Skoða greinar eftir

Borgarfulltrúar þurfa að greiða fyrir borgarráðsbústaðinn

February 2nd, 2010 // 4:50 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 36 athugasemdir

Vísir, 02. feb. 2010 09:58

Skrifstofustjóri borgarstjórnar, Ólafur Kr. Hjörleifsson, lagði fram bréf að beiðni Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa VG, hjá forsætisnefnd fyrir helgi þar sem lagt var til að gjald yrði tekið af svokölluðum borgarráðsbústaði við Úlfljótsvatn í lok janúar. Tillagan var samþykkt.

Bústaðurinn hefur hingað til staðið borgarfulltrúum til boða án gjalds en það var Fréttablaðið sem skýrði frá málinu í janúar.

Borgarfulltrúi VG, Þorleifur, gerðu athugasemd við þetta kerfi. Fannst honum eðlilegt að gjald væri tekið af borgarfulltrúum vegna afnota af bústaðnum eins og öðrum óbreyttum starfsmönnum Reykjavíkurborgar.

Forsætisnefnd samþykkir málið fyrir sitt leyti en gjaldtakan hófst frá og með 1. febrúar. Gjaldið mun fylgja gjaldskrá orlofshúsa Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Category : Úr fjölmiðlum

Vill að borgin hætti að greiða laun miðborgarprests

February 2nd, 2010 // 4:49 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Vísir, 02. feb. 2010 09:56

Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í borgarráði, lagði fram þá tillögu á fundi borgarráðs í síðustu viku að borgarráð hætti að greiða helming launa miðborgarprests.

Þorleifur Gunnlaugsson telur að mikill niðurskurður í fjárhagsáætlun Reykjavíkur annað árið í röð setji mark sitt á nauðsynlega grunnþjónustu borgarinnar. Það sé því ekki verjandi að leggja 4,6 milljónir í starf miðborgarprests.

Segir Þorleifur að í og við miðborgina sé fjöldi presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar sem þiggi laun sín af skattpeningum borgarbúa. Telur hann að það fjármagn ætti að duga fyrir meintri þörf á sálgæslu á svæðinu, eins og hann sjálfur orðar það.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiddu hins vegar allir atkvæði gegn tillögu Þorleifs.

Category : Úr fjölmiðlum

Forvalsbæklingur

February 1st, 2010 // 12:07 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Forvalsbæklingur Vinstri grænna er kominn á netið (sjá hér). Þarna er stuttur inngangur um hvern og einn af þeim 18 góðu frambjóðendum sem félagar hafa úr að velja. Það má einnig nálgast sömu upplýsingar settar fram á netinu hér. Þar eru einnig tenglar beint á heimasíður og facebook síður frambjóðenda.

Undanfarna daga og vikur hef ég verið svo heppinn að fá að kynnast þeim sem koma ný inn. Þetta er mjög fjölbreyttur hópur sem kemur úr öllum þjóðfélagshópum. Það gleður mig að sjá hvað VG er með breiða skírskotun.

Ég mæli með því að allir þeir sem ætla sér að taka þátt í forvalinu lesi bæklinginn spjaldana á milli svo að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun í kjörklefanum. Auk þess sem hann er aðgengilegur á netinu, verður hann sendur til allra félagsmanna í Reykjavík á næstu dögum.

Category : Forval

Kjörfundur

January 31st, 2010 // 11:24 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 39 athugasemdir

Kjörfundur mun fara fram í húsnæði Kvennaskólans við Þingholtsstræti, laugardaginn 6. febrúar milli kl. 10 og 18. Kosningarétt í forvali VG í Reykjavík hafa allir þeir sem skráðir voru í VG fyrir 27. janúar 2009 og hafa lögheimili í Reykjavík óháð aldri. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla verður haldin í skrifstofu VG við Suðurgötu miðvikudaginn 3. og fimmtudaginn 4. febrúar milli 17 og 19.

Á kjörstað mun kjósandi fá seðil með nöfnum frambjóðenda í stafrófsröð ásamt leiðbeiningum. Kjósa skal sex frambjóðendur og gefa þeim númer frá 1-6. Talan 1 merkir fyrsta sæti, 2 merkir annað sæti o.s.frv. Kjörseðill telst þó gildur ef einungis er raðað í fjögur efstu sætin.

Kjörstjórn stillir upp framboðslista eftir niðurstöðu forvals og er bundin af henni varðandi sex efstu sætin. Í anda kvenfrelsisstefnu VG verður þó gripið til paraðs fléttulistafyrirkomulags ef hallar á konur.

Póstkosning

Félagsmenn geta fengið sendan kjörseðil í tölvupósti ef þeir óska þess. Hann skal lagður í ómerkt umslag sem aftur er lagt í annað umslag merkt:

Vinstrihreyfingin grænt framboð b.t. kjörstjórnar Pósthólf 175, 121 Reykjavík

Kjósandi skal rita nafn sitt og kennitölu utan á umslagið. Til að atkvæði teljist gilt þarf það að hafa borist í pósthólf kjörstjórnar fyrir lokun afgreiðslu föstudaginn 5. febrúar eða beint til kjörstjórnar fyrir kl. 18 á kjördag.

Category : Forval

Lækkun á framlögum við borgarstjórnarflokka

January 29th, 2010 // 12:18 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 38 athugasemdir

Forsætisnefnd 29 01 10

Lögð fram að nýju svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna við fjárhagsáætlun ársins 2010, sem vísað var til forsætisnefndar á fundi borgarstjórnar 15. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 17. s.m.:

  • Lagt er til að sérfræðiaðstoð til borgarstjórnarflokka verði lækkuð um 15.000 þ.kr. Sparnaður verði færður á liðinn ófyrirséð.
  • Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar um málið, dags. 27. þ.m.

Afgreiðslu málsins er frestað.

Þorleifur Gunnlaugsson óskar bókað:
Fram hefur komið að greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði úr 13,9 milljónum króna árið 2006 í 32,75 milljónir árið 2007. Undanfari þessarar hækkunar var að árið 2006 var ákveðið að ýmis kostnaður sem áður féll á sveitarfélög við alþingis- og forsetakosningar skyldi framvegis greiddur af ríkissjóði en vafasamt er að réttlæta það að þessar breytingar leiddu af sér færslu fjármuna til stjórnmálaflokka í Reykjavík.

Það hefur einnig komið fram að framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka eru meira en helmingi hærri en framlög annarra sveitarfélaga, svo sem Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu. Það er hinsvegar ljóst að Reykjavíkurborg er skylt skv. lögum að veita þeim stjórnmálasamtökum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, fjárframlög til starfsemi sinnar, og skal heildarfjárhæðinni skipti milli þeirra í hlutfalli við atkvæðamagn í næstliðnum borgarstjórnarkosningum en í lögum er ekki getið um upphæð framlagsins.

Færa má rök fyrir því að borgarstjórnaflokkar, sérstaklega þeir sem eru í minnihluta, þurfi á fjárframlögum að halda til þess að sækja sérfræðiaðstoð en sú mikla hækkun sem orðið hefur á framlögum undanfarin ár er langt umfram þá þörf. Lækkun framlaga til stjórnmálaflokka svarar kalli tímans þegar mikill niðurskurður kallar á forgangsröðun í þágu velferðarmála. Skerðing á fjármagni til stjórnmálaflokka, hvort sem það er frá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum, færir þá nær þeim tíma þegar starfsemin var fyrst og fremst byggð á félögunum í flokkunum sjálfum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Júlíus Vífill Ingvarsson óska bókað:
Fulltrúar allra flokka í borgarstjórn tóku þátt í eða gerðu ekki athugasemdir við þá ákvörðun að hækka framlög til borgarstjórnarflokkanna árið 2007, þ.á.m. fulltrúar Vinstri grænna. Það er því líkast því að athugasemdir Þorleifs Gunnlaugssonar komi nú fram í aðdraganda prófkjörs VG og beri að skoðast með tilliti til þess.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég tel það óhæfu að fjórflokkarnir séu enn að nýju að úthluta sér milljóna framlögum sem koma úr vasa borgarbúa vegna ársins 2010. Gera verður kröfu til þess að fjórflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur geri grein fyrir því hvernig hann ráðstafar milljónatugum á sama tíma og engir styrkir eru ætlaðir til F-listans í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Þorleifur Gunnlaugsson óskar bókað:
Tillaga borgarstjórnarflokks Vinstri grænna um lækkun framlaga til borgarstjórnarflokka var lögð fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember sl. Henni var vísað til forsætisnefndar og forseti borgarstjórnar ákvað sjálfur að setja hana á dagskrá þessa fundar.

Bókun fulltrúa VG ætti því ekki að koma á óvart og fullyrðingum um það að hann sé að nýta sér nefndina í persónulegu hagsmunaskyni er vísað til föðurhúsanna. Þar að auki skal það áréttað að allar ákvarðanir um fjármál borgarinnar sem teknar voru árið 2007 ber að endurskoða, þó ekki væri nema vegna þess að síðan þá hefur fjárhagur Reykjavíkur breyst til hins verra, eins og öllum ætti að vera kunnugt.

Category : Úr borginni

Borgarstjórabústaður við Úlfljótsvatn

January 29th, 2010 // 12:15 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 45 athugasemdir

Forsætisnefnd 29 01 10

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar varðandi gjaldtöku fyrir afnot af borgarráðsbústað við Úlfljótsvatn.
Forsætisnefnd staðfestir ákvörðun skrifstofustjóra fyrir sitt leyti.

Reykjavík, 28. janúar 2010

Forsætisnefnd
Varðandi gjaldtöku fyrir afnot af borgarráðsbústað við Úlfljótsvatn

Tekin hefur verið ákvörðun um það að frá 1. febrúar nk. muni skrifstofa borgarstjórnar taka gjald fyrir afnot af svokölluðum borgarráðsbústað við Úlfljótsvatn. Gjaldið mun fylgja gjaldskrá orlofshúsa Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Með vísan til umfjöllunar um málið í forsætisnefnd tilkynnist nefndinni þetta hér með.

Ólafur Kr. Hjörleifsson
Skrifstofustjóri borgarstjórnar


Category : Úr borginni

Heildarstefna OR

January 28th, 2010 // 12:11 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 42 athugasemdir

Borgarráð  28 01 10

Lögð fram heildarstefna Orkuveitu Reykjavíkur, sem samþykkt var á fundi stjórnar fyrirtækisins 30. f.m., sbr. bréf stjórnarformanns og forstjóra, dags. 31. s.m. Jafnframt lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um málið, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. þ.m. R10010054

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Samfélagslegt mikilvægi Orkuveitu Reykjavíkur hefur aldrei verið skýrara. Ímynd fyrirtækisins hefur borið hnekki og fjárhagslegum erfiðleikum er þar ekki einum um að kenna. Bitrumálið, REI draugurinn, vöntun á gagnsæi og aðgengi og rekjanleika ákvarðana, umræða um ofurlaun og ábendingar um að fyrirtækið fjarlægist eigendur sína, íbúa Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar, eiga þar hlut að máli. Brýn nauðsyn er á að OR vinni sig út úr þessum ímyndarvanda á trúverðugan hátt þar sem hófsemi og auðmýkt er höfð að leiðarljósi. Í þeirri vegferð getur stefnumótun á borð við þá sem samþykkt var í stjórn OR skipt máli. Við lestur stefnumótunarplaggsins má ætla að verið sé að lýsa að stórum hluta stöðunni eins og hún er í dag og að sjálfsögðu á það við um margt. Það þarf þó að vera skýrt að um er að ræða framtíðarsýn sem lýsir starfseminni eins og stjórnarmenn í OR vilja sjá hana. Í þessu ljósi ber að túlka endurtekna notkun á hugtakinu ,,sjálfbærni“. Samþykkt stjórnar OR á breytingartillögu VG sem lögð var fram á stjórnarfundi 30. desember sl. er mikils virði en þar segir ,,Orkuveita Reykjavíkur er jákvæð fyrir þróunarsamvinnu. Fyrirtækið gerir ríkar siðferðilegar og umhverfislegar kröfur til allra verkefna sem fyrirtækið tekur þátt í erlendis, engu síður en á Íslandi, og tekur afstöðu til álitamála í þeim efnum á vettvangi stjórnar.“ Ofanritaður sendi nokkuð ýtarlegar breytingatillögur við stefnuplaggið til stjórnarmanna OR 8. ágúst sl. án þess að uppskera árangur sem erfiði en til athugasemdanna er vísað nú þannig að þeim verði haldið til haga því að um er að ræða lifandi stefnumótun sem alltaf er hægt að taka upp og betrumbæta. Margt gott hefur komið út úr stefnumótunarvinnunni og nú þegar opnað hefur verið á þróunarsamvinnu og skýrt kveðið á um siðferðislegar og umhverfislegar kröfur til verkefna innanlands og utan telur ofanritaður niðurstöðuna ásættanlega.

Category : Úr borginni

Miðborgarprestur

January 28th, 2010 // 12:08 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Borgarráð  28 01 10

14. Lagt fram bréf formanns sóknarnefndar og sóknarprests Dómkirkjunnar frá 15. f.m. þar sem óskað er eftir því að Reykjavíkurborg greiði áfram helming launa miðborgarprests á árinu 2010, eða 4,6 m.kr. R08090085
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð sér ekki fært að greiða helming launa og launakostnað miðborgarprests. Því er erindinu synjað. Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna felld með 6 atkvæðum gegn 1.
Samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1 að styrkja verkefnið áfram með þeim hætti sem fram kemur í erindinu, kostnaður færist af liðnum ófyrirséð útgjöld.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Mikill niðurskurður í fjárhagsáætlun Reykjavíkur annað árið í röð setur mark sitt á nauðsynlega grunnþjónustu borgarinnar. Við þessar aðstæður er það ekki verjandi að leggja 4,6 milljónir í starf miðborgarprests. Í og við miðborgina er fjöldi presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar sem þiggja laun sín af skattpeningum borgarbúa en það fjármagn ætti að duga fyrir meintri þörf á sálgæslu á svæðinu. Af hálfu borgarinnar er öðrum þáttum í starfi miðborgarprests sinnt og má þar nefna starf Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, íþrótta- og tómstundasvið og velferðarsvið.

Category : Úr borginni

Hundrað krónur til Haítí

January 23rd, 2010 // 10:49 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 30 athugasemdir

Fréttablaðið, 23. jan. 2010 03:13

Borgarstjórn hefur ákveðið að gefa sem samsvarar hundrað krónum fyrir hvern borgarbúa til neyðaraðstoðar á Haítí. Samtals 11,8 milljónir króna. Féð fer til Rauða kross Íslands.

Áður hafði bæjarstjórn Hveragerðis gert það sama og það var Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, sem stakk upp á því við borgarstjórn að hún færi að fordæmi Hveragerðis. Þorleifur bendir á að fari önnur sveitarfélög að fordæminu safnist 31,8 milljónir. Samkvæmt upplýsingum frá RKÍ hafa fleiri sveitarfélög nú þegar heitið stuðningi.

Með þessu framlagi Reykjavíkurborgar hefur Rauði krossinn nú safnað 45 milljónum króna, tæpum 142 krónum á hvern Íslending. Ríkissjóður hefur heitið fimmtán milljónum, sem skiptast milli félagasamtakanna.

Á Haítí eru nú um fjögur hundruð alþjóðlegra starfsmanna Rauða krossins og um þúsund sjálfboðaliðar úr hópi eyjarskeggja. Samtökin hafa aldrei verið með jafn margar neyðarsveitir að störfum í einu landi. – kóþ

Category : Úr fjölmiðlum

Frambjóðendabæklingur

January 23rd, 2010 // 12:46 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Hér fyrir neðan er texti sem verður í sameiginlegum frambjóðendabæklingi sem VG í Reykjavík mun gefa út á næstu dögum.

——

Þorleifur hefur m.a. setið í forsætisnefnd, borgarráði, stjórnkerfisnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, íþrótta- og tómstundarráði og í stjórn Orkuveitunnar, Faxaflóahafna, hjúkrunarheimilanna Eir og Skógarbæjar, Gagnaveitu Reykjavíkur, Neytendasamtakanna og Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins. Hann er einnig varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Næsta kjörtímabil verður sérstaklega vandasamt fyrir stjórnendur Reykjavíkurborgar. Því er spáð að gengið haldist áfram mjög lágt og atvinnuleysi aukist til muna. Við þessar aðstæður er mikilvægt að þeir sem taka við rekstri borgarinnar, forgangsraði með jöfnuð í huga og tryggi að enginn líði skort.

Við höfum sýnt það á kjörtímabilinu að við erum full fær um að taka þátt í stjórn borgarinnar. Af eljusemi og dugnaði hafa fjölmargir fulltrúar flokksins í nefndum og ráðum skilað miklum árangri til hagsbóta fyrir borgarbúa – þrátt fyrir að flokkurinn hafi verið í minnihluta.

Á erfiðum tímum þar sem tekjur borgarinnar fara minnkandi og útgjöld aukast er engum betur treystandi en Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að forgangsraða rétt. Við munum tryggja velferð allra borgarbúa með sérstakri áherslu á börn. Á sama tíma ætlum við beita okkur fyrir því að atvinnulífið komist aftur í gang.

Vinstri græn standa fyrir jafnrétti, velferð, lýðræði og heiðarleika. Við viljum umhverfisvæna borg þar sem allir geta lifað með reisn. Við viljum halda fyrirtækjum sem veita okkur nauðsynlega grunnþjónustu í almannaeigu. Við viljum réttlátt samfélag.

Category : Forval

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi