Skoða greinar eftir

Vill rannsaka spillingu meðal borgarfulltrúa

April 16th, 2010 // 3:58 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Smugan : 16.4.2010 16:59

,,Nálægðin við höfuðpaura hrunsins hefur verið yfirþyrmandi hjá Reykjavíkurborg á þessu kjörtímabili,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi VG sem vill að þáttur sveitarstjórnarfólks  verði tekinn sérstaklega út í kjölfar bankaskýrslunnar. ,,Ákvarðanir í skipulagsmálum, úthutun lóða, sala almannaeigna, styrkir og boðsferðir til borgarfulltrúa,“ kalla á sérstaka rannsókn að mati Þorleifs.

Borgarráð samþykkti samhljóða tillögu í gær um að fela skrifstofu borgarstjórnar að undirbúa umfjöllun eða viðbrögð í framhaldi af bankaskýrslunni, um hvernig stjórnmálin og stjórnsýslan geti dregið lærdóm af niðurstöðum hennar. Þorleifur vildi hinsvegar ganga lengra og rannsaka hugsanlegan hlut stjórnmálafólks og stjórnsýslu almennt hjá borginni. Hann bendir á að borgarfulltrúar hafi margir hverjir þegið verulegar upphæðir í kosningasjóði og  rándýrar boðsferðir  auk þess sem allt skipulag miðborgarinnar hafi verið um langt skeið í gíslingu auðmanna.

Málið verður til umræðu á fundi borgarstjórnar á þriðjudag.

Category : Úr fjölmiðlum

Af hverju segir Ólafur F. Magnússon ekki satt?

April 13th, 2010 // 3:51 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Tekist var á um orkumál í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar fór Ólafur F Magnússon mikinn og ásakaði  Vinstri græn fyrir að hafa greitt atkvæði með öllum lántökum sem Reykjavíkurborg hefur ábyrgst vegna Kárahnjúkavirkjunar,  Landsvirkjunar og raforkusölu til erlendra málmbræðslufyrirtækja vegna fjárfestinga Orkuveitu Reykjavíkur.

Hann dró síðan í land og sagði Vinstri græn hvorki hafa greitt atkvæði með eða á móti lánasamningunum.

Þetta er undarlegur málflutningur frá manni sem er fullkunnugt um andstöðu VG við orkusölu til þungaiðnaðar og hefur sjálfur verið samferða borgarfulltrúum VG í slíkum bókunum og atkvæðagreiðslum.

Á borgarstjórnarfundi 15 janúar 2003 greiddu borgarfulltrúar VG, þau Árni Þór Sigurðsson og Björk Vilhelmsdóttir ásamt Ólafi F Magnússyni atkvæði gegn ábyrgð Reykjavíkurborgará lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Það er undarlegt að stjórnmálamaður sem velur sér listabókstafinn H – fyrir heiðarleika – skuli leyfa sér að fullyrða annað um gjörðir sínar en hægt er að lesa  í fundargerðum fyrirtækja borgarinnar. Ólafur heldur því fram í Silfrinu að alveg frá því í tíð R-listans hafi hann, einn borgarfulltrúa, greitt atkvæði gegn þessum lántökum.

Þetta er ekki rétt. Samkvæmt fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá því 30. ágúst 2006 samþykkti Ólafur sem stjórnarmaður, án þess að bóka eða móralisera á nokkurn hátt, lántöku frá Fortis Bank að upphæð 100 milljónir evra) en stór hluti þeirrar upphæðar fór í virkjanagerð vegna raforkusölu til erlends málmbræðslufyrirtækis (Norðuráls)

Borgarfulltrúar Vinstri grænna og Ólafur F Magnússon eru oft ósammála. En höfum við einhvers staðar átt samleið, þá hefur það verið í umhverfis- og náttúruverndarmálum og málefnum Orkuveitu Reykjavíkur.

Ómálefnalegur málflutningur borgarfulltrúans gagnvart Vinstri grænum hvað þetta varðar er þvíekki lausnarmiðaður  heldur greinilega til þess gerður  að fella keilur.  Honum skyldi þó ekki vera, enn eina ferðina, farið að dreyma um að komst í bólið hjá Íhaldinu?

Category : Vefgreinar

Veiðar leyfðar í Elliðavatni 1. apríl

March 24th, 2010 // 4:08 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Smugan : 24.3.2010

Stjórn veiðifélags Elliðavatns samþykkti í dag að leyfa veiði í vatninu frá 1. apríl, en venjulega hafa veiðar ekki verið leyfðar fyrr en 1. maí ár hvert. „Með batnandi veðurfari er lífríkið miklu fyrr í gang. Þetta er heimilt samkvæmt veiðilögum og veiðimenn eru óþreyjufullir að fara að veiða og engin ástæða til að banna þeim það. Þetta er í borgarlandinu, þetta eru opin svæði, náttúruleg gæði sem við Reykvíkingar njótum góðs af og eigum að njóta góðs af eins lengi og mögulegt er,“ sagði Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi og fulltrúi VG í stjórn Orkuveitunnar. Hann átti frumkvæði að þessum tillögum í borgarráði,

Enn mun þó rukkað fyrir veiðileyfi og fleiri gjöld en Þorleifur lagði einnig fram fram tillögu um að skoða mögulegt væri að leyfa veiðar án endurgjalds. Þeirri tillögu var vísað til umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar. „Þegar dreginn er frá kostnaður við að rukka og hafa eftirlit verður arðurinn sáralítill. Arður að öllu vatninu var á síðasta ári var um ein og hálf milljón. En Reykjavíkurborg er að leggja til milljón fyrir eldri borgara og börn,“ segir Þorleifur og bætir við að nú sé komið hverfi alveg upp við vatnið. „Mér finnst að íbúarnir eigi að njóta góðs af því að búa þarna.“

Category : Úr fjölmiðlum

Forval VG í Reykjavík

February 11th, 2010 // 10:24 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 31 athugasemdir

Síðastliðinn laugardag var haldið forval hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði í Reykjavík. Þar var ég í framboði í fyrsta sæti en þar að auki gátu kjósendur valið milli sautján frambærilegra frambjóðenda.

Til að standa í framboði þar sem ekki er greitt fyrir vinnu þeirra sem aðstoða er nauðsynlegt að geta virkjað fólk með sér. Með mér starfaði góður hópur sem ég þakka þann árangur sem ég náði. Hjálpsemin og hlýjan sem ég fann fyrir er mér ómetanleg og segir mér að ég sé á réttri leið í mínum störfum.

—–

Frá upphafi var það alveg ljóst í mínum huga að það stefndi allt í það að ég eða Sóley Tómasdóttir myndum lenda í fyrsta sæti í þessu forvali. Þetta segi ég að öllum öðrum frambjóðendum ólöstuðum. Það var mér einnig ljóst að þetta myndi verða tvísýnt enda Sóley gríðarlega öflug með stóran og kraftmikinn stuðningsmannahóp á bakvið sig.

Ég stefndi því að fyrsta sæti með heilum hug en það var hinsvegar langt því frá að vera í hendi. Enda kom á daginn þegar síðustu tölur voru lesnar að Sóley hafði unnið sigur og munaði þar um fjörutíu atkvæðum. Ég hinsvegar var öruggur í annað sætið sem ég vil alls ekki segja að hafi verið ósigur. Sumir vilja meina að gott silfur sé gulli betra.—

Eins og margir lesendur kunna að vita þá hafa hinsvegar verið leiðinleg eftirmál af þessu prófkjöri. Eins og áður segir þá var ég með vel skipulagðan hóp á bakvið mig. Einn af þeim var sonur minn, Haraldur Ingi, en hann leiddi okkar starf.

Fyrir mitt leyti fannst mér reglur forvalsins skýrar þegar ég fór yfir þær upphaflega. Enda var ég á þeim félagsfundi þar sem þær voru samþykktar einróma. Ef þær eru lesnar má sjá að kjósendur í póstkosningu þurfa að senda löturpóst til kjörstjórnar til að atkvæði þeirra teljist gilt. Til skýringar má kannski segja að löturpóstur er hefðbundinn póstur, þ.e. ekki tölvupóstur. Ég ætla ekki að fara út í neinn orðhengilshátt en ef fólk vill fá nánari skýringu á því hvað telst til hefðbundins póst þá vísa ég á orðabókarskilgreiningar.

Sonur minn vildi hinsvegar vera alveg fullviss um það hvernig þessar reglur væru túlkaðar svo að enginn misskilningur væri á ferðinni. Hann setti sig þess vegna í samband við formann kjörstjórnar sem staðfesti okkar skilning á þessum reglum.

Því miður gerðist það svo að þegar stuðningsmenn annarra frambjóðenda báðu um skýringar á þessu sama ákvæði þá var þeim sagt að þeim væri leyfilegt að fara á milli með prentaða kjörseðla heim til fólks og koma þeim síðan til skila. Mér er sagt að sami háttur hafi verið á í tveimur síðustu prófkjörum vegna alþingiskosninga.

Ég vil þessvegna ítreka að þetta fólk starfaði í góðri trú eftir því sem þeim var tjáð að væri leyfilegt. Það er vel skiljanlegt þegar naumt er á munum að stuðningsfólk stundi það sem það telur að allir aðrir séu að gera. Þetta var að mínu mati hinsvegar rótin að því sem síðar gerðist.

Hér verð ég að koma því að, að ég held að umræða undanfarinna daga sýni hinsvegar að þessi leið samræmist ekki því sem fólk vill að viðgangist í kosningum. Hún býður upp á stórkostlegar hættur á misnotkun sem ég þarf ekki að rekja hér. Það hefur sýnt sig í prófkjörum undanfarinna vikna að oft getur munað örfáum atkvæðum þegar fólk raðast í sæti.

Reglur þurfa því að vera þannig að hafið sé fyrir ofan allan vafa að engin hætta sé á öðru en að endanleg úrslit séu rétt. Ef reglur eru þannig að þær bjóði upp á mögulega misnotkun þá getur aldrei orðið sátt um niðurstöðu. Ég tel það þannig vera mikla blessun að þessi atkvæði réðu ekki úrslitum því að það hefði getað valdið sundrung og óánægju sem hefði getað haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir flokksstarfið.

Svo ég haldi áfram með frásögnina þá gerist það svo á kjördag að það er haft samband við mig ítrekað og mér er sagt að verið sé að bjóða fólki að fá heimsenda kjörseðla. Þegar ég fæ þetta staðfest fer ég beint á kjörstað og ræði við formann kjörstjórnar og lýsi yfir áhyggjum mínum. Ég segi honum ennfremur af því að ég muni að öllum líkindum senda inn kæru vegna þessa sem allra fyrst. Sú kæra var send inn um fimmleytið á kjördag, klukkutíma fyrir lokun kjörstaðar og tveimur tímum áður en fyrstu tölur birtust.

Framhaldið þekkja flestir. Sóley sigraði prófkjörið og ég lenti í öðru sæti. Ég samgladdist með Sóleyju og var reyndar mjög ánægður með að í þessu fjölmenna forvali hafi svo margir stutt mig. Ég lét því kvöldið líða með mínum félögum og Sóleyju njóta sigursins með sínu stuðningsfólki án þess að fara sérstaklega út í að ræða mína kæru. Mér var enda tjáð að þessi atkvæði hefðu ekki ráðið úrslitum.

En ég leit hinsvegar aldrei svo á að kæran hefði fallið niður og beið eftir formlegum úrskurði frá kjörstjórn þar sem að ég taldi að það væri nauðsynlegt að fá úr þessu skorið. Þegar ekkert svar hafði borist daginn eftir setti ég mig í samband við kjörstjórnarmeðlim sem sagði mér að hann hefði ekki frétt af þessari kæru. Þetta vakti furðu mína og sendi ég því ítrekun með þeim viðbótarupplýsingum sem ég hafði þá í höndunum.

Svar við kærunum barst svo á mánudagskvöld. Þar vísar kjörstjórn þeim frá. Þetta taldi ég í ljósi staðreynda algjörlega óásættanlegt.

Eftir fylgdi tilfinningaþrungið ferli þar sem ásakanir gengu á víxl. Ýmislegt var sagt sem ég hugsa að ýmsir myndu vilja taka til baka. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði getað valið mín orð betur. En ég var og er hinsvegar sannfærður um að það þurfti að leysa þetta mál á annan hátt en upphaflega var gert.

——-

Það segir sig sjálft að það er erfitt að standa í útistöðum við sína samherja. Stjórnmálamenn þurfa hinsvegar að hafa kjark til að fylgja sinni sannfæringu þegar á móti blæs. Að opna á umræður í staðinn fyrir að stinga hausnum í sandinn. Kýli sem ekki er stungið á strax fyllist af greftri. Það er hinsvegar því miður hefð fyrir því hér á landi að í mótlæti þá fer fólk í felur, afneitun eða skotgrafarhernað. Það neitar að ræða mál á málefnalegum forsendum.

Lýðræði er brothætt hugtak. Þegar viðhorf kjósenda til kjörinna fulltrúa og stofnanna sem eiga að vera byggðar á lýðræðislegum grunni eru skoðað þá sést berlega að traustið er í algjöru lágmarki. Ástæða þess er að ég tel fyrst og fremst sú að leyndarhjúpur hefur umlukið okkar stjórnmálastétt og hennar störf. Sú leið hefur iðulega verið farin að veita eins litlar og þvældar upplýsingar og mögulegt er. Það hefur þurft að toga staðreyndir fram.

Þetta er að mínu mati algjörlega röng nálgun. Upplagið á að vera að allar staðreyndir séu á borðinu. Að þannig þurfi að vera fyrir því mjög sérstök og mikil rök ef eitthvað á ekki að vera opið fyrir almenning. Fyrir þessu eru lýðræðisrök en ekki síður praktísk rök. Ástæðan fyrir því að við stundum fulltrúalýðræði er ekki sú að það sé akkúrat best að svo og svo margir sitji á alþingi eða í sveitastjórnum. Eða að þar sé alltaf besta eða hæfasta fólkið. Staðreyndin er sú að stjórnmálamenn þurfa á umræðu að halda. Þeir þurfa að fá athugasemdir og upplýsingar frá sérfræðingum, hagsmunahópum og almenningi til að taka upplýstar ákvarðanir.

Það hafa verið gerð mörg og alvarleg mistök hér á landi. Almenningur kallar því eðlilega á breytingar. En ég held ekki að það sé kall á fullkomna stjórnmálamenn. Þeir eru ekki til frekar en fullkomið fólk. Það sem verið er að biðja um er fólk sem viðurkennir mistök þegar þau koma upp og skiptir um skoðun ef forsendur breytast, fólk sem kallar á umræðu og aðhald þannig að hægt sé að læra á þeim mistökum. En fyrst og fremst að við þeim sé brugðist eins fljótt og auðið er til að lágmarka skaða.

Ég er ekki í þeim hópi sem kallar alltaf sjálfkrafa á afsögn þegar stjórnmálafólki verður á. Ef fólk í stjórnmálum getur ekki viðurkennt mistök, beðist afsökunar og leiðrétt þau án þess að þurfa þar með sjálfkrafa að víkja þá leiðir það að sjálfsögðu til þess að enginn viðurkennir neitt. Þá er nei, nei, nei eina svarið.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur í mínum huga staðið fyrir heiðarleika í íslenskum stjórnmálum. Við höfum barið okkur á brjóst og leitt umræðu þegar réttlætiskennd þjóðarinnar er ofboðið. Við höfum talað fyrir lýðræði, gegnsæi og heiðarleika.

En það verður að segjast eins og er að það er auðvelt að hafa prinsipp þegar það reynir ekki á þau. Stjórnmálaflokkur þarf að hafa völd til að sanna að hann stundi ekki marklaust þvaður. Popúlisma sem ekkert var á bakvið. Ef þú stendur ekki við þín prinsipp þegar til kastanna kemur þá eru þau ekki mikils virði. Fólk verður að geta treyst því að sá sem segir eitt fyrir kosningar segi ekki annað um leið og þeim er lokið. Og að eitt gildi ekki um aðra en annað um þig.

Stjórnmálaflokkar sem ætla að leyfa sér að gagnrýna verða að geta tekið gagnrýni. Þeir verða að gagnrýna sjálfan sig. Horfa inn á við og leysa vandamál sem koma upp á opinskáan og heiðarlegan hátt.

Þar þýðir ekkert pukur eða leynimakk.Það verður að sjálfsögðu að vera trúnaður milli fólks en það má ekki vera þannig að sendiboðinn sé alltaf skotinn. Við klöppum fyrir því þegar einstaklingar í fyrirtækjum koma fram og segja frá misferlum innan þeirra. Af hverju á ekki það sama við þegar um okkur sjálf er að ræða? Sumir harma umræðu, ég fagna henni. Við þegjum aldrei vandamál í hel.

———-

Í ljósi umræðu undanfarinna daga verð ég að segja að ég er stoltur af því að vera í flokki sem hefur leitt umræðu og aðgerðir í þágu kvenfrelsis á Íslandi. Það er í mínum huga augljós staðreynd að það hallar á konur á fjölmörgum mikilvægum sviðum. Fléttulistar eru að sjálfsögðu ekki markmið í sjálfu sér en koma til af þessari illu nauðsyn.

Það sem gerir mig þó sérstaklega stoltan er að flokkurinn minn hefur nánast ekki þurft að beita þessum reglum. Okkar kjósendur hafa valið konur og karla jafnt í ábyrgðastöður þegar þeir hafa fengið til þess tækifæri. Það finnst mér merki um mikinn þroska.

Mér þykir það þess vegna sorglegt þegar fólk leyfir sér að taka umræðu um kosningar niður á það plan að þar snúist allt um kyn. Í nafnleysi tala margir á netinu um konur þannig að mig hryllir við. Ég vil ekki vera í þeim félagsskap. Það sama á við um þá sem kjósa að stilla því þannig upp að allt sem ég geri eða ekki geri megi rekja til kynfæra minna. Slík orðræða dæmir sig að mínu mati sjálf.

Í því forvali sem er nú nýafstaðið voru þrjár ungar og öflugar konur í fjórum efstu sætunum. Varla þarf að kynna Sóleyju Tómasdóttir fyrir lesendum en ég hef starfað náið með henni undanfarin ár og get vottað að hún er skarpgreind, fylgin sér og öflugur samherji.

Í þriðja sæti varð Líf Magneudóttir sem ég hafði ekki haft kynni af fyrr en fyrir örfáum vikum. Af því sem ég hef séð er hún réttsýn og heiðarleg og ef eitthvað er að marka þá fjölmörgu sem hafa talað um kosti hennar í mín eyru þá er þar á ferðinni mögulegt spútnik í íslenskum stjórnmálum.

Í fjórða sæti varð svo góð vinkona mín og samstarfskona, Elín Sigurðardóttir. Ég hef ekkert annað en gott um hana að segja og ég hef margoft leitað til hennar þegar þurft hefur að fara í mál sem eru mér hjartfólgin og hún hefur sýnt það og sannað að þar er á ferð gríðarlega öflugur félagi í baráttunni fyrir betra samfélagi.

Ég er stoltur af því að fá að vera í hóp með þessum konum sem eru að mínu mati allar mögulegir borgarfulltrúar í komandi kosningum.

Það er hinsvegar alveg ljóst að þegar átján frambærilegir aðilar keppa um sex sæti þá verður markt gott fólk frá að hverfa. En það er hinsvegar þannig að borgarstjórnarflokkur vinstri grænna er mjög breiður hópur. Í honum eru um fjörutíu manns og er boðað tl fundar vikulega. Þar fer fram mjög góð og málefnaleg umræða um öll störf flokksins. Ég mun því ekki þurfa að sjá eftir þeim sem komust ekki í sex efstu sætin. Ég mun halda áfram að því að hitta það góða fólk og vinna með því að góðum verkum.

—-

Að lokum vil ég segja að ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu sem fékkst í þetta mál. Mér finnst gott til þess að vita að við getum deilt án þess að klofna. Við getum leyst vandamál og komið út úr þeim sterkari en áður.

Framhaldið liggur fyrir. Kosningar nálgast og baráttan um betri borg á næsta kjörtímabili er að hefjast. Þar mun Vinstrihreyfingin grænt framboð mæta samhent til leiks. Okkar rödd er nauðsynleg.

Category : Greinar

Hugleiðingar á forvalsdegi

February 6th, 2010 // 11:00 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 32 athugasemdir

Í dag fer fram forval hjá Vinstri grænum vegna borgarstjórnarkosninga næsta vor. Ég gef kost á mér í fyrsta sæti en margir aðrir frambærilegir frambjóðendur eru að stefna á það og önnur sæti listans.

————-

Ég tók þátt í mínu fyrsta forvali fyrir fjórum árum síðan. Þar bauð ég mig fram í þriðja sæti á lista fyrir borgarstjórnarkosningar. Sú kosningabarátta sem ég háði þá fólst í örfáum símtölum til fjölskyldu, vina og kunningja sem voru í flokknum. Ef ég man þetta rétt hugsaði ég lítið um þetta fyrr en rétt örfáa daga fyrir forvalið. Með þetta í huga er í raun stórmerkilegt að ég hafi náð sætinu sem ég sóttist eftir þá.

Þegar ég ákvað að gefa mig fram sem kandídat í fyrsta sæti fyrir þetta forval gerði ég mér hinsvegar grein fyrir því að ég þyrfti að undirbúa mig aðeins betur enda er ég ekki einn um hituna og samframbjóðendur mínir mjög frambærilegir. Ég gerði það því ekki af hálfum hug heldur ræddi við mitt samstarfsfólk og stuðningsmenn áður en ég ákvað mig endanlega. Barátta sem þessi tekur á. Það fer enginn út í slíkt án þess að hugsa málin vel.

Þrátt fyrir þann tíma sem þetta hefur tekið hef ég hinsvegar reynt eftir bestu getu að láta þennan forvalsaðdraganda ekki bitna á störfum mínum fyrir borgarbúa. Ég hef reynt að mæta eins vel og fyrr þar sem mér er ætlað og undirbúið mín mál eins vel og áður. Það eru aðrir betri til að meta hvort ég hafi staðið mig vel í þeim efnum.

Aðvitað er það þannig að stjórnmálamenn eru ekki vélar. Þeir hafa tilfinningar eins og annað fólk. Þeir geta verið barnalegir eins og aðrir. Það tekur óneitanlega á að fara í prófkjör og það er mjög auðvelt að taka niðurstöðu þeirra, jákvæða eða neikvæða, persónulega.

Stjórnmálamenn geta mjög auðveldlega ofmetnast af sjálfum sér. Sett sig sjálfa fram yfir hagsmuni fjöldans. Þeir eru oft umkringdir jáfólki sem hefur þá til skýjanna. Miklar þeirra stöðu.

Undanfarnar vikur hafa verið sjálfmiðaðar hjá mér. Ég viðurkenni það bara. Ég stefni að fyrsta sæti og til að gera það hef ég þurft að tala við fjöldan allan af fólki og þá fyrst og fremst um mitt eigið ágæti. Ég hef ekki þurft að gera það áður í þessu mæli.

Þetta var erfitt fyrst en ég finn að ég á orðið auðveldara með að hæla sjálfum mér. Það sem ég er að reyna að segja er að ég finn það einfaldlega á eigin skinni hvað það er auðvelt að verða sjálfmiðaður pólitíkus. Það er í sjálfu sér ekki endilega slæmt að tala fyrir eigin ágæti en ég verð að minna sjálfan mig á af hverju ég er í pólitík. Það er ekki fyrir mig sjálfan. Trúi því hver sem vill.

Ég er í pólitík af því að ég vill berjast fyrir þeim sem hafa lútið lægri hlut í lífsbaráttunni, ég vil hjálpa þeim þurfa á hjálp að halda. Ég vil hjálpa til við að búa til samfélag þar sem allir geta blómstrað og nýtt sér sín tækifæri. Og að þeir sem af einhverjum ástæðum tekst það ekki fái þann stuðning sem þeir þurfa.

Ég vil að sjálfsögðu líka hafa hér öflugt atvinnulíf en ég hef bara ekki tekið eftir því að fyrirtæki vanti málsvara. Fólkið með lægstu röddina er það fólk sem þarf mestu hjálpina. Þeir sem hafa hæst eru þeir sem hafa efni á góðum magnara. Þeir þurfa ekki mína aðstoð sérstaklega.

—-

Í öðrum flokkum hefur það jafnan verið venjan að þeir sem hafa náð að safna mestum peningum í prófkjörsbaráttuna hefur farnast best. Undanfarið höfum við heyrt ótrúlegar tölur af framlögum til einstaklinga sem hafa verið að taka mjög mikilvægar ákvarðanir sem kjörnir fulltrúar. Það sjá það auðvitað allir að milljónaframlög eru ekki án skuldbindinga. Einkafyrirtæki hafa ekki hugsjónir. Þau hafa hagsmuni. Þetta vita allir þótt sumir reyni að rugla umræðuna.

Það er þessvegna sem ég er stoltur af því hvernig við Vinstri græn höfum staðið að okkar forvölum. Ekki bara núna heldur líka á góðæristímum. Okkar frambjóðendur höfðu sannanlega tækifæri til að ganga um og slá lán hjá gjafmildum einstaklingnum og fyrirtækjum. Ég segi lán því að þótt þau hafi ekki verið endurgreidd í peningum af frambjóðendunum sjálfum þá ætlast slíkir hagsmunaraðilar til þess að þeir fái sína endurgreiðslu í gegnum þau ráð og stofnanir sem þessir frambjóðendur hafa aðkomu að.

Og hvers eiga þeir þá að gjalda sem ekki vilja láta kaupa sig? Þeir einfaldlega hverfa innanum auglýsinga og bæklingaflóð. Og komast ekki til áhrifa til að berjast fyrir sínum málum.

Vinstri græn hafa af þessum ástæðum ekki leyft frambjóðendum að fara út í mikinn kostnað vegna sinnar baráttu í forvölum. Til að jafna leikinn eins og mögulegt er. Að sjálfsögðu hefur fólk einhvern aðstöðumun. Þetta kerfi er alls ekki gallalaust. Ég sem sitjandi borgarfulltrúi hef þannig töluvert forskot á flesta aðra frambjóðendur. Það er einföld staðreynd.

En á móti bendi ég á að ég var ekki sérstaklega þekktur þegar ég náði þriðja sætinu fyrir fjórum árum eins og ég rak hér að ofan. Niðurstaða mín, og VG, er sú að þrátt fyrir að þetta fyrirkomulag hafi ákveðna galla þá eru kostirnir margfalt fleiri og mikilvægari.

En hvernig fer maður þá að í forvali hjá VG? Þegar maður getur ekki leitað til auglýsingastofa og spunameistara til að búa til utan um sig ímynd?

Sú leið sem ég hef farið er einföld. Í samvinnu við son minn og vin hans setti ég upp vef á www.thorleifurgunnlaugsson.com. Ég hef reynt að vera duglegur að koma þar inn efni sem og hér á Eyjunni og í fjölmiðlum.

En fyrst og fremst snýst þetta um að tala við fólk. Að ræða við sína flokksfélaga, maður á mann. Þannig var hið upprunalega lýðræði. Fólk talaði beint við sína fulltrúa. Og þannig vil ég hafa það. Ég vil vera í beinu sambandi við það fólk sem styður mig.

Það er nefnilega nauðsynlegt að fá aðhald. Gagnrýnin kemur oftast frá pólitískum andstæðingum en stjórnmálamenn eiga það til að leiða slíkt hjá sér. Það er þessvegna mjög mikilvægt að aðhaldið komi líka frá stuðningsfólki. Að það láti vita þegar það er ekki ánægt eða vill gera hluti á annan hátt. Og svo að sjálfsögðu að maður fái að heyra ef það er ánægt.

—–

Ég hef lagt á það mikla áherslu að stunda jákvæða baráttu. Ég stefni að sjálfsögðu á fyrsta sæti, það er öllum ljóst. Til þess að ná því markmiði hef ég reynt að koma mínum áherslum og málefnum á framfæri. Ég vil leggja mína vinnu í dóm flokksmanna.

En ég geri mér einnig grein fyrir því að aðrir sækjast eftir sama sæti. Þar er öflugt og gott fólk sem hefur mikið fram að færa og myndi sóma sér vel sem oddvitar. Mér dettur þessvegna ekki í hug að tala þau niður, niða eða hæða. Þau eiga það einfaldlega ekki skilið og flokkurinn á slíka baráttu ekki skilið. Mér finnst mjög gott að finna að samframbjóðendur mínir í forvalinu virðast allir hafa tekið þessa sömu línu og ég.

Við erum samherjar í pólitík, það er engin tilviljun að við erum saman í flokki. Við höfum valið VG af því að við teljum að það sé sá flokkur sem samrýmist best okkar hugsjónum. Það þýðir náttúrulega ekki að við séum sammála um öll mál, slíkt er óhugsandi, og í raun stórhættulegt í stóru stjórnmálaafli.

En við höfum sameiginleg gildi. Við berum virðingu fyrir hvort öðru af því að við vitum að á endanum þá erum við öll að berjast fyrir betra samfélagi. Okkur kann að greina á um leiðir en ekki markmið.

Það er ekki nóg að þykjast. Ég er sannfærður um að hugsunarháttur skiptir máli. Það getur enginn haldið það út til lengdar að brosa framan í samherja sína en vinna gegn þeim þegar þeir snúa baki. Upp koma svik um síðir. Smá saman rifnar sauðagæran og úlfurinn kemur í ljós.

Ástæðan fyrir mikilvægi þess að kosningabaráttan sé jákvæð og uppbyggileg ætti að vera öllum ljós. Það er nefnilega nauðsynlegt að þau sem veljast á listann geti tekið höndum saman strax eftir forval og farið að vinna að undirbúningi fyrir kosningabaráttu. Það er ekki hægt ef fólk er með rítingasett í bakinu. Þannig hópur getur aldrei skilað góðum árangri.

Ég er að sjálfsögðu ekki að meina að fólk geti ekki talað fyrir sínum frambjóðendum. Slíkt er fullkomlega eðlilegt. Kjósendur sækjast eftir mismunandi hlutum þegar það metur frambjóðendur og forvalsferlið á einmitt að stuðla að því að þeir einstaklingar sem geta talað til flestra leiði starfið.

En það er stór munur á því annarsvegar að vinna með einhverjum frambjóðanda eða því hinsvegar að vinna gegn einhverjum. Slíkt er engum til góðs. Þar tapa allir á endanum.

———-

Ég þarf ekki að rekja hvað hefur gengið á í íslensku samfélagi undanfarin misseri. Algjört hrun hugmyndafræði frjálshyggjunnar og þeirra afla sem fyrir þeim tala eru augljós þeim sem það vilja sjá. Sú uppreisn sem margir vilja kalla búsáhaldabyltingu sýndi að fólk er ekki tilbúið til að standa þögult hjá á meðan landið sekkur.

Í ástandi sem þessu eru mörg tækifæri. Mikið af fólki sem var áður ekki virkt í pólitísku eða félagslegu starfi hefur sprottið upp um allt land. Fólk sem er fullt af hugmyndum, dugnaði og þori. Ég staðhæfi að áhugi á fréttum, fréttaefni og skoðunum hafi aldrei verið jafn mikill hér á landi og mánuðina eftir hrun.

Almenningur drakk í sig allan þann fróðleik sem hann komst í til að halda sér upplýstum. Fólk skrifaði greinar og blogg, í heitum pottum, fjölskyldusamkomum og á vinnustöðum var lítið annað rætt en pólitík. Fólk flykktist á Austurvöll, á borgarafundi og allsstaðar þar sem þjóðfélagsmál voru rædd var fullt út úr dyrum. Við vildum fá að tala en ekki síður hlusta. Umræðan var kannski ekki alltaf upplýst en umræða er í sjálfu sér góð og ég trúi því að hún leiði á endanum til betri skilnings.

Þetta tel ég vera einn af jákvæðustu þáttum hrunsins. Almennur áhugi á stjórnmálum og pólitísku starfi. Af því að það voru ekki flatskjáirnir sem komu okkur á hausinn. Það var miklu frekar sá tími sem fólk eyddi í að horfa á þessa flatskjái. Það er ekki nóg að horfa á skemmtiefni og hraðsoðna fréttatíma með 30 sekúndna innslögum.

Lýðræðið krefst þess nefnilega að almenningur sé upplýstur, kynni sér mál sem stundum eru mjög flókin og komi sínum sjónarmiðum á framfæri. Þetta er gjaldið sem við sem íbúar í lýðræðisríki verðum að greiða. Ef við erum ekki tilbúin til þess getum við ekki gert kröfu til okkar kjörnu fulltrúa.

Við megum aldrei gleyma því að við berum ábyrgð á okkar stjórnvöldum. Þau komast til valda fyrir tilstuðlan okkar. Og við getum komið þeim frá.

En ég finn fyrir hættulegri undiröldu. Undanfarið heyri ég að þær raddir sem segja að allir stjórnmálamenn séu ómögulegir verða sífellt háværari. Ég skil að sjálfsögðu hvaðan þessi reiði er sprottin. Fjölmargir hafa brugðist sínu hlutverki á undanförnum árum og ófáir stjórnmálamenn eru á þeim lista. Það er þessvegna alveg eðlileg tilfinning að vilja bara gefast upp. Hætta að hugsa um stjórnmál. En hvert leiðir það?

Við getum verið stolt af því sem þjóð að kosningaþátttaka hefur hér verið með því hæst sem þekkist. Kjósendur hafa kannski ekki alltaf valið þá sem mér hugnast en góð þátttaka er hinsvegar alltaf fagnaðarefni í sjálfu sér.

Ef við hinsvegar hættum að taka þátt, hættum að fylgjast með stjórnmálum eða sláum öllu upp í grín og kaldhæðni þá leysum við engan vanda. Þvert á móti mögnum við hann upp.

Lýðræði er ekki fólgið í því að merkja við seðil á fjögurra ára fresti og velja þar á milli örfárra kosta. Íslenskt lýðræði er langt frá því að vera fullkomið. Á því eru mýmargir gallar sem við þurfum að laga. Það þarf að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og stokka upp stjórnarskránna með stjórnlagaþingi svo dæmi sé tekið. Við þurfum að auka til muna möguleika fólks til að hafa áhrif á milli kosninga.

En á meðan við reynum að breyta kerfinu þá megum við ekki gleyma að við höfum ýmis tæki. Prófkjör gefa okkur þannig kost á því að hafa bein áhrif á það úr hverjum við höfum að moða þegar kemur að kjjördegi.

Það er einfaldlega staðreynd að einhverjir þurfa að taka ákvarðanir í sveitar- og ríkisstjórn. Og hvernig á það fólk að veljast öðruvísi en þannig að við, fólkið í landinu, höfum um það að segja? Viljum við sterka manninn? Manninn sem stjórnar án samráðs, án þess að hlusta? Ég fyrir mitt leyti segi nei.

——–

Og þá er ég nú loksins að komast að því sem ég vildi sagt hafa. Lýðræðið er tímafrekt eins og ég hef rakið. Það tekur t.a.m. tíma að kynna sér menn og málefni í því forvali sem ég er í núna. Það tekur tíma að mæta og kjósa. Þetta tekur allt tíma. En þessum tíma er vel varið. Á endanum fáum við þau stjórnvöld sem við eigum skilið.

Ég hef talað fyrir því að fólk flykkist inn í stjórnmálaflokka, verkalýðsfélög, samvinnufélög. Að það taki samfélagslega ábyrgð og hjálpi til við að laga landið okkar. Við erum félagsverur. Einstaklingsframtak er nauðsynlegt. Einn maður getur breytt svo sannanlega haft áhrif. Og allir verða að byrja á sjálfum sér. En til að hafa virkileg áhrif þá verðum við að vera sameinuð.

Þessvegna langar mig að lokum til þess að biðja alla sem eru kjörgengir í forvali dagsins að mæta í dag milli tíu og sex og kjósa sitt fólk. Góð þátttaka mun endurspeglar þá miklu breidd en jafnframt öflugu liðsheild sem ég veit að VG stendur fyrir.

Category : Greinar

Lýðræðisbyltingu í borginni

February 4th, 2010 // 12:00 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Íbúar Reykjavíkur hafa lýst því yfir á opnum borgarafundum að þeir vilji byggja upp hverfi borgarinnar með aukið umboð til beinna áhrifa á ákvarðanir sem snerta líf þeirra.

Þetta má gera með því að færa stóraukin áhrif til hverfisráða að skandinavískri fyrirmynd.  Borgarstjórn afhendi hverfisráðum umboð til athafna þannig að þau verði raunhæfur samráðsvettvangur í hverfunum. Þetta þýðir að þau stýri allri grenndarþjónustu í nánu samstarfi við íbúa.  Börn, ungmenni, foreldrar, aldraðir, innflytjendur og íbúar almennt, hafi þá tilfinningu að þjónusta borgarinnar sé þeirra, fyrir þá og á þeirra forsendum.

Horfið verði frá stofnanalausnum yfir til lausna sem verða til á vettvangi og út frá þörfum þeirra einstaklinga sem þær þurfa þannig að mannréttindi verði virt að fullu.  Þannig náum við að nýta best þá fjármuni sem til eru, þjónustan verði í takti við raunverulegar þarfir og kalli fólks um alvörulýðræði verði svarað í verki.  Með því að færa borgarbúum vald yfir eigin lífi þá vinnum við gegn spillingu sem þrifist hefur alltof lengi.

Valddreifing og kjarajöfnuður ásamt skýrum leikreglum sem fylgt er eftir, eru öflugar aðferðir gegn spillingu.  Þetta hefur komið fram þegar spilling er skoðuð í víðara samhengi.  Heilbrigða stjórnsýslu má finna meðal frændfólks okkar í skandinavíu.  Það sem einkennir útfærslu hins skandinavíska likans er einmitt valddreifing og áhersla á grenndarþjónustu.  Hafa borgir skipt sér niður í hverfi sem hverfisráð stýra og eru kjörin samtímis borgarstjórn í hlutfallskosningu.

Þau hafa fengið það hlutverk að bera fulla ábyrgð á allri grenndarþjónustu í nánu samstarfi við íbúa þeirra. Þessu er öðruvísi farið hér á landi.  Þó að í Reykjavík séu nú þegar til staðar hverfisskipting af hliðstæðum toga og finna má hjá nágrönnum okkar þá starfa hverfisráð hér án alvöru umboðs þannig að niðurstaðan verður sýndarlýðræði.  Miðlæg stjórnun einkennir borgina með lítilli valddreifingu.  Þessu þarf að breyta og færa ábyrgð verkefna nær íbúum Reykjavíkur með því að efla verulega hverfisráðin og lýðræðislegt starf þeirra.

Í Vesturbænum, Miðborginnni, Hlíðunum, Laugardalnum, Háaleitinu, Fossvognum, Breiðholtinu, Árbænum, Norðlingaholti, Grafarholti, Grafarvogi og Kjalarnesi má finna öfluga hverfismenningu sem þarf að fá að blómstra og styðja.  Framfarir borgarinnar verða hjá íbúum sjálfum og hafa þeir sjálfir lýst því yfir á samráðsfundum að slíkt megi best gera í þeirri félagslegu samstöðu sem myndast hefur í hverfum borgarinnar á löngum tíma.

Þetta er hinn raunverulegi mannauður borgarinnar og eiga starfsmenn borgarinnar að styðja íbúa til þess að byggja upp hverfi sín með störfum sínum.  Á móti þarf að draga úr yfirstjórn og koma á ábyrgri fjármálastjórn í leiðinni en stjórnkerfi borgarinnar hefur þanist á síðasta kjörtímabili með tilheyrandi kostnaði sem betur gæti nýst í þjónustu við sjálfa borgarbúa.

Tímar sýndarlýðræðis og ógagnsæis eru liðnir.  Nú þurfum við að byggja upp gegnsætt lýðræði með virkri þátttöku íbúa í hverfunum.  Þannig hreinsum við út spillinguna, gerum þjónustu borgarinnar betri og komum á heilbrigðu lýðræðissamfélagi.

Category : Vefgreinar

Kjörstaður

February 3rd, 2010 // 9:14 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Töluvert hefur borið á því að fólk eigi erfitt með að átta sig á því hvar kosið verður á laugardaginn. Ég set inn þessa mynd hér að ofan til glöggvunar.

 • Tími : laugardagurinn 6.febrúar, frá klukkan 10 – 18
 • Staður : Uppsalir Kvennaskólans (gamli verslunarskólinn)
 • við þingholtsstræti 37 (sjá kort)
 • Þetta er á móti þýsk/breska sendiráðinu
 • Menn þurfa að muna að hafa með sér skilríki.

Category : Forval

Lækkum framlög til borgarstjórnarflokka

February 3rd, 2010 // 6:00 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 27 athugasemdir

Byggt á ræðu sem ég hélt í borgarstjórn 2.febrúar 2010

Rannsóknir hafa sýnt að samfara auknu fjármagni til stjórnmálaflokka minnkar virkni almennra félaga. Þeir sem veljast til forystu og stjórna daglegu starfi (og þá sérstaklega kosningabaráttu) hafa tilhneigingu til að leita frekar til sérfræðinga, á sviði auglýsinga og annarra almannatengsla, en til almennra félaga í flokkunum.

Staðreyndin er sú að stjórnendur stjórnmálaflokkanna hafi samfara auknu fjármagni hneigst til þess að minnka lýðræðislegt starf vegna þess að þeim finnst það of tímafrekt. Þannig hefur í raun myndast gjá á milli fámennrar virkrar forystu og óvirks fjölda almennra flokksmanna. Vægi almennra flokksmanna og þar með lýðræðis í flokkunum hefur snarminnkað.

Þessi þróun hefur verið stöðug undanfarna áratugi og náði hér  sögulegu hámarki á árunum fyrir hrun. Greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði þannig úr 13,9 milljónum króna árið 2006 í 32,75 milljónir árið 2007. Það er 136% hækkun á einu ári.

Borgarfulltrúar VG lögðu það til við gerð fjárhagsáætlunar í desember að styrkir Reykjavíkurborgar til stjórnmálaflokka yrði lækkaðir um helming. Aðrir flokkar í borgarstjórn hafa tekið tillögunni fálega en hún er nú til afgreiðslu í forsætisnefnd.

Framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka eru meira en helmingi hærri en framlög annarra sveitarfélaga, svo sem Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu. Reykjavíkurborg er vissulega skylt skv. lögum að veita þeim stjórnmálasamtökum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, fjárframlög til starfsemi sinnar, og skal heildarfjárhæðinni skipti milli þeirra í hlutfalli við atkvæðamagn í næstliðnum borgarstjórnarkosningum en í lögum er ekki getið um upphæð framlagsins.

Færa má rök fyrir því að borgarstjórnaflokkar, sérstaklega þeir sem eru í minnihluta, þurfi á fjárframlögum að halda til þess að sækja sérfræðiaðstoð en sú mikla hækkun sem orðið hefur á framlögum undanfarin ár er langt umfram þá þörf. Lækkun framlaga til stjórnmálaflokka svarar kalli tímans þegar mikill niðurskurður kallar á forgangsröðun í þágu velferðarmála.

Það gengur ekki að stjórnmálaflokkar sitji fast á þeim fjármunum sem þeir skömmtuðu sér sjálfir á góðæristímum á meðan fólk á vegum þessara flokka sker niður öll önnur útgjöld.

Skerðing á fjármagni til stjórnmálaflokka, hvort sem það er frá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum, færir þá nær þeim tíma þegar starfsemin var fyrst og fremst byggð á félögunum í flokkunum sjálfum. Lýðræðið er vissulega tímafrekt en ég get ekki ímyndað mér að fólk vilji frekar að ákvarðanir um stefnu og aðgerðir séu allar teknar í lokuðum herbergjum af þeim örfáu aðilum sem leiða stjórnmálaöfl.

Category : Vefgreinar

Blogg á Eyjunni

February 3rd, 2010 // 2:04 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 26 athugasemdir

Ég var að opna blogg á Eyjunni. Þar mun ég birta hluta þess efnis sem verður birt hér á þessari síðu. Ég mæli þessvegna frekar með því að lesendur notist við þennan vef áfram.

Category : Vefgreinar

Sex ástæður til að styðja VG

February 2nd, 2010 // 11:37 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Mjög raunhæfur möguleiki er á vinstri stjórn í Reykjavík á komandi kjörtímabili samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Skoðanakannanir eru vissulega aldrei meira en vísbending um hvað í vændum gæti verið – ekki meira – en þó það.

Vinstrihreyfingin grænt framboð sem fékk 14% fylgi í síðustu borgarstjórnarkosningum og tvo fulltrúa kjörna, fengi samkvæmt könnun Gallup 19% fylgi og þrjá fulltrúa. Þetta hlýtur að teljast góður árangur, ekki síst í ljósi þess að bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking höfðu kastljós fjölmiðlanna á sér vegna prófkjöra um síðustu helgi.

Sterk útkoma VG í kosningunum í vor er mikilvæg fyrir Reykvíkinga af ýmsum ástæðum.

 1. Í fyrsta lagi aukast þar með líkur á að félagslega sinnað fólk hafi stjórn borgarinnar með höndum næstu fjögur árin.
 2. Í öðru lagi eru minni líkur á því að þeir sem minna mega sín í samfélaginu verði skildir eftir utan gátta. Aldrei er eins mikilvægt og á krepputímum að hafa réttlát og félagslega ábyrg markmið á pólitískri stefnuskrá og innmúruð í  sjálfsvitund þeirra sem með völdin fara. VG hefur sýnt í verki bæði í stjórn og stjórnarandstöðu að þessar áherslur eru ekkert sýndartal  í aðdraganda kosninga. Í öllum störfum okkar eru þau efst á blaði.
 3. Í þriðja lagi aukast líkur á því að jöfnuður og jafnrétti kynjanna verði ætíð á forgangslista borgarstjórnar. Þessi sjónarmið eru inngróin í stefnu VG.
 4. Í fjórða lagi geta menn gengið að því vísu að eignir borgarinnar eru í góðum höndum þar sem við erum annars vegar. VG hefur staðið allra flokka fremst í baráttu gegn markaðs- og einkavinavæðingu undangenginna ára. Nægir þar að nefna málefni sem tengjast Orkuveitu Reykjavíkur. Fátt er eins mikilvægt á krepputímum og að halda vel utan um auðlindir þjóðar og allar dýrmætar eignir hennar. Kjósendur gerðu vel í að hugleiða í hverra höndum þessar eignir eru öruggastar.
 5. Í fimmta lagi gengur enginn gruflandi að áherslum VG í umhverfis og skipulagsmálum.
 6. Í sjötta lagi skulu nefndar áherslur VG á mikilvægi þess að stuðla að háu atvinnustigi með fjölbreyttu atvinnulífi.

Þessari upptalningu má halda áfram og verður það gert eftir því sem nær dregur kosningum en þá munu flokkarnir fjalla um einstaka málaflokka sem snerta lífið í borginni hjá ungum sem öldnum, fjölskyldum og fyrirtækjum.

Á þessari stundu er það gleðiefni að meiri líkur en minni eru á því að mynduð verði vinstri stjórn í Reykjavík. Ég er sannfærður um að enda þótt skoðanakannanir gefi okkur vísbendingu um bærilegan árangur, þá á hann eftir að verða enn meiri eftir því sem fleiri hugsa málið til enda. Þegar fólk leggur niður fyrir sér  hvaða áherslur er mikilvægast að hafa efst á blaði eins og nú háttar til í íslensku samfélagi er VG augljós kostur.

Category : Vefgreinar

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi