Flokkur : Greinar og ályktanir

Útboð

October 19th, 2009 // 3:54 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 27 athugasemdir

11. Lagt fram svar borgarstjóra frá 28. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um útboð vegna uppbyggingar á horni Austurstrætis og Lækjargötu, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. s.m. R07040086

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi VG þakkar svarið og óskar eftir því að því verði vísað til innri endurskoðunar með gögnum frá innkaupaskrifstofu um málið.

Category : Úr borginni

Veiði

October 15th, 2009 // 3:59 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 19 athugasemdir

17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarráð felur Orkuveitu Reykjavíkur að ráðstafa þeim veiðidögum sem teknir hafa verið frá fyrir Reykjavíkurborg til framleigu til Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Jafnframt lögð fram umsögn stjórnar Stangaveiðifélags Reykjavíkur, dags. 9. þ.m. R09090102

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Umrætt samkomulag er, eins og fram kemur í fyrirspurninni, milli OR og Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Borgarfulltrúum er í sjálfsvald sett hvort þeir þiggja umrætt boð um veiði í Elliðaánum. Með hliðsjón af því og þeirri umsögn sem borist hefur frá SVFR er tillögunni vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Frávísunartillaga meirihlutans er óskiljanleg í ljósi þess að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar vísaði á borgina með eftirfarandi frávísunartillögu þegar samsvarandi tillaga var lögð fram á stjórnarfundi OR: „Með vísan til samnings Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. desember 2001, þar sem kemur fram að það er eigandi ánna – Reykjavíkurborg – sem áskilur sér rétt til að ráðstafa fimm veiðidögum í Elliðaánum ár hvert, vísar stjórn OR frá tillögu Þorleifs Gunnlaugssonar dags. 20. ágúst sl.“ Þarna vísar hver á annan í þeim augljósa tilgangi að þæfa málið og firra sig ábyrgð. Kurteisislegt svar Stangaveiðifélags Reykjavíkur kemur ekki á óvart og sjálfsagt er nokkuð til í því að veiðar borgarfulltrúa í ánum, á árum áður, hafi átt sinn þátt í því að vernda þær. Í dag höfum við hinsvegar öflugt umhverfiseftirlit sem umhverfis- og samgöngusvið og umhverfis- og samgönguráð sinna með sóma, með þessari á sem og öðrum ám og vötnum í borgarlandinu. Veiðar borgarfulltrúa og embættismanna í Elliðaánum eru barn síns tíma sem eiga sjálfsagt rætur sínar að rekja til þess tíma þegar borgarfulltrúar voru mun lægra launaðir en þeir eru í dag. Nú er öldin önnur og enginn borgarfulltrúi er með laun undir 500.000 kr. á mánuði og ættu þeir því að geta borgað fyrir sín veiðileyfi sjálfir. Í svari Stangaveiðifélagsins segir að undanfarin ár hafi mun færri fengið en viljað veiðileyfi í ánum vegna mikillar eftirspurnar. Fimm dagar í Elliðaánum á besta tíma jafngilda 60 veiðileyfum sem annars yrðu seld til félaga SVFR. Sala veiðileyfanna ætti jafnframt að færa borginni aukna fjármuni en ekki ætti að þurfa að fjölyrða um það að borgin á við mikla fjárhagsörðugleika að etja og mikill niðurskurður er framundan ef marka má meirihlutann.

Category : Úr borginni

Orkuveita Reykjavíkur

October 15th, 2009 // 3:58 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 32 athugasemdir

13. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarráð felur fjármálaskrifstofu borgarinnar að nálgast árshlutareikning Orkuveitu Reykjavíkur og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til glöggvunar fyrir borgarráð með tilliti til áhættu af fjárfestingaráformum OR fyrir A-hluta borgarsjóðs. Fjármálaskrifstofu er jafnframt falið að gera tillögur til ráðsins um gerð áhættumats þeirra þátta OR sem hugsanlega geta ógnað fjárhagslegu öryggi borgarinnar. R07090015

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Borgarráð samþykkir að vísa tillögu Vinstri grænna frá með þeim rökstuðningi að það hlýtur að teljast hlutverk fjármálaskrifstofu að greina ársreikninga og árshlutauppgjör samstæðu Reykjavíkurborgar og gera borgarfulltrúum m.a. grein fyrir því ef sérstakar áhættur eru í rekstri eða rekstrarumhverfi borgarinnar. Fjármálaskrifstofa fylgir uppgjörum úr hlaði með skýrslum sem hafa m.a. þennan tilgang. Á það skal sérstaklega bent að í skýrslu fjármálaskrifstofu með 6 mánaða uppgjöri sem lagt er fram í borgarráði í dag fylgir reifun á árshlutareikningi Orkuveitu Reykjavíkur.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Tillaga Vinstri grænna um möguleika á áhættumati ákveðinna þátta Orkuveitu Reykjavíkur hefur hvað eftir annað verið sett á dagskrá borgarráðs og jafnharðan tekin af henni aftur. Nú þegar tillagan fæst loksins afgreidd er það gert til að vísa henni frá. Þessi vandræðagangur meirihlutans er til marks um óöryggi þegar kemur að málefnum Orkuveitunnar. Skuldir OR eru á þriðja hundrað milljarða króna og í þessari stöðu er sú spurning áleitin hvort ekki sé rétt að hægja á fjárfestingum eða jafnvel stöðva þær um tíma á meðan fyrirtækið er að ná betra jafnvægi. Til þess að borgarráðsfulltrúar geti tekið upplýsta umræðu um þetta þurfa þeir að hafa í höndum úttekt eða áhættumat og í ljósi aðstæðna væri eðlilegt að fjármálaskrifstofa borgarinnar framkvæmdi það en hún hefur lýst áhyggjum sínum af því að B-hluta fyrirtækin hafi stöðugt fjarlægst borgina. Úr því sem komið er, er það hins vegar von borgarráðsfulltrúa VG að umræðan verði til þess að borgarfulltrúar verði betur upplýstir um stöðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Category : Úr borginni

Velferð barna

October 15th, 2009 // 3:58 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 27 athugasemdir

12. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar:

Á borgarstjórnarfundi 19. maí sl. lögðu fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar fram tillögu um að skipa aðgerðahóp sem hafi það hlutverk að gera aðgerðaáætlun sem tryggi velferð barna í borginni eins og kostur er. Tillögunni var vísað til borgarráðs sem tók hana til afgreiðslu tæpum tveimur mánuðum síðar eða 2. júlí en þar var hún samþykkt og tilnefndur hópur borgarfulltrúa undir forsæti Jórunnar Frímannsdóttur. Aðgerðahópur um velferð barna hefur aðeins haldið einn fund fyrir einum og hálfum mánuði síðan og ekki hefur verið boðaður annar fundur. Þegar litið er til mikilvægis þess að kjörnir fulltrúar hafi yfirlit yfir aukinn vanda barna í vaxandi kreppu og geti lagt gott til þegar á bjátar er hægagangur í starfi hópsins skaðlegur sem rekja má til þess að enginn starfsmaður er til staðar. Því leggja fulltrúar VG og Samfylkingar til að aðgerðahópur um málefni barna fái til liðs við sig starfsmann. R08100231

Borgarráð samþykkir fyrir sitt leyti að aðgerðahópi verði fenginn starfsmaður.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað:

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lýsa yfir ánægju með að nú sé aðgerðahópur um velferð barna kominn með starfsmann. Það er einlæg von okkar að þar með fari hópurinn að vinna af fullum krafti að þeim brýnu verkefnum sem fyrir liggja.

Category : Úr borginni

Reykjavíkurflugvöllur

September 20th, 2009 // 4:03 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 44 athugasemdir

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráðsfulltrúi VG leggur til að fjármálaskrifstofu og umhverfis- og samgöngusviði verði falið að kanna kosti þess að Reykjavíkurborg yfirtaki rekstur Reykjavíkurflugvallar.

Afgreiðslu tillögunnar frestað.

Category : Úr borginni

Minnisvarði um Helga Hóseasson

September 20th, 2009 // 4:02 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 21 athugasemdir

12. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Í kjölfar andláts eins merkasta aðgerðarsinna samtímans samþykkir borgarráð að standa fyrir hugmyndasamkeppni um minnisvarða um Helga Hóseasson á horni Langholtsvegar og Holtavegar. Gert verði ráð fyrir framkvæmd verksins í fjárhagsáætlun borgarinnar árið 2010.

Category : Úr borginni

Grunnskólar

September 17th, 2009 // 4:04 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 33 athugasemdir

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi VG áréttar þá stefnu flokksins að grunnskólar borgarinnar eigi að vera reknir á samfélagslegum grunni svo öll börn fái notið sem bestrar menntunar óháð efnahag foreldra. Í ljósi núverandi aðstæðna í efnahagslífinu, þar sem grunnskólar borgarinnar hafa fengið fyrirmæli um að skera niður ýmsa þætti í rekstri sínum og gæta ítrasta aðhalds, er óhugsandi og raunar óréttlætanlegt að borgaryfirvöld ætli að leggja fé til rekstrar nýs einkaskóla. Það fé sem fer úr borgarsjóði til skólans mun skerða fjárframlög til grunnskóla borgarinnar. Við þessar kringumstæður, og einnig í ljósi þess að börnum fer fækkandi í grunnskólum borgarinnar, er það vond nýting á skattfé almennings að greiða fyrir stofnun nýs skóla fyrir börn fólks sem hefur fé aflögu til að greiða skólagjöld. Nýr sjálfstætt starfandi skóli er ekki það sem fjölskyldurnar í borginni þurfa mest á að halda í dag.

Category : Úr borginni

Skólastarf

September 10th, 2009 // 4:05 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 28 athugasemdir

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Mikill niðurskurður hefur átt sér stað í grunnskólum borgarinnar með þátttöku starfsmanna. Samþykkt menntaráðs um stofnun Menntaskólans ehf. og nú staðfesting borgarráðs veldur óróa og óánægju innan almennu grunnskólanna sem ekki verður séð fyrir endann á. Þessi samþykkt kemur algerlega í bakið á starfsmönnum grunnskóla Reykjavíkurborgar, sem þátt tóku í hugmyndavinnu um sparnað á menntasviði, og gerir lítið úr þeirra vinnu. Segja má að það fé sem tókst að spara í almennum grunnskólum fari nú í starfsemi skóla fyrir börn fólks sem hefur efni á að greiða skólagjöld. Ekki verður betur séð en að þessi ráðstöfun með almannafé sé illa ígrunduð á tímum mikils niðurskurðar. Nýr skóli verður til þess að nemendum fækkar í þeim skólum sem fyrir eru, til viðbótar við þá miklu nemendafækkun sem er í grunnskólum borgarinnar á þessu hausti. Gera má ráð fyrir að með því að fjölga grunnskólum í borginni nýtist skattfé verr og það muni veikja enn frekar starfið í þeim skólum sem fyrir eru. Það vekur upp spurningar um atvinnuöryggi í skólum. Borgarstjórn hefur haft uppi yfirlýsingar um að standa saman og vinna að því að fara vel með fjármuni borgarinnar. Þessi ráðstöfun er ekki í þeim anda, ekki ríkir samhugur um hana og ekkert samráð hefur verið haft við minnihluta borgarstjórnar um ráðstöfunina.

Category : Úr borginni

Yfirlýsing frá borgarfulltrúa vegna tillögu VG um sölu bilastæðahúsa

September 9th, 2009 // 10:22 pm @ admin // 32 athugasemdir

VG.is 4.9.2009

Tillaga Borgarráðsfulltrúa  Vinstri grænna um að borgarráð feli Umhverfis og samgöngusviði að kanna kosti þess að bílastæðahús borgarinnar verði seld hefur vakið athygli en hún var samþykkt í borgarráði í dag. Af þessu tilefni vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri.

1. Ekki var lagt annað til en að kostir þessa yrðu kannaðir.

2. Það blasir við að mikill rekstrarvandi er fyrirsjáanlegur hjá borginni eins og örðum sveitarfélögum. Í fjárhagsáætlun þessa árs og 3ja ára áætlun er gert ráð fyrir því að gengisvístala myndi lækka meira en orðið hefur og atvinnuleysi er mun meira en gert var ráð fyrir. Allar spár eru í þessa átt og því er það ljóst að mikill niðurskurður vegna aukins kostnaðar og mynni tekna er yfirvofandi á næsta ári, komi ríkið ekki myndarlega til aðstoðar. Vinstri græn í borginni telja það ábyrgt að forgangsraðað verði í þágu velferðarmála og menntunar barna. Því þarf að líta til þess sem hugsanlega má selja.

3. Það er einlægur ásetningur VG í Reykjavík að efla almenningssamgöngur. Verði söluverðmæti bílastæðahúsa verulegt er hugsunin sú að almenningssamgöngur njóti góðs af. Þannig verði náð umhverfislegum markmiðum sem og þeim að þjóna ört vaxandi fjölda fólks sem ekki hefur lengur efni á því að eiga bíl.

4. Í greinagerð með tillögunni er það tekið fram að ef af þessu verði,  þurfi að gæta að hafsmunum bíleigenda hvað varðar verðlag og aðgengi. Að sögðu mun VG hér eftir sem hingað til, verja hagsmuni starfsfólks.

Category : Úr fjölmiðlum

HS Orka

September 9th, 2009 // 4:09 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að hafa nú þegar frumkvæði að viðræðum við ríkisvaldið með það að markmiði að HS Orka verði alfarið í opinberri eigu.

Vísað frá Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Með frávísun meirihlutans er það ljóst að hann ætlar að fría sig af þeirri samfélagslegu ábyrgð sem Orkuveitan axlaði þegar hún keypti hlut í HS Orku. Frávísunartillagan lýsir ábyrgðarleysi meirihlutans í þessum efnum þar sem svo virðist að honum sé alveg sama hverjir eigi orkufyrirtækin nema þá að um sé að ræða raunverulegan vilja til einkavæðingar í orkugeiranum. Þar með glatar borgarráð dýrmætu tækifæri til að vinna að málinu með framtíðarhagsmuni borgarinnar og alls samfélagsins í huga.

Category : Úr borginni

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi