Flokkur : Greinar

Ingólfur Margeirsson

April 23rd, 2011 // 9:29 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 37 athugasemdir

Það rifjast upp atburðir liðinna daga þegar ég hugsa um látinn vin og í mér bærast ýmsar tifinningar, söknuður og þakklæti en jafnframt sektarkennd yfir því að hafa ekki haft meira samband við þennan góða og skemmtilega mann. Ég held að ég hafi fyrst tekið eftir Ingólfi fyrir frábær viðtöl hans í sunnudagsblaði Þjóðviljans en í þeim fylgdu með hnyttnar teikningar hans af viðmælendum. Um miðjan áttunda áratuginn flutti Ingólfur á efstu hæðina á Norðurstíg 5. Þetta var þriggja hæða timburhús þar sem ég leigði fyrstu hæðina fyrir lítið fé af öðlingnum, Margeiri föður hans. Á Norðurstígnum bjuggum við saman í mörg ár, allir í húsinu urðu nánir vinir, oft var tilviljunarkennt í hvaða íbúð var sest niður til lengri eða skemmri tíma og ég man ekki til þess að nokkrar hurðir hafi verið læstar í því húsi.

Minningarnar hrannast upp: Ingólfur og fjölskylda hans að borða sunnudagslæri í litlu borðstofunni minni á fögru sumarhádegi. Ingólfur, hrókur alls fagnaðar með gítarinn í partíi, Ingólfur sem átti að mála með okkur stigaganginn í Norðurstígnum yfir helgi en lenti svo á skralli með Flosa, mági sínum, og kom ekki fyrr en á sunnudagsköldi, ennþá í stuði, í þann mund sem við vorum að þvo penslana stolt yfir litadýrðinni í þröngum ganginum og þegar hann mætti ásakandi augum íbúanna á Norðurstíg 5 sagði hann: “þetta er bara nokkuð gott hjá ykkur, er þetta grunnurinn?”. Ingólfur sem hætti að drekka og varð annar helsti áhrifavaldur þess að ég fór sjálfur í áfengismeðferð.

Þegar Ingólfur flutti af Norðurstígnum minnkaði eðlilega þetta nána samband en það var svo aftur í Heilsustofnuninni í Hveragerði þar sem við vorum saman í tvígang að við náðum virkilega saman aftur og þar kynntist ég að sumu leyti öðrum manni. Hann var ennþá hrókur alls fagnaðar, sami húmanistinn, húmoristinn og sjarmörinn en það leyndi sér ekki að persónuleikinn hafði mýkst og þarna var kominn einhver dýpt og skilningur þess sem gengið hefur í gegnum ótrúlegar hremmingar.

Ég sakna góðs vinar sem fór allt of snemma og ég sendi innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.

Category : Greinar

Eru alþingismenn að endurheimta traust þjóðarinnar?

September 15th, 2010 // 12:04 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 36 athugasemdir

Í ágætu bloggi sínu hér á eyjunni spyr Gunnar Axel Axelsson : „Létu æðstu ráðamenn landsins almannahagsmuni víkja fyrir ákvörðunum sem miðuðu að því að tryggja áframhaldandi völd tiltekinna stétta í samfélaginu?“

Að mínu mati er þetta lykilspurning þegar skýrsla þingmannanefndarinnar er metin. Lét stjórnsýsla ríkisins almannahagsmuni víkja fyrir einkahagsmunum?

Með öðrum orðum var stjórnsýslan spillt? Hafi svo verið, er hún það enn?

Þingmannanefndin vitnar í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar alþingis þar sem sagt er: „Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Þetta er rökstutt með fjölmörgum dæmum en samt leggur þingmannanefndin ekki til almenna úttekt á stjórnsýslu ríkisins.

Hvernig stendur á því?

——

Í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis segir m.a.:

„stjórnsýslan starfi í mikilli nálægð við hið pólitíska vald. Sú nálægð geti skapað hagsmunaárekstra og spillingu.“

„Smæð samfélagsins skapi ákveðnar forsendur fyrir fyrirgreiðslupólitík.“

„Tvenn hagsmunasamtök, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, reyndu eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu um fjármálastarfsemi.“

„Fín lína geti verið milli þess að búa atvinnugreinum hagstæð skilyrði og þess að þjónusta viðskiptageirann.“

„það sé ekki hlutverk stjórnvalda að taka sér stöðu með fjármálafyrirtækjum til að telja umheiminum trú um að þau standi vel nema stjórnvöld hafi fyrir því haldbærar upplýsingar og traust rök.“

„ Þær skýrslur hagfræðinga sem stjórnvöld vöru gjörn á að vísa til hafi verið fjármagnaðar af Viðskiptaráði.“

„Það sé alvarlegt mál í lýðræðisríki að almannaþjónar myndi með þessum hætti fjárhagsleg tengsl við fármalafyrirtæki.“

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála.“

„Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Einnig segir að fjölmargir stjórnmálamenn og stjórnmálasamtök hafi „þegið styrki frá bönkunum sem hafði ekki hvetjandi áhrif á stjórnmálamenn til að veita þeim aðhald og kynna sér stöðu þeirra betur með almannahag að leiðarljósi.“

Það fer semsagt ekki á milli mála að rannsóknarnefnd alþingis lítur svo á að spilling hafi þrifist í stjórnsýslu ríkisins en vegna skilgreinds hlutverks rannsóknarnefndarinnar fjalla dæmin eðli málsins samkvæmt helst um einkavæðingu bankanna.

———-

Að ofansögðu hlýtur það að vekja furðu að þingmannanefndin taki þessa mjög svo hörðu dóma rannsóknarnefndarinnar ekki alvarlega. Ef spilling var grasserandi í tengslum við einkavæðingu bankanna, má þá ekki draga þá eðlilegu ályktun að sú spilling hafi teygt anga sína víðar inn í stjórnkerfið? Og má ekki einnig spyrja að því hvort spillingin blundi ekki þar enn?

Þingmannanefndin telur brýnt að alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum. En það er hins vegar hætt við að ekki náist að endurheimta traust þjóðarinnar á stjórnsýslu og stjórnkerfi sem hefur beinlínis verið úrskurðað spillt ef ekkert er gert til að uppræta og rannsaka þá spillingu.

Vilji alþingi endurheimta traust þjóðarinnar verður að fara fram sjálfstæð og óháð rannsókn, ekki aðeins á einkavæðingu bankanna heldur allri stjórnsýslu ríkisins. Það verður vissulega ekki sársaukalaust og eflaust munu verndarar kerfisins tala um nornaveiðar. En það er eina leiðin til að þvo spillingarstimpilinn af stofnunum ríkisins.

Category : Greinar

Má biðja um ögn meiri stillingu?

September 5th, 2010 // 12:05 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 39 athugasemdir

Þessi grein birtist í Reykjavík Vikublað 4.sept 2010

Fyrir hálfum mánuði skrifaði ég grein í þetta ágæta blað þar sem ég beindi gagnrýnisorðum að stjórnvöldum og verkalýðsforystunni fyrir að standa ekki vaktina fyrir efnalítið fólk. Minnti ég á fyrri tíma þegar fátækt fólk fann fyrir meiri samstöðu en nú gerist í baráttu fyrir betri kjörum. Velti ég vöngum yfir því hvort verkalýðsforkólfar með himinháar tekjur væru komnir úr tengslum við þennan hluta samfélagsins. Tók ég alldjúpt í árinni í gagnrýni minni enda fullt tilefni til.

Engan mann nefndi ég á nafn í grein minni. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, kaus hins vegar að taka ádeiluna til sín og fékk birta grein hér í blaðinu sem á að heita svargrein við mínum skrifum. Ég tek þannig til orða vegna þess að Guðmundur gerir mér upp skoðanir og hefur beinlínis rangt eftir mér.
Ekki hirði ég um að leiðrétta allar staðreyndavillur Guðmundar. Þó vil ég nefna að hann segir að í grein minni dylgi ég um að verkalýðsforingjar séu á „ mála hjá einhverjum fyrirtækjum“ og sakar mig um „ ómerkilegan rógburð“. Þetta er hreinn hugarburður því hvergi er í grein minni að finna slíkar dylgjur enda ekki ætlun mín.

Guðmundur segir ennfremur að ég sé „maður sem ekki er þátttakandi í stéttarfélagi“ og viti „ekkert“ um hvað ég sé að skrifa! Það má vissulega til sanns vegar færa að eins og sakir standa er ég ekki þátttakandi í stéttarfélagi. Ég byrjaði hins vegar ungur að vinna og var strax um 17 ára aldur virkur á félagsfundum Dagsbrúnar, í Iðnnemafélaginu og síðan sveinafélaginu mínu. Ég varð síðan virkur í meistarafélaginu mínu og var formaður þar um tíma. Ég var einnig einn þeirra sem endurreisti Meistarasamband byggingarmanna og sat þar í fyrstu stjórn. Í störfum mínum með meistarafélaginu mínu og Meistarasambandinu lagði ég áherslu á að hækka þyrfti lægstu laun. Ég benti á hættuna sem samfélaginu stafaði af misrétti og hve ranglátt það væri. Þótt Íslendingar væru á þeim tíma háttlaunaðir þá gæti það breyst hratt og einnig væri á það að líta að óprúttnir verktakar stunduðu þann leik að ráða erlenda „fagmenn“ á lágmarkstöxtum.

Guðmundur Gunnarsson má eiga það að hann hefur verið ódeigur í baráttu gegn óprúttnum verktökum og margoft tekið upp hanskann fyrir farandverkamenn sem níðst hefur verið á. Fyrir þetta á hann lof skilið.

Á gagnrýnendum sínum sér Guðumundur hins vegar ekki hvítan blett. Mig segir hann ráðast „að stéttarfélögunum til þess að draga athyglina frá eigin getuleysi“ að ég sé dæmi um „lélega stjórnmálamenn sem ríghalda í það efnahagskerfi sem Ísland hefur, þar sem þeir leiðrétta efnahagsleg mistök með því að fella krónuna“ . Ég og „hinir stjórnmálamennirnir“ berum ábyrgð á því að „nú erum við á svipuðum slóðum með kaupmátt og við vorum fyrir 15 árum.“ Mikið væri fróðlegt að heyra Guðmund Gunnarsson rökstyðja þessi makalausu skrif um meint framlag mitt til íslenskra stjórnmála!

Í grein minni, sem Guðmundur Gunnarsson hefur greinilega lesið með afar sérkennilegu hugarfari, gagnrýni ég ríkisstjórnina og kjörna fulltrúa fyrir að bregðast fátækum og svo verkalýðshreyfinguna fyrir að styðja ekki við bakið á þeim. Ennfremur að samið sé um svo lág laun að þau eru fyrir neðan fátækramörk og hamli fyrir bragðið hækkun atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar. Er þetta rangt? Ég hefði haldið að tilefni væri til að ræða þetta. Ef þetta er rangt þarf að leiðrétta það – málefnalega.

Eftir þessi viðbrögð Guðmundar Gunnarssonar, formanns Rafiðnaðarsambandsins, við skrifum mínum er mér efst í huga að spyrja hvernig komið er fyrir umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar. Er það virkilega svo að þegar gagnrýni er hreyft um launakjör og fríðindi forkólfa í verkalýðshreyfingunni og sinnuleysi í málefnum tekjulægstu hópanna í þjóðfélaginu, að menn megi búast við útúrsnúningum og hrokafullum reiðilestri? Varla er þetta til að örva til opinnar lýðræðislegrar umræðu. Ég kalla enn eftir málefnalegum viðbrögðum við gagnrýni minni – ekki myndi saka að hafa ögn af stillingu og yfirvegun í svörum. Ég vona að ekki sé til of mikils mælst.

Category : Greinar

Orkuveitan og almenningur (2. hluti)

August 29th, 2010 // 12:03 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 22 athugasemdir

Ég ætla að halda áfram að fjalla um Orkuveituna og sérstaklega þann tíma sem ég sat þar í stjórn – enda hef ég eðli málsins samkvæmt mestar upplýsingar um þann tíma.

Ég er að lesa í fundargerðir OR og einnig fundargerðir borgarráðs en þar varð umræðan um OR stöðugt að þyngjast frá miðju ári 2009, eftir rólegri tíma að afloknu REI málinu. Það er mín skoðun að afneitun, leyndarhyggja og takmarkalaust traust á stjórnendum OR hafi komið í veg fyrir raunsætt mat og fyrirbyggjandi ráðstafanir. Þriðja júní síðastliðinn bókaði þáverandi meirihluti borgarráðs, fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks meðal annars þetta:

“Við þetta má bæta að svar stjórnenda Orkuveitunnar miðast við afkomu samkvæmt árinu 2009 en fjárhagslegur styrkur og greiðsluhæfi Orkuveitunnar hefur vaxið verulega síðan samkvæmt þriggja mánaða uppgjöri ársins 2010″ og “Stjórn og stjórnendur Orkuveitunnar hafa staðið sig mjög vel undanfarin ár við að leita leiða til að hagræða í rekstri og skera niður þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Mikill árangur hefur náðst af þessum aðgerðum sem hefur þegar skilað sér og mun skila sér enn frekari til lengri tíma og treystir borgarráð stjórnendum Orkuveitunnar til að halda áfram á sömu braut í stað þess að leggja fram hugmyndir um að velta allri fjárþörfinni yfir á almenning.”

Skömmu áður eða 6. maí bókaði ég meðal annars í borgarráði þegar lagður var fram ársreikningur OR, um leið og ég minnti enn og aftur á varnaðarorð fjármálaskrifstofu og innri endurskoðun borgarinnar varðandi það að eftirlit og eftirfylgni borgaryfirvalda hefur stöðugt verið að minnka á sama tíma og skuldir fyrirtækjanna og þá sérstaklega OR hafa aukist.:

“Það vekur athygli að í endurskoðunarskýrslu KPMG kemur fram að í miðju bankahruni á árinu 2008 var framkvæmt sérstakt endurmat á eignum OR sem jók eigið fé fyrirtækisins um rúma 40 milljarða. Upphæð sem nemur nánast öllu eigin fé fyrirtækisins í árslok 2009. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að stjórnendur bankanna hafi hækkað bókfærðar eignir, þannig að staðan sem sýnd var í bókhaldinu hafi ekki verið raunveruleg. Þar koma m.a. við sögu endurskoðendur OR, KPMG.”

Orkuverð til stóriðju
Að mínu mati á almenningur ekki að sætta sig við það að orkuverði til stóriðju, sem er langstærsti þáttur rafmagnsframleiðslunnar, sé haldið leyndu.
11. maí sl. lagði ég fram svohljóðandi tillögu í borgarráði sem tekin var til afgreiðslu 29. maí:

„Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna frá 11. f.m.:
Borgarráð beinir þeim tilmælum til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að allt orkuverð verði opinberað.“

Það er ekki hægt að segja annað en að skilaboðin hafi verið skýr:

“Borgarráð vísar tillögunni til meðferðar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur með ósk um að leitað verði eftir samþykki Norðuráls um að orkuverð verði gert opinbert.”

Það urðu tímamót í stjórn OR þegar eftirfarandi tillaga var samþykkt þar einróma 12 maí sl.:

“Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir því til forstjóra að leita eftir samþykki Norðuráls fyrir því að orkuverð verði gert opinbert.”

Síðan eru liðnir rúmir þrír og hálfur mánuður og í millitíðinni hefur meirihluti OR hækkað orkuverð til almennings um 28% en engin verðhækkun nær til stóriðjunnar sem þó fær megnið af rafmagninu.

Þessi staða er óþolandi og mín skoðun er sú að hafi Norðurál ekki svarað erindinu eða neitað að verða við því átti Orkuveitan að gera það opinbert og bíða með allar verðhækkanir þar til málið yrði leyst. Það er í það minnsta ekki seinna vænna en að bregðast við tilmælum borgarráðs.

Uppskipting OR
26. október í fyrra lagði ég fram eftirfarandi tillögu í borgarráði:

“Borgarráð samþykkir að fara þess á leit við ríkisstjórn og iðnaðarráðherra að gefinn verði þriggja ára frestur á áformaðri uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt verði lagaákvæði hvað þetta vaðar endurskoðuð.”

Tillögunni var vísað til umsagnar stjórnar OR og var þar tekin á dagsskrá 4. desember. Formaður stjórnarinnar, Guðlaugur Sverrisson lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn stjórnar:

“Sameiginleg nefnd eigenda Orkuveitu Reykjavíkur hefur skilað eigendum tillögum um uppskiptingu fyrirtækisins. Samstaða var um tillögurnar. Við gerð þeirra var haft að leiðarljósi að kostnaði við uppskiptinguna yrði haldið í lágmarki og samþykkt þeirra mun ekki hafa áhrif á eiginfjárstöðu Orkuveitu Reykjavíkur né stöðu fyrirtækisins gagnvart lánadrottnum. Því telur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ekki ástæðu til að fresta því að til uppskiptingar komi um áramót.”

Á hinn bóginn lagði ég fram þessa tillögu að umsögn stjórnar:

“Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur brýnt að eigendur OR fari þess á leit við ríkisstjórnina og iðnaðarráðherra að gefinn verði þriggja ára frestur á áformaðri uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur og lagaákvæði hvað þetta varðar verði endurskoðuð. Fjárhagsleg staða Orkuveitunnar er þessa stundina veik og eiginfjárstaðan komin niður fyrir 14%. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður en fordæmalausar aðstæður Íslands og gríðarleg veiking krónunnar vega þungt. Uppskiptingin er ekki aðeins kostnaðarsöm heldur mun hún setja lánasamninga við erlenda lánadrottna í uppnám.”

Þegar raforkutilskipun ESB var innleidd á evrópska efnahagssvæðinu árið 1997 (sem öðlaðist gildi á Íslandi með raforkulögunum 2003) voru forsvarsmenn flestra raforkufyrirtækja landsins því andvígir og á alþingi var tilskipuninni andæft af fjölmörgum þingmönnum. Síðar viðurkenndu ýmsir þingmenn úr stjórnarmeirihluta að misráðið hefði verið að sækja ekki um undanþágu fyrir Ísland, enda ljóst að Ísland er ekki hluti af sameiginlegum innri raforkumarkaði Evrópu vegna legu landsins.

Uppskiptingu orkufyrirtækja hefur verið frestað í öðrum löndum án vandræða og því eðlilegt að hérlendis endurskoðum við málið í ljósi þeirra efnahagsþrenginga sem nú dynja á þjóðinni. 

Röksemdir fulltrúa raforkugeirans gegn uppskiptingu orkufyrirtækjanna samkvæmt tilskipun ESB komu opinberlega fram, meðal annars í fjölmiðlum í febrúar 2006. Þær voru af tvennum toga.

Breytingarnar eru óhagkvæmar. Samlegðaráhrif margvísleg glötuðust með skipulagsbreytingunum
Breytingarnar eru dýrar og myndu leiða til aukins kostnaðar fyrir raforkukaupendur.
Menn höfðu með öðrum orðum miklar efasemdir um meint hagræði af uppskiptingunni og þeim ávinningi sem markaðsvæðing raforkugeirans átti að leiða til. Að þessu sögðu er ljóst að kjörnir fulltrúar og starfsfólk OR þurfa fyrst og fremst að einbeita sér að rekstri fyrirtækisins í núverandi mynd í stað þess að fara út í umfangsmiklar skipulagsbreytingar sem koma til með að verða dýrar og óhagkvæmar til lengri og skemmri tíma.

Eins og við mátti búast var tillaga formanns samþykkt gegns mínu atkvæði en fulltrúi Samfylkingar sat hjá. 

Þá bókaði ég :

“Þegar borgarráð fór þess á leit við stjórn OR að hún veitti umsögn um fram komna tillögu um frestun á uppskiptingu OR var það gert til þess að fá álit stjórnarinnar á kostum þessa eða göllum”.

Í umsögn sinni segir meirihlutinn það ljóst að “frestun á uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur sé fyrirtækinu ekki til hagsbóta,”

Þetta er rökstutt með því að aðrir aðilar á orkumarkaði geti mótmælt frestuninni, kostnaðurinn við hana sé óverulegur og “bærilega hafi til tekist” í samningagerð í nýlegum samningum við evrópska fjárfestingarbankann.

Að öðru leyti fjallar umsögn meirihlutans ekki um beiðni borgarráðs heldur er miklu púðri eitt í vinnu á vegum OR sem farið hefur fram til að framfylgja ákvæði laganna um uppskiptingu orkufyrirtækja. Vangaveltur um andstöðu annarra orkufyrirtækja eru undarlegar frá fólki sem fyrst og fremst á að gæta hagsmuna OR.

Enn undarlegri er fullyrðing meirihlutans um að kostnaðurinn við uppskiptinguna verði óverulegur á sama tíma og það er talið geta orðið kostnaðarsamt, verði henni frestað. Þá vakna upp spurningar um hvað meirihlutanum gengur til þegar ekki er minnst á augljósan kostnaðarauka sem hlýtur að myndast vegna nýrrar stjórnar dótturfyrirtækis og sérstakrar uppbyggingar vegna þess.

Mér til mikillar ánægju tók ríkisstjórnin síðan af skarið á ögurstundu og frestaði uppskiptingu Orkuveitunnar um eitt ár en það var svo sannarlega ekki meirihluta stjórnar OR að þakka.

15. febrúar var málið svo á dagsskrá að undangengnu þrasi á stjórnarfundinum áður, en þá fór meirihlutinn að skýra breytinguna með skorti á skattalegu hagræði, nokkuð sem aldrei hafði verið rætt áður eins og sést hér að framan.

Ég kaus að líta fram hjá því en við sameinuðumst um eftirfarandi bókun.

“Lögð fram á ný tillaga formanns, dags. 21.01.2010, ásamt tillögu Þorleifs Gunnlaugssonar, lagðri fram á fundi stjórnar 12.02. 2010. 
Tillögurnar sameinaðar með svohljóðandi bókun, sem stjórn samþykkti einróma: 
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þ. 15. maí 2009 að fara þess á leit við eigendur að þeir skipuðu starfshóp til að undirbúa uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við kröfur 14. gr. raforkulaga.

Eigendur skipuðu í framhaldinu fulltrúa í hópinn, t.a.m. borgarráð á fundi sínum þ. 4. júní. Stýrihópurinn skilaði tillögum sínum um uppskiptingu með skýrslu í október 2009. Með lögum nr. 142/2009 var frestur til að ganga frá uppskiptingu fyrirtækisins framlengdur um eitt ár, til 1. janúar 2011, þar sem ekki hafði verið gengið frá nauðsynlegum lagabreytingum til að koma í veg fyrir skattalegt óhagræði af uppskiptingunni innan upphaflegs frests.

Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs í stjórn OR hefur flutt tillögu í stjórninni þess efnis að eigendur OR fari þess á leit við ríkisstjórnina og iðnaðarráðherra að sótt verði um undanþágu fyrir Ísland hvað varðar raforkutilskipun ESB. 
Nauðsynlegt er, áður en uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur fer fram, að lögum um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 139/2001 verði breytt svo forðast megi skattalegt óhagræði OR við uppskiptingu. 
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur áherslu á að:

1. eigendur kanni vilja stjórnvalda til þeirra breytinga á raforkulögum, sem tillaga fulltrúa VG felur í sér.

2. eigendur taki afstöðu til fyrirkomulags uppskiptingar þegar ný lög um Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið afgreidd frá Alþingi.

3. sá ársfrestur sem Alþingi veitti til uppskiptingarinnar verði nýttur til að vanda sem best til alls undirbúnings aðskilnaðar sérleyfis- og samkeppnisrekstursins.

4. undirbúningi uppskiptingar Orkuveitu Reykjavíkur verði haldið áfram.”

Að mínu mati var undirbúningi að uppskiptingu OR að mestu lokið um síðustu áramót (í það minnsta að mati eigendanefndarinnar) og það sem skipti máli væri það að stjórnin hvetti eigendur til þess að “fara þess á leit við ríkisstjórnina og iðnaðarráðherra að sótt verði um undanþágu fyrir Ísland hvað varðar raforkutilskipun ESB.”

Nú er liðið á haust og aðeins 4 mánuðir eftir af frestinum sem ríkisstjórnin gaf. Reyndar hefur ríkisstjórnin gefið út í tengslum við Magmadeiluna að undið skuli ofan af einkavæðingarferlinum. Mikilvægur þáttur í einkavæðingarferli orkugeirans var einmitt stiginn þegar raforkutilskipun ESB um uppskiptingu orkufyrirtækja öðlaðist gildi á Íslandi með raforkulögunum 2003 og markaðsvæðing þessara almannafyrirtækja hófst.

Eigendum Orkuveitunnar er það skylt, nú þegar haustþingið er að hefjast að óska eftir því að lögunum verði breytt, þó ekki væri nema vegna þess að uppskiptingin er ekki aðeins kostnaðarsöm heldur mun hún setja lánasamninga við erlenda lánadrottna í uppnám á versta tíma.

Category : Greinar

Ríkisstjórnin og Magma Energy

July 9th, 2010 // 1:54 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 41 athugasemdir

Viðskiptaráðherra hefur nú gefið út yfirlýsingu um að meirihlutaeign Magma Energy Sveden á HS orku sé heimil. Þetta byggir hann á afstöðu fulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í nefnd um erlendar fjárfestingar sem er gegn þeirri afstöðu fulltrúa VG og Hreyfingarinnar að íslensk lög og  ESB tilskipun er málið varðar, sé ekki smíðuð til að  gera skúffufyrirtækjum kleift að fjárfesta á Íslandi í orkuverum og orkuauðlindum.

Ég fæ ekki betur séð en að með þessu sé meirihluti nefndarinnar að vinna gegn anda laganna og ráðherrann að sama skapi, til að þjóna erlendum auðmönnum á kostnað íslenskra almanahagsmuna. Þetta er gert í óþökk annars ríkisstjórnarflokksins en Vinstri græn hafa margoft og nú síðast á flokksráðsfundi fyrir þremur vikum ályktað gegn einkavæðingu HS orku. Þar segir meðal annars:
„Til að tryggja yfirráð almennings yfir orkufyrirtækjum og vinda ofan af kaupum Magma á HS-Orku er mikilvægt að hér verði sett lög sem fela í sér óskoruð yfirráð hins opinbera á orkufyrirtækjum. Flokksráðsfundur brýnir ráðherra og þingmenn VG að hraða gerð slíks frumvarps og hvetur jafnframt til þess að gripið sé til allra ráða þannig að HS-Orka komist aftur í almenningseigu í samræmi við fyrri samþykktir flokksráðs og annarra stofnana flokksins.  Þar á meðal verða eignarnámsaðgerðir ekki útilokaðar.”

Nú kemur til kasta ríkisstjórnarinnar. Vilji VG er skýr. Nú reynir á hvort tekið er mark á ályktunum flokksráðs VG. Það er ófrávíkjanleg krafa að orkuverum og orkuauðlindum verði haldið í almannaeigu. Þessa orustu verður að taka núna því mikið er í húfi. Fari sem horfir eru þessar mikilvægu auðlindir landsmanna komnar á útsölu á markaðstorg alþjóðlega auðvaldsins.

Í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri segir í 12.gr.:

„Nú telur [ráðherra]2) að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvað slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr. Áður en slík ákvörðun er tekin skal ráðherra leita álits nefndar um erlenda fjárfestingu.”

Ráðherra í vinstri stjórn sem ekki nýtir sér lagaákvæði sem þetta til að verja landið fyrir ágangi alþjóðlegra fjármagnseigenda sem í engu munu gæta hagsmuna landsmanna, hlýtur að þurfa að hugsa sinn gang. Sama gildir um ríkisstjórnina alla enda hún öll ábyrg fyrir því hvernig komið er. Ríkisstjórn sem ekki grípur inn í þennan feril á afgerandi hátt þannig að HS orka komist aftur í almannaeigu er ekki að gæta almannahagsmuna.

Category : Greinar

Ærandi þögn

July 7th, 2010 // 4:17 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 37 athugasemdir

Fréttablaðið 7.júl 2010

Hjálparstofnanir eru komnar í sumarfrí og á meðan verður ekki afgreiddur matur til fjölda fátækra sem staðið hafa í biðröðum til að fæða sig og sína.

Félagsmálaráðherra segir að þetta sé á ábyrgð sveitarfélaga. Borgarstjóri er enn að kynna sér málið. Formaður velferðarráðs sagði að fátækir gætu sleppt því að greiða reikningana sína á meðan á þessu stendur og verkalýðshreyfingin sem áður talaði máli fátækra heldur sig til hlés.

Á meðan aðrir búa við allsnægtir er fátæktin að aukast og fátækum að fjölga og flest er þeim mótdrægt. Kaupmáttur launa hefur lækkað um allt að fjórðung á tveimur árum, fjárhagsaðstoðin hefur lækkað samanborið við lægstu laun, atvinnuleysisbætur hafa ekki hækkað í eitt og hálft ár og húsaleigubætur hafa staðið í stað í 2 ár á meðan húsaleiga Félagsbústaða, sem flestir þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar greiða, hækkar samkvæmt vísitölu. Sömu sögu eða verri má segja af elli- og örorkulífeyrisþegum. Þeir fátæku verða fátækari.

Félagsmálaráðherra hefur kallað fulltrúa sveitarfélaga til samráðs um málið seinnipart vikunnar. Hann skal ekki gleyma því að stærstur hluti þeirra sem beðið hafa í röðum við hjálparstofnanir er á vegum hans ráðuneytis. Vilji ráðherrann bregðast við vanda fólks sem leitar til hjálparstofnana á hann að leggja sitt af mörkum til að leysa þann bráðavanda sem við blasir og leggja jafnframt til við við ríkisstjórn og á Alþingi að bætur verði hækkaðar.

Þetta firrir sveitarfélögin þó ekki ábyrgð því eins og félagsmálaráðherra hefur bent á er framfærsluskyldan þeirra. Þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna, lögum samkvæmt eru þeir sem minnst hafa á milli handanna og væntanlega þeir sem mestar áhyggjur hafa af sumarlokun hjálparstofnana. Þessu fólki eiga sveitarfélögin að veita styrk nú þegar.

Það sem ærir þó óstöðugan er afskiptaleysi Alþýðusambandsins. Fátækir áttu sér áður málsvara í verkalýðshreyfingunni. Fátækt fólk stofnaði verkalýðsfélögin og kom á réttlátara samfélagi. Þögn ASÍ er ærandi.

Category : Greinar

Öreigar allra landa sameinist

May 1st, 2010 // 11:43 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 40 athugasemdir

Grein úr Morgunblaðinu 1.maí 2010

Í skugga náttúruhamfara og bankaskýrslu hélt Seðlabanki íslands málstofu undir heitinu »Hvernig hefur staða heimilanna breyst og hverju hafa aðgerðir áorkað«. Þar er almennt eignaleysi og fátækt á Íslandi staðfest. Samkvæmt varfærnum niðurstöðum hagfræðinga bankans er húsnæðiseign tæplega 40% heimila minni en engin. 28.000 heimili hafi verið með neikvæða eiginfjárstöðu í febrúar á þessu ári og 24.000 heimili nái ekki endum saman eða séu á mörkum þess, þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Þar með hefur pólitík hægrimanna í upphafi 20. aldar sem vildu gera alla að eignafólki (húseigendum) beðið skipbrot og eftir stendur alþýðan slypp og snauð. Verði ekki spyrnt við fótum verður hún ofurseld húsnæðisbröskurum þar sem Íslendingar, einir Norðurlandaþjóða, hafa ekki komið sér upp almennum félagslegum leigu- og kaupleigumarkaði.

Gegndarlaus græðgi kapítalistanna, frjálshyggjuaflanna, sem vildu setja allt á markað varpar skugga á hugmyndina um blandað hagkerfi og eftir standa í sinni skýrustu mynd höfuðandstæður samfélagsgerðarinnar, auðvaldið og öreigarnir.

1. maí

Það er ekki langt síðan forystufólk úr verkalýðshreyfingunni talaði fyrir því að breyta áherslum á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Kröfugöngur og baráttufundir þóttu orðið gamaldags og í Reykjavík vildu þau sem þannig töluðu frekar halda skemmtun í húsdýragarðinum. En þessar raddir heyrast ekki í dag. Hafi einhvern tímann verið ástæða til að storma út á götur og hefja merki baráttunnar á loft, þá er það núna. Nú er rétt að fylgja í fótspor formæðra okkar og feðra. Þeirra sem með þrotlausri baráttu byggðu upp sanngjarnara samfélag. Þeirra sem þennan dag, undir rauðum fánum réttlætisins, kröfðust þjóðfélagsjöfnuðar og friðar. Þeirra sem fundu til vissu um það að sameinuð myndu þau að lokum sigra því að þar fór fjöldinn sem í raun hafði engu að tapa nema hlekkjunum. Þeirra sem töldu sig eiga meiri samleið með öreigum annarra landa en innlendum kúgurum og að öreigar allra landa myndu að lokum skapa réttlátan heim.

Category : Greinar

Forval VG í Reykjavík

February 11th, 2010 // 10:24 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 31 athugasemdir

Síðastliðinn laugardag var haldið forval hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði í Reykjavík. Þar var ég í framboði í fyrsta sæti en þar að auki gátu kjósendur valið milli sautján frambærilegra frambjóðenda.

Til að standa í framboði þar sem ekki er greitt fyrir vinnu þeirra sem aðstoða er nauðsynlegt að geta virkjað fólk með sér. Með mér starfaði góður hópur sem ég þakka þann árangur sem ég náði. Hjálpsemin og hlýjan sem ég fann fyrir er mér ómetanleg og segir mér að ég sé á réttri leið í mínum störfum.

—–

Frá upphafi var það alveg ljóst í mínum huga að það stefndi allt í það að ég eða Sóley Tómasdóttir myndum lenda í fyrsta sæti í þessu forvali. Þetta segi ég að öllum öðrum frambjóðendum ólöstuðum. Það var mér einnig ljóst að þetta myndi verða tvísýnt enda Sóley gríðarlega öflug með stóran og kraftmikinn stuðningsmannahóp á bakvið sig.

Ég stefndi því að fyrsta sæti með heilum hug en það var hinsvegar langt því frá að vera í hendi. Enda kom á daginn þegar síðustu tölur voru lesnar að Sóley hafði unnið sigur og munaði þar um fjörutíu atkvæðum. Ég hinsvegar var öruggur í annað sætið sem ég vil alls ekki segja að hafi verið ósigur. Sumir vilja meina að gott silfur sé gulli betra.—

Eins og margir lesendur kunna að vita þá hafa hinsvegar verið leiðinleg eftirmál af þessu prófkjöri. Eins og áður segir þá var ég með vel skipulagðan hóp á bakvið mig. Einn af þeim var sonur minn, Haraldur Ingi, en hann leiddi okkar starf.

Fyrir mitt leyti fannst mér reglur forvalsins skýrar þegar ég fór yfir þær upphaflega. Enda var ég á þeim félagsfundi þar sem þær voru samþykktar einróma. Ef þær eru lesnar má sjá að kjósendur í póstkosningu þurfa að senda löturpóst til kjörstjórnar til að atkvæði þeirra teljist gilt. Til skýringar má kannski segja að löturpóstur er hefðbundinn póstur, þ.e. ekki tölvupóstur. Ég ætla ekki að fara út í neinn orðhengilshátt en ef fólk vill fá nánari skýringu á því hvað telst til hefðbundins póst þá vísa ég á orðabókarskilgreiningar.

Sonur minn vildi hinsvegar vera alveg fullviss um það hvernig þessar reglur væru túlkaðar svo að enginn misskilningur væri á ferðinni. Hann setti sig þess vegna í samband við formann kjörstjórnar sem staðfesti okkar skilning á þessum reglum.

Því miður gerðist það svo að þegar stuðningsmenn annarra frambjóðenda báðu um skýringar á þessu sama ákvæði þá var þeim sagt að þeim væri leyfilegt að fara á milli með prentaða kjörseðla heim til fólks og koma þeim síðan til skila. Mér er sagt að sami háttur hafi verið á í tveimur síðustu prófkjörum vegna alþingiskosninga.

Ég vil þessvegna ítreka að þetta fólk starfaði í góðri trú eftir því sem þeim var tjáð að væri leyfilegt. Það er vel skiljanlegt þegar naumt er á munum að stuðningsfólk stundi það sem það telur að allir aðrir séu að gera. Þetta var að mínu mati hinsvegar rótin að því sem síðar gerðist.

Hér verð ég að koma því að, að ég held að umræða undanfarinna daga sýni hinsvegar að þessi leið samræmist ekki því sem fólk vill að viðgangist í kosningum. Hún býður upp á stórkostlegar hættur á misnotkun sem ég þarf ekki að rekja hér. Það hefur sýnt sig í prófkjörum undanfarinna vikna að oft getur munað örfáum atkvæðum þegar fólk raðast í sæti.

Reglur þurfa því að vera þannig að hafið sé fyrir ofan allan vafa að engin hætta sé á öðru en að endanleg úrslit séu rétt. Ef reglur eru þannig að þær bjóði upp á mögulega misnotkun þá getur aldrei orðið sátt um niðurstöðu. Ég tel það þannig vera mikla blessun að þessi atkvæði réðu ekki úrslitum því að það hefði getað valdið sundrung og óánægju sem hefði getað haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir flokksstarfið.

Svo ég haldi áfram með frásögnina þá gerist það svo á kjördag að það er haft samband við mig ítrekað og mér er sagt að verið sé að bjóða fólki að fá heimsenda kjörseðla. Þegar ég fæ þetta staðfest fer ég beint á kjörstað og ræði við formann kjörstjórnar og lýsi yfir áhyggjum mínum. Ég segi honum ennfremur af því að ég muni að öllum líkindum senda inn kæru vegna þessa sem allra fyrst. Sú kæra var send inn um fimmleytið á kjördag, klukkutíma fyrir lokun kjörstaðar og tveimur tímum áður en fyrstu tölur birtust.

Framhaldið þekkja flestir. Sóley sigraði prófkjörið og ég lenti í öðru sæti. Ég samgladdist með Sóleyju og var reyndar mjög ánægður með að í þessu fjölmenna forvali hafi svo margir stutt mig. Ég lét því kvöldið líða með mínum félögum og Sóleyju njóta sigursins með sínu stuðningsfólki án þess að fara sérstaklega út í að ræða mína kæru. Mér var enda tjáð að þessi atkvæði hefðu ekki ráðið úrslitum.

En ég leit hinsvegar aldrei svo á að kæran hefði fallið niður og beið eftir formlegum úrskurði frá kjörstjórn þar sem að ég taldi að það væri nauðsynlegt að fá úr þessu skorið. Þegar ekkert svar hafði borist daginn eftir setti ég mig í samband við kjörstjórnarmeðlim sem sagði mér að hann hefði ekki frétt af þessari kæru. Þetta vakti furðu mína og sendi ég því ítrekun með þeim viðbótarupplýsingum sem ég hafði þá í höndunum.

Svar við kærunum barst svo á mánudagskvöld. Þar vísar kjörstjórn þeim frá. Þetta taldi ég í ljósi staðreynda algjörlega óásættanlegt.

Eftir fylgdi tilfinningaþrungið ferli þar sem ásakanir gengu á víxl. Ýmislegt var sagt sem ég hugsa að ýmsir myndu vilja taka til baka. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði getað valið mín orð betur. En ég var og er hinsvegar sannfærður um að það þurfti að leysa þetta mál á annan hátt en upphaflega var gert.

——-

Það segir sig sjálft að það er erfitt að standa í útistöðum við sína samherja. Stjórnmálamenn þurfa hinsvegar að hafa kjark til að fylgja sinni sannfæringu þegar á móti blæs. Að opna á umræður í staðinn fyrir að stinga hausnum í sandinn. Kýli sem ekki er stungið á strax fyllist af greftri. Það er hinsvegar því miður hefð fyrir því hér á landi að í mótlæti þá fer fólk í felur, afneitun eða skotgrafarhernað. Það neitar að ræða mál á málefnalegum forsendum.

Lýðræði er brothætt hugtak. Þegar viðhorf kjósenda til kjörinna fulltrúa og stofnanna sem eiga að vera byggðar á lýðræðislegum grunni eru skoðað þá sést berlega að traustið er í algjöru lágmarki. Ástæða þess er að ég tel fyrst og fremst sú að leyndarhjúpur hefur umlukið okkar stjórnmálastétt og hennar störf. Sú leið hefur iðulega verið farin að veita eins litlar og þvældar upplýsingar og mögulegt er. Það hefur þurft að toga staðreyndir fram.

Þetta er að mínu mati algjörlega röng nálgun. Upplagið á að vera að allar staðreyndir séu á borðinu. Að þannig þurfi að vera fyrir því mjög sérstök og mikil rök ef eitthvað á ekki að vera opið fyrir almenning. Fyrir þessu eru lýðræðisrök en ekki síður praktísk rök. Ástæðan fyrir því að við stundum fulltrúalýðræði er ekki sú að það sé akkúrat best að svo og svo margir sitji á alþingi eða í sveitastjórnum. Eða að þar sé alltaf besta eða hæfasta fólkið. Staðreyndin er sú að stjórnmálamenn þurfa á umræðu að halda. Þeir þurfa að fá athugasemdir og upplýsingar frá sérfræðingum, hagsmunahópum og almenningi til að taka upplýstar ákvarðanir.

Það hafa verið gerð mörg og alvarleg mistök hér á landi. Almenningur kallar því eðlilega á breytingar. En ég held ekki að það sé kall á fullkomna stjórnmálamenn. Þeir eru ekki til frekar en fullkomið fólk. Það sem verið er að biðja um er fólk sem viðurkennir mistök þegar þau koma upp og skiptir um skoðun ef forsendur breytast, fólk sem kallar á umræðu og aðhald þannig að hægt sé að læra á þeim mistökum. En fyrst og fremst að við þeim sé brugðist eins fljótt og auðið er til að lágmarka skaða.

Ég er ekki í þeim hópi sem kallar alltaf sjálfkrafa á afsögn þegar stjórnmálafólki verður á. Ef fólk í stjórnmálum getur ekki viðurkennt mistök, beðist afsökunar og leiðrétt þau án þess að þurfa þar með sjálfkrafa að víkja þá leiðir það að sjálfsögðu til þess að enginn viðurkennir neitt. Þá er nei, nei, nei eina svarið.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur í mínum huga staðið fyrir heiðarleika í íslenskum stjórnmálum. Við höfum barið okkur á brjóst og leitt umræðu þegar réttlætiskennd þjóðarinnar er ofboðið. Við höfum talað fyrir lýðræði, gegnsæi og heiðarleika.

En það verður að segjast eins og er að það er auðvelt að hafa prinsipp þegar það reynir ekki á þau. Stjórnmálaflokkur þarf að hafa völd til að sanna að hann stundi ekki marklaust þvaður. Popúlisma sem ekkert var á bakvið. Ef þú stendur ekki við þín prinsipp þegar til kastanna kemur þá eru þau ekki mikils virði. Fólk verður að geta treyst því að sá sem segir eitt fyrir kosningar segi ekki annað um leið og þeim er lokið. Og að eitt gildi ekki um aðra en annað um þig.

Stjórnmálaflokkar sem ætla að leyfa sér að gagnrýna verða að geta tekið gagnrýni. Þeir verða að gagnrýna sjálfan sig. Horfa inn á við og leysa vandamál sem koma upp á opinskáan og heiðarlegan hátt.

Þar þýðir ekkert pukur eða leynimakk.Það verður að sjálfsögðu að vera trúnaður milli fólks en það má ekki vera þannig að sendiboðinn sé alltaf skotinn. Við klöppum fyrir því þegar einstaklingar í fyrirtækjum koma fram og segja frá misferlum innan þeirra. Af hverju á ekki það sama við þegar um okkur sjálf er að ræða? Sumir harma umræðu, ég fagna henni. Við þegjum aldrei vandamál í hel.

———-

Í ljósi umræðu undanfarinna daga verð ég að segja að ég er stoltur af því að vera í flokki sem hefur leitt umræðu og aðgerðir í þágu kvenfrelsis á Íslandi. Það er í mínum huga augljós staðreynd að það hallar á konur á fjölmörgum mikilvægum sviðum. Fléttulistar eru að sjálfsögðu ekki markmið í sjálfu sér en koma til af þessari illu nauðsyn.

Það sem gerir mig þó sérstaklega stoltan er að flokkurinn minn hefur nánast ekki þurft að beita þessum reglum. Okkar kjósendur hafa valið konur og karla jafnt í ábyrgðastöður þegar þeir hafa fengið til þess tækifæri. Það finnst mér merki um mikinn þroska.

Mér þykir það þess vegna sorglegt þegar fólk leyfir sér að taka umræðu um kosningar niður á það plan að þar snúist allt um kyn. Í nafnleysi tala margir á netinu um konur þannig að mig hryllir við. Ég vil ekki vera í þeim félagsskap. Það sama á við um þá sem kjósa að stilla því þannig upp að allt sem ég geri eða ekki geri megi rekja til kynfæra minna. Slík orðræða dæmir sig að mínu mati sjálf.

Í því forvali sem er nú nýafstaðið voru þrjár ungar og öflugar konur í fjórum efstu sætunum. Varla þarf að kynna Sóleyju Tómasdóttir fyrir lesendum en ég hef starfað náið með henni undanfarin ár og get vottað að hún er skarpgreind, fylgin sér og öflugur samherji.

Í þriðja sæti varð Líf Magneudóttir sem ég hafði ekki haft kynni af fyrr en fyrir örfáum vikum. Af því sem ég hef séð er hún réttsýn og heiðarleg og ef eitthvað er að marka þá fjölmörgu sem hafa talað um kosti hennar í mín eyru þá er þar á ferðinni mögulegt spútnik í íslenskum stjórnmálum.

Í fjórða sæti varð svo góð vinkona mín og samstarfskona, Elín Sigurðardóttir. Ég hef ekkert annað en gott um hana að segja og ég hef margoft leitað til hennar þegar þurft hefur að fara í mál sem eru mér hjartfólgin og hún hefur sýnt það og sannað að þar er á ferð gríðarlega öflugur félagi í baráttunni fyrir betra samfélagi.

Ég er stoltur af því að fá að vera í hóp með þessum konum sem eru að mínu mati allar mögulegir borgarfulltrúar í komandi kosningum.

Það er hinsvegar alveg ljóst að þegar átján frambærilegir aðilar keppa um sex sæti þá verður markt gott fólk frá að hverfa. En það er hinsvegar þannig að borgarstjórnarflokkur vinstri grænna er mjög breiður hópur. Í honum eru um fjörutíu manns og er boðað tl fundar vikulega. Þar fer fram mjög góð og málefnaleg umræða um öll störf flokksins. Ég mun því ekki þurfa að sjá eftir þeim sem komust ekki í sex efstu sætin. Ég mun halda áfram að því að hitta það góða fólk og vinna með því að góðum verkum.

—-

Að lokum vil ég segja að ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu sem fékkst í þetta mál. Mér finnst gott til þess að vita að við getum deilt án þess að klofna. Við getum leyst vandamál og komið út úr þeim sterkari en áður.

Framhaldið liggur fyrir. Kosningar nálgast og baráttan um betri borg á næsta kjörtímabili er að hefjast. Þar mun Vinstrihreyfingin grænt framboð mæta samhent til leiks. Okkar rödd er nauðsynleg.

Category : Greinar

Hugleiðingar á forvalsdegi

February 6th, 2010 // 11:00 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 32 athugasemdir

Í dag fer fram forval hjá Vinstri grænum vegna borgarstjórnarkosninga næsta vor. Ég gef kost á mér í fyrsta sæti en margir aðrir frambærilegir frambjóðendur eru að stefna á það og önnur sæti listans.

————-

Ég tók þátt í mínu fyrsta forvali fyrir fjórum árum síðan. Þar bauð ég mig fram í þriðja sæti á lista fyrir borgarstjórnarkosningar. Sú kosningabarátta sem ég háði þá fólst í örfáum símtölum til fjölskyldu, vina og kunningja sem voru í flokknum. Ef ég man þetta rétt hugsaði ég lítið um þetta fyrr en rétt örfáa daga fyrir forvalið. Með þetta í huga er í raun stórmerkilegt að ég hafi náð sætinu sem ég sóttist eftir þá.

Þegar ég ákvað að gefa mig fram sem kandídat í fyrsta sæti fyrir þetta forval gerði ég mér hinsvegar grein fyrir því að ég þyrfti að undirbúa mig aðeins betur enda er ég ekki einn um hituna og samframbjóðendur mínir mjög frambærilegir. Ég gerði það því ekki af hálfum hug heldur ræddi við mitt samstarfsfólk og stuðningsmenn áður en ég ákvað mig endanlega. Barátta sem þessi tekur á. Það fer enginn út í slíkt án þess að hugsa málin vel.

Þrátt fyrir þann tíma sem þetta hefur tekið hef ég hinsvegar reynt eftir bestu getu að láta þennan forvalsaðdraganda ekki bitna á störfum mínum fyrir borgarbúa. Ég hef reynt að mæta eins vel og fyrr þar sem mér er ætlað og undirbúið mín mál eins vel og áður. Það eru aðrir betri til að meta hvort ég hafi staðið mig vel í þeim efnum.

Aðvitað er það þannig að stjórnmálamenn eru ekki vélar. Þeir hafa tilfinningar eins og annað fólk. Þeir geta verið barnalegir eins og aðrir. Það tekur óneitanlega á að fara í prófkjör og það er mjög auðvelt að taka niðurstöðu þeirra, jákvæða eða neikvæða, persónulega.

Stjórnmálamenn geta mjög auðveldlega ofmetnast af sjálfum sér. Sett sig sjálfa fram yfir hagsmuni fjöldans. Þeir eru oft umkringdir jáfólki sem hefur þá til skýjanna. Miklar þeirra stöðu.

Undanfarnar vikur hafa verið sjálfmiðaðar hjá mér. Ég viðurkenni það bara. Ég stefni að fyrsta sæti og til að gera það hef ég þurft að tala við fjöldan allan af fólki og þá fyrst og fremst um mitt eigið ágæti. Ég hef ekki þurft að gera það áður í þessu mæli.

Þetta var erfitt fyrst en ég finn að ég á orðið auðveldara með að hæla sjálfum mér. Það sem ég er að reyna að segja er að ég finn það einfaldlega á eigin skinni hvað það er auðvelt að verða sjálfmiðaður pólitíkus. Það er í sjálfu sér ekki endilega slæmt að tala fyrir eigin ágæti en ég verð að minna sjálfan mig á af hverju ég er í pólitík. Það er ekki fyrir mig sjálfan. Trúi því hver sem vill.

Ég er í pólitík af því að ég vill berjast fyrir þeim sem hafa lútið lægri hlut í lífsbaráttunni, ég vil hjálpa þeim þurfa á hjálp að halda. Ég vil hjálpa til við að búa til samfélag þar sem allir geta blómstrað og nýtt sér sín tækifæri. Og að þeir sem af einhverjum ástæðum tekst það ekki fái þann stuðning sem þeir þurfa.

Ég vil að sjálfsögðu líka hafa hér öflugt atvinnulíf en ég hef bara ekki tekið eftir því að fyrirtæki vanti málsvara. Fólkið með lægstu röddina er það fólk sem þarf mestu hjálpina. Þeir sem hafa hæst eru þeir sem hafa efni á góðum magnara. Þeir þurfa ekki mína aðstoð sérstaklega.

—-

Í öðrum flokkum hefur það jafnan verið venjan að þeir sem hafa náð að safna mestum peningum í prófkjörsbaráttuna hefur farnast best. Undanfarið höfum við heyrt ótrúlegar tölur af framlögum til einstaklinga sem hafa verið að taka mjög mikilvægar ákvarðanir sem kjörnir fulltrúar. Það sjá það auðvitað allir að milljónaframlög eru ekki án skuldbindinga. Einkafyrirtæki hafa ekki hugsjónir. Þau hafa hagsmuni. Þetta vita allir þótt sumir reyni að rugla umræðuna.

Það er þessvegna sem ég er stoltur af því hvernig við Vinstri græn höfum staðið að okkar forvölum. Ekki bara núna heldur líka á góðæristímum. Okkar frambjóðendur höfðu sannanlega tækifæri til að ganga um og slá lán hjá gjafmildum einstaklingnum og fyrirtækjum. Ég segi lán því að þótt þau hafi ekki verið endurgreidd í peningum af frambjóðendunum sjálfum þá ætlast slíkir hagsmunaraðilar til þess að þeir fái sína endurgreiðslu í gegnum þau ráð og stofnanir sem þessir frambjóðendur hafa aðkomu að.

Og hvers eiga þeir þá að gjalda sem ekki vilja láta kaupa sig? Þeir einfaldlega hverfa innanum auglýsinga og bæklingaflóð. Og komast ekki til áhrifa til að berjast fyrir sínum málum.

Vinstri græn hafa af þessum ástæðum ekki leyft frambjóðendum að fara út í mikinn kostnað vegna sinnar baráttu í forvölum. Til að jafna leikinn eins og mögulegt er. Að sjálfsögðu hefur fólk einhvern aðstöðumun. Þetta kerfi er alls ekki gallalaust. Ég sem sitjandi borgarfulltrúi hef þannig töluvert forskot á flesta aðra frambjóðendur. Það er einföld staðreynd.

En á móti bendi ég á að ég var ekki sérstaklega þekktur þegar ég náði þriðja sætinu fyrir fjórum árum eins og ég rak hér að ofan. Niðurstaða mín, og VG, er sú að þrátt fyrir að þetta fyrirkomulag hafi ákveðna galla þá eru kostirnir margfalt fleiri og mikilvægari.

En hvernig fer maður þá að í forvali hjá VG? Þegar maður getur ekki leitað til auglýsingastofa og spunameistara til að búa til utan um sig ímynd?

Sú leið sem ég hef farið er einföld. Í samvinnu við son minn og vin hans setti ég upp vef á www.thorleifurgunnlaugsson.com. Ég hef reynt að vera duglegur að koma þar inn efni sem og hér á Eyjunni og í fjölmiðlum.

En fyrst og fremst snýst þetta um að tala við fólk. Að ræða við sína flokksfélaga, maður á mann. Þannig var hið upprunalega lýðræði. Fólk talaði beint við sína fulltrúa. Og þannig vil ég hafa það. Ég vil vera í beinu sambandi við það fólk sem styður mig.

Það er nefnilega nauðsynlegt að fá aðhald. Gagnrýnin kemur oftast frá pólitískum andstæðingum en stjórnmálamenn eiga það til að leiða slíkt hjá sér. Það er þessvegna mjög mikilvægt að aðhaldið komi líka frá stuðningsfólki. Að það láti vita þegar það er ekki ánægt eða vill gera hluti á annan hátt. Og svo að sjálfsögðu að maður fái að heyra ef það er ánægt.

—–

Ég hef lagt á það mikla áherslu að stunda jákvæða baráttu. Ég stefni að sjálfsögðu á fyrsta sæti, það er öllum ljóst. Til þess að ná því markmiði hef ég reynt að koma mínum áherslum og málefnum á framfæri. Ég vil leggja mína vinnu í dóm flokksmanna.

En ég geri mér einnig grein fyrir því að aðrir sækjast eftir sama sæti. Þar er öflugt og gott fólk sem hefur mikið fram að færa og myndi sóma sér vel sem oddvitar. Mér dettur þessvegna ekki í hug að tala þau niður, niða eða hæða. Þau eiga það einfaldlega ekki skilið og flokkurinn á slíka baráttu ekki skilið. Mér finnst mjög gott að finna að samframbjóðendur mínir í forvalinu virðast allir hafa tekið þessa sömu línu og ég.

Við erum samherjar í pólitík, það er engin tilviljun að við erum saman í flokki. Við höfum valið VG af því að við teljum að það sé sá flokkur sem samrýmist best okkar hugsjónum. Það þýðir náttúrulega ekki að við séum sammála um öll mál, slíkt er óhugsandi, og í raun stórhættulegt í stóru stjórnmálaafli.

En við höfum sameiginleg gildi. Við berum virðingu fyrir hvort öðru af því að við vitum að á endanum þá erum við öll að berjast fyrir betra samfélagi. Okkur kann að greina á um leiðir en ekki markmið.

Það er ekki nóg að þykjast. Ég er sannfærður um að hugsunarháttur skiptir máli. Það getur enginn haldið það út til lengdar að brosa framan í samherja sína en vinna gegn þeim þegar þeir snúa baki. Upp koma svik um síðir. Smá saman rifnar sauðagæran og úlfurinn kemur í ljós.

Ástæðan fyrir mikilvægi þess að kosningabaráttan sé jákvæð og uppbyggileg ætti að vera öllum ljós. Það er nefnilega nauðsynlegt að þau sem veljast á listann geti tekið höndum saman strax eftir forval og farið að vinna að undirbúningi fyrir kosningabaráttu. Það er ekki hægt ef fólk er með rítingasett í bakinu. Þannig hópur getur aldrei skilað góðum árangri.

Ég er að sjálfsögðu ekki að meina að fólk geti ekki talað fyrir sínum frambjóðendum. Slíkt er fullkomlega eðlilegt. Kjósendur sækjast eftir mismunandi hlutum þegar það metur frambjóðendur og forvalsferlið á einmitt að stuðla að því að þeir einstaklingar sem geta talað til flestra leiði starfið.

En það er stór munur á því annarsvegar að vinna með einhverjum frambjóðanda eða því hinsvegar að vinna gegn einhverjum. Slíkt er engum til góðs. Þar tapa allir á endanum.

———-

Ég þarf ekki að rekja hvað hefur gengið á í íslensku samfélagi undanfarin misseri. Algjört hrun hugmyndafræði frjálshyggjunnar og þeirra afla sem fyrir þeim tala eru augljós þeim sem það vilja sjá. Sú uppreisn sem margir vilja kalla búsáhaldabyltingu sýndi að fólk er ekki tilbúið til að standa þögult hjá á meðan landið sekkur.

Í ástandi sem þessu eru mörg tækifæri. Mikið af fólki sem var áður ekki virkt í pólitísku eða félagslegu starfi hefur sprottið upp um allt land. Fólk sem er fullt af hugmyndum, dugnaði og þori. Ég staðhæfi að áhugi á fréttum, fréttaefni og skoðunum hafi aldrei verið jafn mikill hér á landi og mánuðina eftir hrun.

Almenningur drakk í sig allan þann fróðleik sem hann komst í til að halda sér upplýstum. Fólk skrifaði greinar og blogg, í heitum pottum, fjölskyldusamkomum og á vinnustöðum var lítið annað rætt en pólitík. Fólk flykktist á Austurvöll, á borgarafundi og allsstaðar þar sem þjóðfélagsmál voru rædd var fullt út úr dyrum. Við vildum fá að tala en ekki síður hlusta. Umræðan var kannski ekki alltaf upplýst en umræða er í sjálfu sér góð og ég trúi því að hún leiði á endanum til betri skilnings.

Þetta tel ég vera einn af jákvæðustu þáttum hrunsins. Almennur áhugi á stjórnmálum og pólitísku starfi. Af því að það voru ekki flatskjáirnir sem komu okkur á hausinn. Það var miklu frekar sá tími sem fólk eyddi í að horfa á þessa flatskjái. Það er ekki nóg að horfa á skemmtiefni og hraðsoðna fréttatíma með 30 sekúndna innslögum.

Lýðræðið krefst þess nefnilega að almenningur sé upplýstur, kynni sér mál sem stundum eru mjög flókin og komi sínum sjónarmiðum á framfæri. Þetta er gjaldið sem við sem íbúar í lýðræðisríki verðum að greiða. Ef við erum ekki tilbúin til þess getum við ekki gert kröfu til okkar kjörnu fulltrúa.

Við megum aldrei gleyma því að við berum ábyrgð á okkar stjórnvöldum. Þau komast til valda fyrir tilstuðlan okkar. Og við getum komið þeim frá.

En ég finn fyrir hættulegri undiröldu. Undanfarið heyri ég að þær raddir sem segja að allir stjórnmálamenn séu ómögulegir verða sífellt háværari. Ég skil að sjálfsögðu hvaðan þessi reiði er sprottin. Fjölmargir hafa brugðist sínu hlutverki á undanförnum árum og ófáir stjórnmálamenn eru á þeim lista. Það er þessvegna alveg eðlileg tilfinning að vilja bara gefast upp. Hætta að hugsa um stjórnmál. En hvert leiðir það?

Við getum verið stolt af því sem þjóð að kosningaþátttaka hefur hér verið með því hæst sem þekkist. Kjósendur hafa kannski ekki alltaf valið þá sem mér hugnast en góð þátttaka er hinsvegar alltaf fagnaðarefni í sjálfu sér.

Ef við hinsvegar hættum að taka þátt, hættum að fylgjast með stjórnmálum eða sláum öllu upp í grín og kaldhæðni þá leysum við engan vanda. Þvert á móti mögnum við hann upp.

Lýðræði er ekki fólgið í því að merkja við seðil á fjögurra ára fresti og velja þar á milli örfárra kosta. Íslenskt lýðræði er langt frá því að vera fullkomið. Á því eru mýmargir gallar sem við þurfum að laga. Það þarf að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og stokka upp stjórnarskránna með stjórnlagaþingi svo dæmi sé tekið. Við þurfum að auka til muna möguleika fólks til að hafa áhrif á milli kosninga.

En á meðan við reynum að breyta kerfinu þá megum við ekki gleyma að við höfum ýmis tæki. Prófkjör gefa okkur þannig kost á því að hafa bein áhrif á það úr hverjum við höfum að moða þegar kemur að kjjördegi.

Það er einfaldlega staðreynd að einhverjir þurfa að taka ákvarðanir í sveitar- og ríkisstjórn. Og hvernig á það fólk að veljast öðruvísi en þannig að við, fólkið í landinu, höfum um það að segja? Viljum við sterka manninn? Manninn sem stjórnar án samráðs, án þess að hlusta? Ég fyrir mitt leyti segi nei.

——–

Og þá er ég nú loksins að komast að því sem ég vildi sagt hafa. Lýðræðið er tímafrekt eins og ég hef rakið. Það tekur t.a.m. tíma að kynna sér menn og málefni í því forvali sem ég er í núna. Það tekur tíma að mæta og kjósa. Þetta tekur allt tíma. En þessum tíma er vel varið. Á endanum fáum við þau stjórnvöld sem við eigum skilið.

Ég hef talað fyrir því að fólk flykkist inn í stjórnmálaflokka, verkalýðsfélög, samvinnufélög. Að það taki samfélagslega ábyrgð og hjálpi til við að laga landið okkar. Við erum félagsverur. Einstaklingsframtak er nauðsynlegt. Einn maður getur breytt svo sannanlega haft áhrif. Og allir verða að byrja á sjálfum sér. En til að hafa virkileg áhrif þá verðum við að vera sameinuð.

Þessvegna langar mig að lokum til þess að biðja alla sem eru kjörgengir í forvali dagsins að mæta í dag milli tíu og sex og kjósa sitt fólk. Góð þátttaka mun endurspeglar þá miklu breidd en jafnframt öflugu liðsheild sem ég veit að VG stendur fyrir.

Category : Greinar

Drög að stefnu Vinstri grænna í málefnum utangarðsfólks

September 29th, 2008 // 11:33 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 30 athugasemdir

Fréttablaðið, 29. sep. 2008 06:15

Þorleifur Gunnlaugsson skrifar um utangarðsfólk.

Það sem er fyrst og fremst gott við stefnu borgarinnar í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum er það að hún er fyrsta stefna sinnar tegundar á Íslandi og brautryðjandi sem slík. Utangarðsfólk á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, verja stjórnarskrárvarin mannréttindi og rétt til húsaskjóls. Stefnan er árangur af baráttu þeirra fjölmörgu sem tekið hafa upp hanskann fyrir þetta fólk. Það er verðugt markmið að efla samstarf og forvarnir, auka reglubundna þjónustu, styrkja tímabundin úrræði og fjölga langtíma úrræðum. Stefnan er aðgengileg á vefsvæði Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Stefnumótun

Undirritaður hefur átt sæti í starfshópi á vegum velferðarráðs Reykjavíkur um málefni utangarðsfólks síðan 6. febrúar 2007, eða í rúma nítján mánuði. Hópurinn boðaði fjölmarga hagsmunaaðila og fagfólk til samráðs og hélt átján formlega fundi. Má þar nefna fulltrúa frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða (sem er þekkingarmiðstöð í málaflokknum), Landspítala, SÁÁ, Geðhjálp, Krísuvíkursamtökunum og svo mætti lengi telja.

Safnað hefur verið saman gríðarlegri reynslu og þekkingu sem getur orðið góður grunnur að stefnu borgarinnar í málaflokknum. Þegar drögin að stefnunni voru lögð fram til fyrstu (og einu) umræðu í velferðarráði lagði minnihlutinn til að þau yrðu send til allra þeirra sem að málinu komu til umsagnar. Slíkt er alvanalegt og ber vott um vönduð vinnubrögð og virðingu fyrir þeim sem að málinu hafa komið á formlegan hátt. Þessu var samt sem áður hafnað af hálfu meirihlutans.

Hjáseta

Vinstri græn í velferðarráði og borgarráði ákváðu að sitja hjá við afgreiðslu málsins aðallega af neðangreindum ástæðum:

a) Stefnan tryggir það ekki að utangarðsmenn fái þak yfir höfuðið á þessu ári heldur einhvern tíma á því næsta.

b) Opna á langtíma húsnæðisúrræði fyrir utangarðskonur í neyslu einhvern tíma á næsta ári. Þetta þolir enga bið. Sumar konurnar sjá sig tilneyddar að búa hjá körlum gegn misnotkun.

c) Talað er um að „skammtíma gistiskýli uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til úrræða af þessu tagi. Skoðaður verði núverandi húsakostur og lagðar fram tillögur að breytingum ef þurfa þykir”. Og þetta á að gera einhvern tíma á næsta ári. Starfshópur sem starfað hefur í nítján mánuði hefur ekki skoðað það húsnæði sem er til staðar. Það hefur undirritaður gert og er á þeirri skoðun að neyðarskýlin eru í húsnæði sem er í raun ekki boðlegt þessu veika fólki. Nú þegar þarf að byggja eða kaupa sæmandi húsnæði í miðborginni.

d) Engin hugmyndafræði er í stefnunni um bata og eðlilegt líf. Þótt talað sé um „búsetuúrræði með félagslegum stuðningi” og hafa eigi „samstarf um rekstur á slíku úrræði við viðeigandi aðila” er það ekki útlistað frekar. Stefna í þessum málaflokki sem ekki talar skýrt um leið út úr vandanum er gölluð.
e) Ýmislegt annað er umhugsunarvert eins og það að samkvæmt stefnunni á það ekki að vera tryggt fyrr en á árinu 2010 að utangarðsfólk njóti heimilislæknis.

Drög að stefnu VGR

Eftir þá vinnu sem nú hefur átt sér stað telur undirritaður að eftirfarandi aðgerðir eigi að vera skýrar í stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum utangarðsfólks en sumar þeirra eru nú þegar í stefnu Reykjavíkurborgar:

• Rannsókn í samráði við fagaðila á umfangi þeirra sem teljast til utangarðsfólks. Má þar nefna Landspítalann, SÁÁ, RKÍ, Geðhjálp, Samhjálp, Lögregluna og Þjónustumiðstöð miðborgar.

• Gistiskýli (neyðarathvarf) fyrir konur og karla í neyslu. Staðsett í eða við miðbæinn – tengt mötuneyti. Borgin kaupi eða byggi viðunandi húsnæði.

• Áfangahús fyrir konur og karla í neyslu – staðsett í eða við miðbæinn.

• Færanleg hús fyrir pör og einstaklinga í neyslu sem ekki þrífast í sambýli.

• Búsetuúrræði fyrir konur og karla í neyslu í eða við miðbæ.

• Búsetuúrræði fyrir utangarðsfólk í bata tengt meðferðarstöð. 1-3 ár.

• Búsetuúrræði fyrir utangarðsfólk í bata í Reykjavík með miklu utanumhaldi.

• Félagslegt húsnæði, sjálfstæð búseta.

Höfundur er borgarfulltrúi VG og átti sæti í starfshópi um málefni utangarðsfólks sem nýverið lauk störfum.

Category : Greinar

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi