusta borgarinnar sé þeirra, fyrir þá og á þeirra forsendum.

Horfið verði frá stofnanalausnum, til lausna sem á vettvangi og út frá þörfum einstaklinganna sem þær þurfa.

Þannig náum við að nýta best þá fjármuni sem til eru og þess má geta að lýðræðisbreytingarnar sem framkvæmdar voru í Osló höfðu í för með sér um sparnað. Sparnað sem fyrst og fremst var tilkominn vegna þess að nærumhverfið fer betur með fé.

Forseti, borgarfulltrúar

Ef verkefni dagsins hefðu þessa nálgun og hafin væri lýðræðisleg umræða um það stjórnkerfi sem við, íbúarnir viljumer ég ekki í vafa um að hverfalýðræðisnálgunin yrði fyrir valinu.

Og þá væru það Þjónustumiðstöðvarnar og lýðræðislega kosin hverfisráð sem færu með mikilvægan þátt þeirra málefna sem við fjöllum um hér og niðurstaðan yrði samkvæmt vilja íbúa nærumhverfisins.

Category : Úr borginni

Ræða í borgarstjórn

December 18th, 2010 // 11:40 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 23 athugasemdir

Ræða í borgarstjórn v/seinni umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011.

Forseti borgarfulltrúar

Þetta er fimmta árið sem ég tek þátt í umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkur. Þetta hafa verið langir fundir og þegar ræðum oddvitanna lýkur eru ekki margir að hlusta. Hvorki úr röðum kjörinna fulltrúa né almennings. Hinn árlegi maraþonræðufundur borgarstjórnar er í algleymingi og stendur langt fram á kvöld og jafnvel fram á nótt. Við erum föst í viðjum vanans. Fólk kemur og fer þar til menn halda heim í nóttina eða halda á vit glaums og gleði á næsta bar.

Hinni raunverulegu vinnu er að mestu lokið. Hún hefur farið fram í nefndum og ráðum en ekki síður í bakherbergjum stjórnmálanna. Örlög fjölmargra borgarbúa eru ráðin hvað nánust framíð varðar en þegar upp er staðið er um alvörumál að ræða. Hér erum við að höndla með atvinnumál þúsunda starfsmanna, framfærslu fátækustu Reykvíkinganna, og velferð barnanna í mestu kreppu sem riðið hefur yfir landið í 70 ár.

En það er ekki til einskis farið. Nú gerir minnihlutinn lokatilraun til að hafa áhrif á fjárhagsáætlun. Hér gefst okkur tækifæri til að koma með breytingartillögur vegna áætlunar meirihlutans og satt best að segja höfum við vinstri græn, sjaldan farið bónlaus til búðar þó svo að stóru línurnar hafi kannski ekki breyst.

Ég þreytist ekki að segja frá því að þegar aðgerðarhópur borgarráðs var í Helsinki í fyrra, sagði borgarstjórinn í þeirri fögru borg sem er nú að upplifa sína þriðju kreppu á stuttum tíma, við okkur : „Þið skuluð muna það, þegar að kreppir að eru það oft þeir með lægstu röddina sem hafa mestu þörfina“

Sé mark takandi á orðum þessa manns, sem ég geri þó að hann sé íhaldsmaður, þá er hin hliðin á þessum peningi væntanlega sú að stundum og jafnvel ofar en ekki er það þannig að þeir sem hafa minnstu þörfina hafa oft hæstu röddina. Hvorir eru til að mynda duglegri að tala sínu máli, utangarðsfólk og börn eða fólk úr menningar- eða íþróttageiranum?

Þeir fjármunir sem ráðstafað hefur verið á einn stað nýtast ekki á öðrum. Að forgangsraða á erfiðum tímum, krefst hugrekkis.

Forseti borgarfulltrúar

Meirihlutinn sem nú situr hefur látið það frá sér fara að hann vilji forgangsraða í þágu velferðarmála með áherslu á börn og ungmenni. Þetta eru mikilvægar áherslur á erfiðum tímum og ég vona svo sannarlega að þær verði í heiðri hafðar á komandi ári og að meirihlutinn verði tilbúinn til að leiðrétta kúrsinn ef alvarleg hætta steðjar að þessum hópum.

Í mínum huga á forgangsröðun fjármuna sveitarfélags að vera sú að fyrst verði séð til þess að allir hafi í sig og á, börn og ungmenni fái að menntast og þroskast á eðlilegan hátt og sjúkum og öldruðum sé sómasamlega sinnt. Annað verður að mæta afgangi þegar tekjurnar minka og kostnaður eykst.

Borgarfulltrúar eru nú að skera niður í rekstri borgarinnar í 3ja árið í röð og það er gengið nærri ýmsu sem talið var að ekki mætti skerða undir nokkrum kringumstæðum. Við þessar aðstæður þarf að hugsa allt upp á nýtt, komast úr viðjum gamalla ákvarðana sem ríma við hagsæld en ekki kreppu.

Flatur niðurskurður á ramma sem engin man lengur hvernig voru ákveðnir heftir raunverulega forgangsröðun. Fyrirhugaðar stjórnkerfisbreytingar auðvelda uppbrot rammanna og hjálpa til við að færa áherslur í forgargsröðun fjármuna að markmiðum sínum.

Sameingin sviða, samfara auknu vægi þjónustumiðstöðva, minni miðstýring samfara stóraukinni dreifstýringu. Þennan leiðangur sem hófst árið 2005 þarf að klára.

Það var reynsla Oslóborgarar að breytingar í þessa veru, efling nærþjónustu og nándarlýðræðis, höfðu í för með sér um 10% sparnað og það var ekki síst rakið til þess að kraftmiklar þjónustumiðstöðvar og öflug hverfisráð með sjálfsákvörðunarrétt í mikilvægum málum fara betur með fé í nærumhverfinu.

Í samstarfssáttmála núverandi meirihluta er það alveg skýrt að þessa leið á að fara og í því tek ég þátt af heilum hug. Að mínu mati er það mikilvægt að fljótlega á næsta ári verði tekin ákveðin skref með það í huga að verkefninu verði að miklu leiti lokið um næstu áramót.

Það skiptir þó megin máli að starfsfólk borgarinnar og ekki síður borgarbúar sjálfir, verði þátttakendur í þessum ferli.

Forseti borgarbúar

Sveitarstjórnir víða um land mótmæla niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Það eru haldnir fundir þar sem stór hluti íbúanna mætir. Það logar allt á landsbyggðinni og menn sjá árangur baráttunnar en hvað gerist hér? Er ekki verið að skera niður heilbrigðisþjónustuna í Reykjavík? Jú, það er verið að gera það. Á þessu ári og því næsta er verið að segja upp fleiri hundruð manns á Landspítalanum.

Þar eru stórir hópar starfsmanna að fá uppsagnarbréfið í annað sinn. Er sveitarfélagið Reykjavik að verja þetta fólk? Ég hef ekki orðið var við það. Stærstur hluti þeirra sem verið er að reka eru láglaunakonur. Erum við að hafa áhyggjur af því að þjónustustigið á Landspítalanum sé að minnka samfara auknu álagi vegna niðurskurðar á landsbyggðinni?

Er ekki kominn tími til að mótmæla því að stöðugt er verið að senda sjúklinga fyrr heim af sjúkrahúsum og rukka þá síðan fyrir hverja komu á spítalann? Að því fyrr sem fólk er sent heim og því fleiri sem þurfa að bíða eftir plássi, eykst álagið á félagslega heimaþjónustu í Reykjavík. Það er verið að taka ákvörðun þessa dagana. Mótmælin á landsbyggðinni hafa haft sín áhrif. Er ekki komin tími til að borgárráð láti í sér heyra?

Og við eigum að hafa skoðanir á fleiru og vera ekki hrædd við að opinbera þær. Eigum við ekki að fara fram á það að svo verði um hnútana búið að sveitarfélögin fái auknar tekjur?

Að vegna tekjumissis og kostnaðarauka séu auknar tekjur forsendur þess að okkur takist að halda í horfinu hvað varðar velferð íbúanna og menntun og þroskamöguleika barnanna okkar? Að það þurfi að jafna í samfélaginu þegar kreppir að?

En við erum kannski ekki vel í stakk búin. Það má kannski álykta sem svo að sveitarfélag sem ekki fullnýtir útsvarsheimildina skorti varla fé. Ég hef sagt það áður hér í sölum borgarstjórnar að ég furða mig á afstöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til skattamála. Flokkurinn barðist gegn því að R- listinn hækkaði útsvarið upp í 13,03% en lækkaði það þó ekki þegar hann komst í aðstöðu til þess.

Þó komust þau til valda á miklum uppgangsárum í borgarsögunni, árið 2006 þar sem skattheimtan var góð, mikil lóðasala, fólksfjölgun, lítið atvinnuleysi og hagstætt gengi. Ef einhvertíma hefur verið grundvöllur fyrir lækkun útsvars þá var það við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2007 en valdaflokkurinn stóð ekki við stóru orðin þá.

Þegar allt hrundi svo í haustið 2008 og ljóst var að um mikinn tekjumissir og gríðarlega útgjaldaaukningu yrði að ræða hjá sveitarfélögunum heimilaði ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins, þeim að hækka hámarks útsvarið um 0,25%. Langflest sveitarfélög á landinu þáðu boðið en ekki Reykjavík íhaldsins. Frekar en að hækka útsvarið var niðurskurðurinn aukin. Þegar VG lagði til, við gerð síðustu fjárhagsáætlunar að útsvarið yrði hækkað um 0,25% sagði þáverandi borgarstjóri, borgarfulltrúi Hanna Birna Kristjánsdóttir að það myndi hún ekki gera því að slíkt væri leið hins lata. Þessi afstaða hefur kostað borgina á 1 – 1 1/2 milljarð.

Það er gott að núverandi meirihluti skuli hækka útsvarsprósentuna en undarlegt að hann taki ekki skrefið til fulls. Nú er reyndar ekki talað um leið hins lata, nú er talað um blandaða leið, að fara bils beggja. Borgarfulltrúi Sóley Tómasdóttir hefur skýrt það mjög vel og meðal annars í ræðu sinni hér áðan að skattaleiðin er mun sanngjarnari en sú gjaldskrárhækkunarleið sem verið er að fara ef um valkosti er að ræða. Að fullnýting útsvarsheimildar við þessar aðstæður er merki um ábyrga fjármálastjórn og félagslega hugsun. Það yrði náttúrulega hjáróma að sveitarfélag sem telur sig ekki þurfa að fullnýta útsvarið færi fram á meiri skattheimtu. En það er einmitt það sem þarf.

Við sem erum kjörin af borgarbúum eigum að verja þeirra hag. Það er okkar skylda. Við eigum að þora að beina spjótum okkar að ríkisvaldinu, hvar í flokki sem við stöndum. Við eigum ekki að leggja til skerðingu á námi barna eða, fjarhagsaðstoð undir fátækramörkum nema engar aðrar leiðir séu færar. Tillaga Lilju Mósesdóttur um að skattleggja valfrjálsan séreignasparnað strax myndi færa sveitarfélögunum um 10 milljarða.

Flokksráð Vinstri græna sem haldin var í Reykjavík 19.-20. nóvember síðastliðinn ályktaði svona með leyfi forseta: „Flokksráðið leggur áherslu á að sveitarfélögum verði gert auðveldara að verja grunnþjónustu sína á tímum tekjumissis og útgjaldaauka. Ráðherrar og þingmenn flokksins eru hvattir til að beita sér fyrir hækkun fjármagnstekjuskatts sem renni til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.“ Tilvitnun lýkur.

Ég vona að þingmenn okkar séu að vinna í þessu máli á milli umræðna um fjárlög því þarna er að mínu mati um sjálfsagt réttlætismál að ræða. Við erum að tala um að skattleggja dágóðan hóp hátekjufólks sem leggur ekkert að mörkum til sveitarfélaganna sem það býr í.

Í fyrra þegar ég fékk það reiknað út hverju 5% skattheimta á fjármagnstekjuskatti með sanngjörnu gólfi, skilaði varð útkoman yfir 7 milljarðar. Nokkuð sem myndi skipta sköpum í rekstri sveitarfélaganna.

Forseti borgarfulltrúar

Að mínu mati verður skorið úr því í fjárlögum ríkisins og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga þessa árs hvort verið sé að sigla úr því sem við höfum metið hingað til sem velferðarsamfélag yfir í ölmususamfélag súpueldhúsa og matarbiðraða. Því miður virðist mér að hið síðara hafi orðið fyrir valinu. Í fjárlögum er ekki að sjá að ríkið ætli að hækka bætur en við skulum þó spyrja að leikslokum því nú á milli umræðna eru þingmenn VG að reyna að framfylgja annarri flokksráðsályktun frá því um daginn, en þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„ Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, lýsir yfir áhyggjum sínum af því ef íslenskt samfélag breytist úr því sem kalla má velferðarsamfélag í ölmususamfélag. Við svo búið má ekki standa. Það er brýnasta verkefni vinstri ríkisstjórnar, þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa VG að snúa þessari þróun við. Félagshyggjufólk getur ekki sætt sig við fátækt enda eru það sjálfsögð mannréttindi að allir íbúar landsins fái lifað með reisn, hafi í sig og á og þak yfir höfuðið.

Flokksráðið beinir því til sveitarstjórnarfólks og þingflokks að beita sér fyrir því að öll laun, hvort sem um er að ræða lágmarkslaun, lífeyri, framfærslustyrki eða bætur, verði færð upp fyrir lágtekjumark Hagstofu Íslands sem nú er 160.800 kr. í ráðstöfunartekjur fyrir einstakling á mánuði. Upphæðin verði endurskoðuð þegar lágmarksframfærsluviðmið liggur fyrir, en ekki er lengur hægt að láta þá sem hafa lægri tekjur gjalda þess að viðmiðið skuli ekki tilbúið. „ Tilvitnun lýkur.

Viðmið sem flokksráðið vísar til. Nokkuð sem verið hefur til umræðu í mörg ár og stjórnmálafólk lofað en alltaf heykst á, átti að liggja fyrie í desember eða svo sagði ráðherra okkur sem sóttum ráðstefnu um fátækt í Grandhótel í haust. Nú er okkur sagt að þessi útreikningur, það er að segja lágmarksframfærsluviðmið, verði ekki tilbúið fyrir áramót því verið sé að reikna eitthvað annað út.

Eigum við ekki, ágætu borgarfulltrúar að ýta á það að það komist á hreint hversu mikið fólk þarf að hafa í tekjur til þess að hafa í sig og á og þak yfir höfuðið. Staðreyndin er sú að yfir 10% þjóðarinnar lifir á tekjum undir fátækramörkum og hlutfallið fer hækkandi á meðan tekjumunur í samfélaginu vex stöðugt eins og sjá má Gini stuðlinum. Þeir ríkustu verða ríkari á meðan fátækum fjölgar.

Forseti borgarfulltrúar

Samvinna og samráð við gerð fjárhagsáætlunar var óvenju erfið þetta haustið og vel má sjá það í bókunum minnihlutans að það var ekki til að auðvelda vinnuna að tímaáætlanir meirihlutans reyndust orðin tóm, skilaboðin óljós og ómarkviss og gögn bárust seint og illa.
Satt best að segja hef ég ekki kynnst eins slæmum vinnubörðum við gerð fjárhagsáætlunar velferðarsviðs og nú. Mér finnst þó bót í máli að borgfarstjóri skuli viðurkenna þetta, í ræðu sinni hér áðan og lofa betri vinnubrögðum á næsta ári.

Þá, hvet ég til þess að það verði skoðað sérstaklega að nú sem og á síðustu árum hefur skort yfirsýn meðal fulltrúa í fagráðum af heildarmynd fjárhagsáætlunar. Þetta heftir það sem mestu máli skiptir, umræðu um forgangsröðun á milli sviða. Í leiðarljósi meirihlutans sem kom seint og um síðir segir að það sé „forgangsverkefni að verja velferðarkerfið og þjónustu við börn og unglinga“. Þetta rímar ekki að mínu mati við áherslu borgarstjóra í gjaldskrármálum en þar eru öll sviðin, nánast með jafnmikla gjaldskrárhækkunarkröfu hvort sem um er að ræða byggingar eða börn. Þetta er eitt af því sem endurskoðun á stjórnsýslunni gæti hjálpa við að leysa.

Það liggur ekki fyrir hvort um verði að ræða fækkun starfsfólks á velferðarsviði en spurningum mínum þar um hefur ekki verið svarað. Það er hinsvegar ljóst að miðað við þann þrönga ramma sem gefin er má búast við því að á árinu 2011 verði ekki, í öllum tilvikum staðinn vörður um störfin eða ráðið inn í störf sem losna þó að þörf sé á ráðningu. Fjármagn til þess verður einfaldlega ekki til staðar.

Forseti, borgarfulltrúar

Í tillögum meirihlutans að fjárhagsáætlun velferðarsviðs fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir talsverðum niðurskurði og samsvarandi skerðingu á þjónustu. Þetta er þá þriðja árið í röð sem skorið er niður í málaflokknum. Það má því segja að verið sé að skera inn í bein, með auknu álagi á starfsfólk sem, þar að auki hefur orðið að taka á sig launalækkanir.
Það að ekki sé verið að verðbæta á milli ára er náttúrulega niðurskurður. Á árinu er því spáð að neysluvísitalan hækki um 3% en allir vita að verðbólgan hefur verið meiri. Lækkandi húsnæðisverð hefur haft þessi áhrif á vísitöluna. Þar fyrir utan þarf velferðarsvið að mæta hækkunum á útgjöldum. Um er að ræða fjölgun stöðugilda Barnaverndar Reykjavíkur, smáhýsi á Granda, skammtímaheimili fyrir unglinga, Foldabæ, búsetuúrræði SÁÁ, ofl.

Þegar tekið er tillit til fjármuna sem, í einhverjum tilfellum hefur verið ónýttir vegna annarra þátta er fjárþörf sviðsins til að mæta þessum breytingum um 117 milljónir, samkvæmt sviðstjóra.

Á meðal tillagna til hagræðingar vegna þessa er: Lækkun almennra styrkja og þjónustusamninga, aukið hópastarf í liðveislu í stað einstaklingsliðveislu, sjálfbærara félagsstarf fyrir aldraða sem hefur í för með sér verulega fækkun stöðugilda í félagsstarfi aldraðra, lækkun á niðurgreiðslu í strætó og í sund fyrir aldraða og öryrkja, breytingar á reglum og uppbyggingu gjaldskrár í akstursþjónustu aldraðra, til sparnaðar og samþættingu næturþjónustu fyrir fatlaða á sólarhringsstarfstöðvum.

Engar beinar tillögur hafa verið lagðar fram um þetta en þær hljóta að koma í velferðarráð og þá verður náttúrulega krafan sú að haft verði samráð við hagsmunasamtök aldraðra og fatlaðra því það sér það hver sá sem skoðar þessar tillögur að þær geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér hvað varðar einangrun einstaklinga úr þessum hópum.

Þar að auki er það verulega varhugavert að verðbæta ekki samninga við sjúklingasamtök og áfangaheimili þriðja árið í röð og ætla nú, að skera niður fjármuni til þeirra í ofanálag. Þetta gæti, í einstökum tilfellum og hugsanlega nokkrum, riðið starfseminni að fullu. Á þessum stöðum flestum er unnið mikilvægt sjálfboðaliðastarf og það er næsta víst að kostnaður borgarinnar myndi stóraukast auk þeirra hörmunga sem af slíku gæti hlotist ef starfsemin lognaðist útaf.

Núverandi varaformaður velferðarráðs skrifaði stoltur í Fréttablaðið 24 nóvember sl grein sem ber yfirskriftina „Gleðiefnið hækkun framfærslu í Reykjavík“ Í greininni segir með leifi forseta: „Vinstri grænir aftur á móti eru afar ósáttir við að við hækkum ekki meira, við athuguðum það og urðum að hverfa frá því í bili“. Tilvitnun lýkur. Ástæðuna fyrir þessu fráhvarfi má sjá í bókun meirihlutans í velferðarráði frá 17 nóvember sl., með leifi forseta „Eins og fram kemur í greinargerð með tillögu okkar er ekki hægt að hækka ráðstöfunartekjur fólks upp að lágtekjumörkum þar sem borgin verður þá komin með á framfæri þúsundir atvinnulausra Reykvíkinga sem eru undir þessum mörkum.“ Tilvitnun lýkur

Á þessu byggja meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn það að þeir þurfi að ganga á bak kosningaloforða, samstarfsyfirlýsinga og ekki síst loforða sem finna má í bókunum frá fundum velferðarráðs í vor og sumar. Það er ekki hægt að skilja fréttatilkynningu Besta flokksins og Samfylkingarinnar um málið öðru vísi en svo að verið sé að hækka í tekjum alla notendur fjárhagsaðstoðar. Þannig hefur fréttaflutningurinn verið. Það er ekki hægt að lesa annað úr grein varaformannsins og formaður velferðarráðs segir í viðtali sem birtist á visir.is, 22 nóvember sl. með leyfi forseta: „ Við sem unnum að þessum tillögum vorum sammála um að hún (þe fjárhagsaðstoðin) var of lág og að ekki sé hægt að lifa af 125.500 krónum og ákváðum að fara upp að atvinnuleysis bótum sem nú eru 149.500. ”

Besta flokknum og Samfylkingunni hefur tekist að spinna þetta mál, vel gagnvart fjölmiðlum sem ekki hafa spurt meirihlutann í Reykjavík að því, hvers vegna auka eigi á hlutfallslega skerðingu hjóna og sambúðarfólks og hver sé yfir höfuð ástæðan fyrir skerðingunni. Rökstuðningurinn um að ekki megi fara yfir atvinnuleysisbætur dugar ekki þarna. Þeir sem eru á atvinnuleysisbótum fá ekki á sig skerðingu fyrir það að vera gift eða í sambúð. Hver er ástæðan fyrir því að ekki aðeins er verið að viðhalda þeirri skerðingu sem umræddir einstaklingar fá á sig í dag heldur á að lækka þá hlutfallslega í tekjum?

Núna er það þannig að hlutfall hjóna og sambúðafólks af grunnfjárhæðinni er 1,6. Með ákvörðun sinni er meirihlutinn, frá og með áramótum að lækka hlutfallið í 1,5. Þegar grunnfjárhæðin verður hækkuð í 149.000 kr og ef fyrri ákvörðun um skerðingu gilti ættu hjón og sambúðarfólk að vera með 238.400 kr. Eftir breytinguna verða þau með 223.500 kr. Mismunurinn er 14.900 kr. á mánuði. Meðan að hjónin á fjárhagsaðstoð fá 223.500 kr. fá atvinnulaus hjón 299 000 kr.

Og hver er ástæðan fyrir því að fjölmiðlar hafa ekki spurt meirihlutann í Reykjavík að því, hvers vegna tveir hópar sem þiggja fjárhagsaðstoð fá enga hækkun á tekjum sínum? Fólk fær ekki skertar atvinnuleysisbætur með þeim rökum að það búi hjá öðrum, beri ekki kostnað vegna húsnæðis eða búi hjá foreldri. Hver er ástæðan fyrir því að meirihlutinn ætlar ekki aðeins að viðhalda þeirri skerðingu sem umræddir hópar hafa mátt þola heldur stendur til að verðbæta ekki á milli ára eins og alltaf hefur verið gert?

Samkvæmt meirihlutanum verður „grunnfjárhæð þeirra sem búa með öðrum eða bera ekki kostnað vegna húsnæðis áfram óbreytt 125..540 kr. á mánuði.“ út næsta ár og „grunnfjárhæð fyrir einstakling sem býr hjá foreldrum verður 74.500 kr. á mánuði“ óbeitt, út næsta ár. Þessir tveir hópar telja um 280 manns samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði.Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki spurt meirihlutann í Reykjavík að því, hvort hann sé tilbúinn að færa fjárhagsaðstoðina að lágtekjumörkum ef ríkið hækkar atvinnuleysisbætur en það er einmitt verið að skoða núna í á milli umræðna um fjárlög?

Forseti borgarfulltrúar

Ég heyrði ekki betur en að borgarstjóri væri með breytingartillögu sem miðar að því að sinna fátækum börnum. Ekki veit ég hvort hann hafi í huga tillögu sem ég hef lengi barist fyrir og var loks samþykkt í velferðarráði um daginn en hún fjallar um greiningu á stöðu barna í fjölskyldum sem eiga í alvarlegum fjárhagsvanda og að sérstaklega verði brugðist við þeim. Ég hvet eindregið til þess að borgarstjóri og borgarfulltrúar taki þessa samþykkt alvarlega því að það var þetta sem ég upplifði í ferð minni til Helsinki að borgarfulltrúar og embættismenn þar hefðu mesta samviskubitið yfir.

Að hafa brugðist fátækum börnum í kreppunum sem riðu yfir með stuttu millibili og að þessi börn fylltu nú hóp undirmálsfólks í borgarsamfélagi Helsinki. Barnaverndarmál voru mikið til umræðu í borgarráði og borgarstjórn, síðastliðið haust eins og sjá má í fundargerðum. Þær umræður enduðu með því að fjölgað var í barnavernd Reykjavíkur um 3 stöðugildi að frumkvæði VG. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir ári lögðum við til breytingartillögu um að 27 milljónum yrði varið í umrædda fjölgun starfsfólks. Sú tillaga var sett fram vegna þess að ekki var gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun en hún var felld. Núna er verið að hagræða fyrir þessu á sviðinu.

Þegar þetta var gert var það rætt við Barnaverndarstofu að gerð yrði óháð úttekt á barnavernd Reykjavíkur. Þegar hinsvegar var búið að fjölga um 3 stöðugildi þótti ráðlegra að bíða með að taka ákvörðun um úttektina til hausts en ég hef ekki heyrt af málinu síðan.

Við vinstri græn leggjum sérstaka áherslu á að tekið verði á málefnum barnaverndar af festu. Í bókun velferðaráðs sem lögð var fram 9. desember í fyrra segir meðal annars með leyfi forseta: „Sérstakt aðgerðateymi á Velferðarsviði fylgist náið með barnaverndartilkynningum og stöðu mála almennt hjá Barnavernd Reykjavíkur. Nú liggur fyrir að tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur hefur fjölgað um 15,7% milli janúar til október samanborið við janúar til október 2008 og tilkynnt hefur verið um 12,1% fleiri börn á sama tímabili.

Brugðist var við auknu álagi í vor með viðbótarstöðugildi. Nú er ljóst að álagið er ennþá mikið og því þykir rétt að styrkja starfsemina enn frekar. Líklegt er að á næstu árum muni tilkynningum um börn sem þurfa aðstoð barnaverndar, halda áfram að fjölga og að álag muni aukast á þennan hluta velferðarþjónustu samfélagsins.“ Tilvitnun lýkur. Það dró úr fjölguninni um tíma en nú er mér tjáð að fjölgun sé í barnaverndarmálum og sem dæmi séu fleiri börn í neyslu og aðsókn í unglingadeild SÁÁ hafi aukast seinnipartinn á þessu ári.

Ég get ekki farið frá velferðarmálunum án þess að minnast á málefni utangarðsfólks. Þar hefur margt gott verið gert á undanförnum árum en betur má ef duga skal.

Ég er ekki endilega viss um að mikið meira fjármagn þurfi í málafaflokkinn en að mínu mati er nauðsynlegt að endurskipuleggja og bjóða faglegri og nútímalegri úrræði. Meirihlutinn hælir sér af því að búið sé að opna úrræði fyrri konur í neyslu en á það er bent að þetta var þegar í fjarhagsáætlun þessa árs og ákveðið fyrir 3. Árum. Ég geri mér vonir um að þessi mál verði tekin föstum tökum á komandi ári og mun leggja mitt að mörkum.

Forseti, borgarfulltrúar

Umhverfis- og samgöngumál hafa alla jafna verið í nokkuð góðri sátt í Reykjavík á undanförnum árum. Stefna R- listans, Reykjavík í mótun og stefna Meirihlutans, sem réði megnið af síðasta kjörtímabili, Græn skref, eru nokkuð samhljóma um metnaðarfullri umhverfisstefnu í borg. Starfsfólk umhverfissviðsins og samgöngusviðs er að mínu mati afburðagott fagfólk og þetta samanlagt hefur skapað sátt um málaflokkinn. Það er þó ekki svo að fulltrúar í ráðinu séu alltaf sammála og ég gerði sérstaklega athugasemd við lokun vinnuskólans fyrir 13 ára nemendur og fækkun sumarstarfsfólks. Borgarfulltrúi Sóley tómasdóttir hefur gert starfsmannamálum ágæt skil og ég ætla ekki að endurtaka það hér.

Megin deiluefnið í ráðinu á nýju kjörtímabili hefur verið úrlausnarefni í úrgangsmálum þar sem ég tel að verið sé að skaða Sorpu. Fyrirtæki sem við eigum meiripartinn í og um leið sé verið að hygla eikaaðilum. Þessa umræðu má sjá í bókunum ráðsins en ég mun biðja um að þetta mál verði sérstaklega tekið á dagsskrá borgarstjórnar fljótlega á næsta ári.

Forseti, borgarfulltrúar

Við Vinstri græn leggjum fram nokkrar breytingartillögur sem að okkar mati eru byggðar á sanngirni sjónarmiðum. Félagar mínir, borgarfulltrúarnir Sóley Tómasdóttir og Líf Magneudóttir hafa talað fyrir nokkrum þeirra en ég æta nú að fjalla fyrir fjórum. Þrjár þeirra varða fjárhagsaðstoð. Þar af eru tvær lagðar fram vegna þess að um er að ræða hópa sem eru skildir eftir, það er að segja, þeir hækka ekki í tekjum á milli ára og síðan er tillaga um að hætt verði við aukna hlutfallslega skerðingu á fjárhagsaðstoð til hjóna og sambúðarfólks.

Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru í borgarráði um daginn verður stærsti hluti þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð hækkaður verulega í tekjum um áramótin. Þó verður nokkur hópur skilinn eftir með sömu fjárhæð og ákveðin var um síðustu áramót það er að segja, sömu krónutölu. Fari sem horfir mun þetta gilda út næsta ár þrátt fyrir verulega kaupmáttarskerðingu á tímabilinu.

Og tillögurnar eru þá þessar, með leyfi forseta:
V-2 Fjárhagsaðstoð

Lagt er til að 54.milljónir kr. verði færðar á liðinn framfærslustyrk (VÞ1020) þannig að hægt verði að:

Hækka stuðul hjóna/sambúðarfólks úr 1,5 í 1,6 vegna grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar (5.5 milljónir.).

Hækka grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar einstaklinga sem búa með öðrum og bera ekki kostnað vegna húsnæðis um 10% (42.milljónir.kr.).

Hækka grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar einstaklinga sem búa hjá foreldrum um 10% (6.500 milljónir kr.).

Útgjaldaauki vegna þessa verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð.

Ég vil síðan mæla fyrir einni breytingartillögu til. Þar er um að ræða málaflokk sem ég hef talað fyrir frá því að ég fór að taka þátt í gerð fjárhagsáætlunar og ég man ekki betur en að við höfum fengið samþykkta hækkun á hverju ári. Um er að ræða ferlimál fatlaðra en þangað voru samþykktar 50 miljónir í fjárhagsáætlun þessa árs eftir að breytingartillaga VG um 15 milljónir var samþykkt . Samkvæmt þeim upplýsingum sem eru í fjárhagsáætluninni verða aðeins notaðar tæpar 30 milljónir af því fé í málaflokkinn. Þetta er sennilega skýringin á því að lagt er til að fyrri árið 2011 fari að aðeins 30 milljónir í ferlimálin.

Ferlimál fatlaðra hafa verið mér hugleikin síðan ég fór að taka þátt í borgarpólitíkinni og raunar ein af meginástæðum fyrir því að ég flæktist í þetta net í upphafi. Ég gagnrýndi R-listann hart fyrir það sem ég vildi meina að væri getuleysi á þessu sviði og síðan ég komst í borgarstjórn hef ég flutt tillögur um málið í framkvæmdaráði, borgarráði og borgarstjórn.

Staðreyndin er sú að margar byggingar borgarinnar af öllu tagi eru óðaðgengilegar fötluðum. Undir þetta falla grunnskólar, leikskólar, sundlaugar, bókasöfn og svo mætti lengi telja. Þegar 100 daga meirihlutinn gerði fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 voru sett til ferlimála, utan hefðbundinna framkvæmda, 10 milljónir sem nýta skyldi til úttektar á byggingum í eigu Reykjavíkurborgar með tilliti til aðgengis. Meiningin var sú að í kjölfar úttektar og kostnaðargreiningar yrði hrint í framkvæmd áætlun til nokkurra ára, með það að markmiði að gera allt gamalt húnsæði í eigu borgarinnar aðgengilegt en nokkur ár eru síðan þessar kröfur voru gerðar til níbygginga.

Ráðnir voru til starfa sérfræðingar á sviði aðgengismála og þeir hófu vinnu sem lofaði góðu en síðan tóku nýir herrar við valdataumunum og ekki bólar á áætluninni En ég geri mér ríkar vonir um að ný ferlinefnd undir forystu borgarfulltrúa Páls Hjaltasonar taki upp þráðinn. Eftir sem áður er það ljóst að of litlu fé er varið til aðgengismála og því leggjum við til a

Category : Úr borginni

Atvinnulausir og þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð fái frítt í sund og fleira

April 21st, 2010 // 10:49 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 41 athugasemdir

Ræða í borgarstjórn 20.apríl 2010

Forseti, borgarfulltrúar. Með leyfi forseta flyt ég tillögu sem að hluta til er samhljóða tillögu sem ég flutti hér í borgarstjórn 16. mars síðastliðinn. Tillagan fjallar um það að atvinnulausum og fólki á fjárhagsaðstoð verði gert kleift að sækja sundstaði borgarinnar sér að kostnaðarlausu en við hana er nú bætt tillögu um að það sama gildi um bókasöfn borgarinnar. Það er nú svo í mínum huga allavega að þessi tillaga er neyðarbrauð. Hún túlkar þá staðreynd að hér í borg er fólk sem ekki hefur efni á því að veita sér það sem öðrum finnst vera sjálfsagt. Hún túlkar þá staðreynd að í borginni okkar er fátækum að fjölga.

Fátækt er í sjálfu sér afstætt hugtak og þegar kemur að tölfræðinni skiptir náttúrlega máli að skilgreiningar séu á hreinu. Evrópusambandið og OECD tala um afstæð fátæktarmörk. Þá er fólk skilgreint sem fátækt ef tekjur þess fara undir fyrirfram skilgreint hlutfall af tekjum tiltekins viðmiðunarhóps. Í tilfelli Evrópusambandsins sem  notar þessa aðferð við mælingar á fátækt meðal aðildarríkja,  er þar miðað við að einstaklingur sé fátækur ef tekjur hans eru lægri en 50% af miðgildi ráðstöfunartekna landa hans. Í þeim mælingum er einnig tekið tillit til fjölskyldustærðar og reiknað með að maki þurfi 70% af tekjum sambýliskonu eða -manns og börn þarfnist 50% af tekjum fullorðinnar manneskju. Því miður hafa ekki verið að mér vitandi reiknuð út fátækramörk á Íslandi en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera, hafi það ekki verið gert, þá er nauðsynlegt að gera það þannig að umræðan við þessar aðstæður verði á vitrænu stigi.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem rædd verður hér á eftir, hefur tröllriðið allri umræðu undanfarna daga. Í skugga skýrslunnar var haldin stórmerkileg málstofa á vegum Seðlabanka Íslands undir heitinu „Hvernig hefur staða heimilanna breyst á undanförnum árum og hverju fá aðgerðir í þágu heimilanna áorkað?“ Þar voru frummælendur þau Karen Á. Vignisdóttir og Þorvarður Tjörvi Ólafsson sem eru bæði hagfræðingar Seðlabankans. Þeirra málflutningur og glærurnar sem þau notuðust við má sjá á heimasíðu Seðlabankans og ég hvet ykkur til að skoða þær. Ég ætla svo sem ekki að kafa djúpt í þær núna enda er þar um að ræða, að mati okkar, borgarfulltrúa Vinstri grænna, dagskrárefni út af fyrir sig. Við  leggjum sem sagt til að staða heimilanna með tilliti til aukinnar fátæktar verði sett á dagskrá næsta fundar borgarstjórnar. Ég vil þó nefna að í máli hagfræðinganna kemur það fram að 14% heimila ná ekki endum saman og að 8% að auki eigi í mesta basli með að ná endum saman. Að um 28.000 heimili séu með neikvæða eiginfjárstöðu og þegar staða barnafólks þar sem allt heimilisfólk er yngra en 40 ára er skoðuð kemur í ljós að eiginfjárstaðan er neikvæð hjá 65% þeirra. Að 20% einstæðra foreldra nái ekki endum saman og 15% til viðbótar séu á mörkunum. Og þá kemur náttúrlega ekki á óvart að af 8.850 heimilum með tekjur um eða undir 150.000 kr. á mánuði er 80% þeirra í sérstökum vanda. 80% af 8.850 heimilum.

Og það er einmitt þetta fólk sem ætti að njóta góðs af  tillögunni sem  hér er lögð fram. Í ræðunni sem ég flutti hér 16. mars rakti ég feril þessa máls. Munnlega tillögu sem ég vísaði til aðgerðahóps borgarráðs í desember 2008 en á þeim tíma vorum við að reikna með 7% atvinnuleysi, og fannst það alveg svakalegt. Ég held að það sé um 10% í dag. Atvinnumálahópurinn undir forystu Svandísar Svavarsdóttur sendi borgarráði skýrslu 16. febrúar 2009 þar sem lagt var til  að athugaður yrði sá kostur að bjóða atvinnulausum frítt í sund og á bókasafn til að tryggja samfélagslega virkni þeirra. Ég fór í gegnum kostnað borgarinnar vegna tillögunnar og ætla ekki að gera það aftur hér, ég fór nokkuð nákvæmlega í gegnum mögulegan kostnað, það er erfitt að reikna þetta út nákvæmlega, en að mínu mati er hann ekki verulegur miðað við þau gæði sem af tillögunni hljótast.

Forseti, borgarfulltrúar. Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur rekur sjö sundlaugar. Í þjónustu sundlauganna birtist vel sá þáttur í menningu borgarbúa sem við tengjum við heilbrigða lífshætti, jafnframt því sem segja má að sundlaugarnar séu aldingarðar Íslands, þar sem íbúarnir, í stað þess að sitja á bekkjum garðanna, sitja á bekkjum pottanna og ræða málin, hvernig sem veðrið er. Og menning okkar á sér einnig djúpar rætur í bókasöfnum borgarinnar. Grunnurinn að Borgarbókasafninu sem var stofnað 1919 var lagður með fé sem fékkst við sölu á fiskibátum sem borgin átti og seldi til Frakklands, þetta var verið að segja mér áðan. Stofnun alþýðubókasafns var einmitt eitt af skilyrðum fyrir sölunni. Borgarbókasafn hefur ávallt verið mikilvægt en líklega aldrei sem nú þar sem þjónusta og safnkostur þess veitir aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hægt er að hugsa sér auk þess sem hæft starfsfólk safnana getur auðveldað gestum leit sína að þeim upplýsingum sem þeir sækjast eftir. Mikil fjölgun atvinnulausa og fólks á fjárhagsaðstoð hefur kallað á virkniáætlun sem verið er að ýta úr vör. Að forða fólki frá þeirri deyfð og því þunglyndi sem fylgt getur aðgerðaleysinu og hjálpa því aftur inn á vinnumarkaðinn og til almennrar virkni er þetta og þessi tillaga þjóðhagslega hagkvæm. Hvatning til sundferða og heimsókna á bókasöfn getur átt stóran þátt í að auka lífsgæði atvinnulausra og þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar. En eins og áður sagði er tillagan sem hér er lögð fram  í raun neyðarbrauð.

Samfélag sem sættir sig við fátækt íbúa sinna er ekki gott samfélag. Sú þróun sem við horfum upp á þar sem æ fleiri fara niður fyrir fátæktarmörk er ekki það sem við viljum. Ég, sem félagshyggjumaður, hlýt að gera þá kröfu að allir hafi nægar tekjur til að framfleyta sér og sínum á sómasamlegan hátt. Að við bjóðum ekki upp á samfélag sérlausna fyrir fátæka sem myndast með biðröðum á hjálparstofnunum, svo dæmi sé tekið. Að allir hafi rétt til að lifa með reisn og því verði ekki náð nema að lágmarkslaun, hvort sem það eru samfélagslaun í formi fjárhagsaðstoðar, tryggingabóta og atvinnuleysisbóta eða samningar á milli verkalýðfélaga og atvinnurekaenda, að allir hafi tekjur sem dugi til þess að lifa sómasamlega lífi. En þannig er það því miður ekki í dag, góðir borgarfulltrúar. Fjárhagsaðstoðin og atvinnuleysisbæturnar standa í stað á meðan verðbólgan stígur. Þeir fátæku verða fátækari og við þær aðstæður er tillaga sem þessi réttlætanleg.

Tillagan er þá þessi:

Lagt er til að þeir íbúar borgarinnar sem eru atvinnulausir og þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð fái frítt á sundstaði borgarinnar og frí notendakort að þjónustu Borgarbókasafns út árið 2010. Borgarstjóri útfæri nánar framkvæmd tillögunnar.

Og að lokum vil ég árétta það að í samskiptum mínum við starfsfólk borgarinnar tel ég að tryggja megi það að atvinnulausir og fólk á fjárhagsaðstoð geti notið þessa án þess að verða sér á nokkurn hátt til minnkunar.


Category : Úr borginni

Lækkun á framlögum við borgarstjórnarflokka

January 29th, 2010 // 12:18 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 38 athugasemdir

Forsætisnefnd 29 01 10

Lögð fram að nýju svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna við fjárhagsáætlun ársins 2010, sem vísað var til forsætisnefndar á fundi borgarstjórnar 15. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 17. s.m.:

  • Lagt er til að sérfræðiaðstoð til borgarstjórnarflokka verði lækkuð um 15.000 þ.kr. Sparnaður verði færður á liðinn ófyrirséð.
  • Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar um málið, dags. 27. þ.m.

Afgreiðslu málsins er frestað.

Þorleifur Gunnlaugsson óskar bókað:
Fram hefur komið að greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði úr 13,9 milljónum króna árið 2006 í 32,75 milljónir árið 2007. Undanfari þessarar hækkunar var að árið 2006 var ákveðið að ýmis kostnaður sem áður féll á sveitarfélög við alþingis- og forsetakosningar skyldi framvegis greiddur af ríkissjóði en vafasamt er að réttlæta það að þessar breytingar leiddu af sér færslu fjármuna til stjórnmálaflokka í Reykjavík.

Það hefur einnig komið fram að framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka eru meira en helmingi hærri en framlög annarra sveitarfélaga, svo sem Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu. Það er hinsvegar ljóst að Reykjavíkurborg er skylt skv. lögum að veita þeim stjórnmálasamtökum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, fjárframlög til starfsemi sinnar, og skal heildarfjárhæðinni skipti milli þeirra í hlutfalli við atkvæðamagn í næstliðnum borgarstjórnarkosningum en í lögum er ekki getið um upphæð framlagsins.

Færa má rök fyrir því að borgarstjórnaflokkar, sérstaklega þeir sem eru í minnihluta, þurfi á fjárframlögum að halda til þess að sækja sérfræðiaðstoð en sú mikla hækkun sem orðið hefur á framlögum undanfarin ár er langt umfram þá þörf. Lækkun framlaga til stjórnmálaflokka svarar kalli tímans þegar mikill niðurskurður kallar á forgangsröðun í þágu velferðarmála. Skerðing á fjármagni til stjórnmálaflokka, hvort sem það er frá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum, færir þá nær þeim tíma þegar starfsemin var fyrst og fremst byggð á félögunum í flokkunum sjálfum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Júlíus Vífill Ingvarsson óska bókað:
Fulltrúar allra flokka í borgarstjórn tóku þátt í eða gerðu ekki athugasemdir við þá ákvörðun að hækka framlög til borgarstjórnarflokkanna árið 2007, þ.á.m. fulltrúar Vinstri grænna. Það er því líkast því að athugasemdir Þorleifs Gunnlaugssonar komi nú fram í aðdraganda prófkjörs VG og beri að skoðast með tilliti til þess.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég tel það óhæfu að fjórflokkarnir séu enn að nýju að úthluta sér milljóna framlögum sem koma úr vasa borgarbúa vegna ársins 2010. Gera verður kröfu til þess að fjórflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur geri grein fyrir því hvernig hann ráðstafar milljónatugum á sama tíma og engir styrkir eru ætlaðir til F-listans í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Þorleifur Gunnlaugsson óskar bókað:
Tillaga borgarstjórnarflokks Vinstri grænna um lækkun framlaga til borgarstjórnarflokka var lögð fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember sl. Henni var vísað til forsætisnefndar og forseti borgarstjórnar ákvað sjálfur að setja hana á dagskrá þessa fundar.

Bókun fulltrúa VG ætti því ekki að koma á óvart og fullyrðingum um það að hann sé að nýta sér nefndina í persónulegu hagsmunaskyni er vísað til föðurhúsanna. Þar að auki skal það áréttað að allar ákvarðanir um fjármál borgarinnar sem teknar voru árið 2007 ber að endurskoða, þó ekki væri nema vegna þess að síðan þá hefur fjárhagur Reykjavíkur breyst til hins verra, eins og öllum ætti að vera kunnugt.

Category : Úr borginni

Borgarstjórabústaður við Úlfljótsvatn

January 29th, 2010 // 12:15 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 45 athugasemdir

Forsætisnefnd 29 01 10

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar varðandi gjaldtöku fyrir afnot af borgarráðsbústað við Úlfljótsvatn.
Forsætisnefnd staðfestir ákvörðun skrifstofustjóra fyrir sitt leyti.

Reykjavík, 28. janúar 2010

Forsætisnefnd
Varðandi gjaldtöku fyrir afnot af borgarráðsbústað við Úlfljótsvatn

Tekin hefur verið ákvörðun um það að frá 1. febrúar nk. muni skrifstofa borgarstjórnar taka gjald fyrir afnot af svokölluðum borgarráðsbústað við Úlfljótsvatn. Gjaldið mun fylgja gjaldskrá orlofshúsa Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Með vísan til umfjöllunar um málið í forsætisnefnd tilkynnist nefndinni þetta hér með.

Ólafur Kr. Hjörleifsson
Skrifstofustjóri borgarstjórnar


Category : Úr borginni

Heildarstefna OR

January 28th, 2010 // 12:11 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 42 athugasemdir

Borgarráð  28 01 10

Lögð fram heildarstefna Orkuveitu Reykjavíkur, sem samþykkt var á fundi stjórnar fyrirtækisins 30. f.m., sbr. bréf stjórnarformanns og forstjóra, dags. 31. s.m. Jafnframt lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um málið, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. þ.m. R10010054

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Samfélagslegt mikilvægi Orkuveitu Reykjavíkur hefur aldrei verið skýrara. Ímynd fyrirtækisins hefur borið hnekki og fjárhagslegum erfiðleikum er þar ekki einum um að kenna. Bitrumálið, REI draugurinn, vöntun á gagnsæi og aðgengi og rekjanleika ákvarðana, umræða um ofurlaun og ábendingar um að fyrirtækið fjarlægist eigendur sína, íbúa Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar, eiga þar hlut að máli. Brýn nauðsyn er á að OR vinni sig út úr þessum ímyndarvanda á trúverðugan hátt þar sem hófsemi og auðmýkt er höfð að leiðarljósi. Í þeirri vegferð getur stefnumótun á borð við þá sem samþykkt var í stjórn OR skipt máli. Við lestur stefnumótunarplaggsins má ætla að verið sé að lýsa að stórum hluta stöðunni eins og hún er í dag og að sjálfsögðu á það við um margt. Það þarf þó að vera skýrt að um er að ræða framtíðarsýn sem lýsir starfseminni eins og stjórnarmenn í OR vilja sjá hana. Í þessu ljósi ber að túlka endurtekna notkun á hugtakinu ,,sjálfbærni“. Samþykkt stjórnar OR á breytingartillögu VG sem lögð var fram á stjórnarfundi 30. desember sl. er mikils virði en þar segir ,,Orkuveita Reykjavíkur er jákvæð fyrir þróunarsamvinnu. Fyrirtækið gerir ríkar siðferðilegar og umhverfislegar kröfur til allra verkefna sem fyrirtækið tekur þátt í erlendis, engu síður en á Íslandi, og tekur afstöðu til álitamála í þeim efnum á vettvangi stjórnar.“ Ofanritaður sendi nokkuð ýtarlegar breytingatillögur við stefnuplaggið til stjórnarmanna OR 8. ágúst sl. án þess að uppskera árangur sem erfiði en til athugasemdanna er vísað nú þannig að þeim verði haldið til haga því að um er að ræða lifandi stefnumótun sem alltaf er hægt að taka upp og betrumbæta. Margt gott hefur komið út úr stefnumótunarvinnunni og nú þegar opnað hefur verið á þróunarsamvinnu og skýrt kveðið á um siðferðislegar og umhverfislegar kröfur til verkefna innanlands og utan telur ofanritaður niðurstöðuna ásættanlega.

Category : Úr borginni

Miðborgarprestur

January 28th, 2010 // 12:08 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Borgarráð  28 01 10

14. Lagt fram bréf formanns sóknarnefndar og sóknarprests Dómkirkjunnar frá 15. f.m. þar sem óskað er eftir því að Reykjavíkurborg greiði áfram helming launa miðborgarprests á árinu 2010, eða 4,6 m.kr. R08090085
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð sér ekki fært að greiða helming launa og launakostnað miðborgarprests. Því er erindinu synjað. Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna felld með 6 atkvæðum gegn 1.
Samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1 að styrkja verkefnið áfram með þeim hætti sem fram kemur í erindinu, kostnaður færist af liðnum ófyrirséð útgjöld.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Mikill niðurskurður í fjárhagsáætlun Reykjavíkur annað árið í röð setur mark sitt á nauðsynlega grunnþjónustu borgarinnar. Við þessar aðstæður er það ekki verjandi að leggja 4,6 milljónir í starf miðborgarprests. Í og við miðborgina er fjöldi presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar sem þiggja laun sín af skattpeningum borgarbúa en það fjármagn ætti að duga fyrir meintri þörf á sálgæslu á svæðinu. Af hálfu borgarinnar er öðrum þáttum í starfi miðborgarprests sinnt og má þar nefna starf Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, íþrótta- og tómstundasvið og velferðarsvið.

Category : Úr borginni

Framlög til borgarstjórnarflokka

January 7th, 2010 // 11:12 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 25 athugasemdir

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010 lögðu borgarfulltrúar VG fram tillögu um að fjárframlög til borgarstjórnarflokka yrðu lækkuð um helming. Tillagan var byggð á því mati að nú þegar verið er að skera mikið niður vegna mennta- og velferðarmála í borginni sé það ekki verjandi að eyða 30 milljónum til starfsemi stjórnmálaflokka. Þessari tillögu var vísað til forsætisnefndar. Tillaga Ólafs F. Magnússonar um það að deilur hans við Frjálslynda flokkinn um að fjárframlög til borgarstjórnarflokks Ólafs og félaga verði leyst með þeim hætti að fjármunir renni til Mæðrastyrksnefndar er góðra gjalda verð og eru fulltrúar Frjálslynda flokksins hvattir til að skoða þá lausn vel.

Category : Úr borginni

Ræstingar

January 7th, 2010 // 11:10 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

27. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í fréttatíma á Stöð 2 í gærkvöldi kom fram að starfsmanni, sem áður starfaði við ræstingar í leikskóla, voru boðin nánast helmingi lægri laun við að ræsta sama leikskóla á vegum verktaka.
Því er spurt:
1. Hvað lækkaði kostnaður vegna ræstinga viðkomandi leikskóla mikið við útboðið?
2. Hversu mikill var sparnaður leikskólasviðs í síðustu úthýsingu ræstinga?
3. Hversu margir misstu störf sín hjá borginni við þessa úthýsingu?
4. Stendur til að úthýsa fleiri ræstingaverkefnum á leikskólasviði og öðrum sviðum borgarinnar?
5. Ef svo er hver verður áætlaður sparnaður af þeim úthýsingum og hversu margir munu missa störf sín hjá borginni vegna þeirra? R10010072

Category : Úr borginni

Bílastæði

January 7th, 2010 // 11:06 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 25 athugasemdir

17. Lögð fram greinargerð framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs varðandi hugsanlega sölu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs, ódags., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 15. f.m. og 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. september sl. R08090151

Vísað til borgarlögmanns til umsagnar.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

1. Hver er raunkostnaður v/ gjaldskyldra bílastæða í borginni?

2. Hvað þyrfti að hækka verðlagningu vegna þeirra til þess að rekstur bílastæðahúsa borguðu sig?

3. Hvernig er þessum málum háttað í nágrannaborgum Reykjavíkur á Norðurlöndum?

Category : Úr borginni

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi