Skoða greinar eftir

Ærandi þögn

July 7th, 2010 // 4:17 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 37 athugasemdir

Fréttablaðið 7.júl 2010

Hjálparstofnanir eru komnar í sumarfrí og á meðan verður ekki afgreiddur matur til fjölda fátækra sem staðið hafa í biðröðum til að fæða sig og sína.

Félagsmálaráðherra segir að þetta sé á ábyrgð sveitarfélaga. Borgarstjóri er enn að kynna sér málið. Formaður velferðarráðs sagði að fátækir gætu sleppt því að greiða reikningana sína á meðan á þessu stendur og verkalýðshreyfingin sem áður talaði máli fátækra heldur sig til hlés.

Á meðan aðrir búa við allsnægtir er fátæktin að aukast og fátækum að fjölga og flest er þeim mótdrægt. Kaupmáttur launa hefur lækkað um allt að fjórðung á tveimur árum, fjárhagsaðstoðin hefur lækkað samanborið við lægstu laun, atvinnuleysisbætur hafa ekki hækkað í eitt og hálft ár og húsaleigubætur hafa staðið í stað í 2 ár á meðan húsaleiga Félagsbústaða, sem flestir þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar greiða, hækkar samkvæmt vísitölu. Sömu sögu eða verri má segja af elli- og örorkulífeyrisþegum. Þeir fátæku verða fátækari.

Félagsmálaráðherra hefur kallað fulltrúa sveitarfélaga til samráðs um málið seinnipart vikunnar. Hann skal ekki gleyma því að stærstur hluti þeirra sem beðið hafa í röðum við hjálparstofnanir er á vegum hans ráðuneytis. Vilji ráðherrann bregðast við vanda fólks sem leitar til hjálparstofnana á hann að leggja sitt af mörkum til að leysa þann bráðavanda sem við blasir og leggja jafnframt til við við ríkisstjórn og á Alþingi að bætur verði hækkaðar.

Þetta firrir sveitarfélögin þó ekki ábyrgð því eins og félagsmálaráðherra hefur bent á er framfærsluskyldan þeirra. Þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna, lögum samkvæmt eru þeir sem minnst hafa á milli handanna og væntanlega þeir sem mestar áhyggjur hafa af sumarlokun hjálparstofnana. Þessu fólki eiga sveitarfélögin að veita styrk nú þegar.

Það sem ærir þó óstöðugan er afskiptaleysi Alþýðusambandsins. Fátækir áttu sér áður málsvara í verkalýðshreyfingunni. Fátækt fólk stofnaði verkalýðsfélögin og kom á réttlátara samfélagi. Þögn ASÍ er ærandi.

Category : Greinar

Djók um rannsóknarnefnd

May 28th, 2010 // 2:53 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 32 athugasemdir

Ég fordæmi hunsun borgarstjóra á ákvörðunum borgarráðs og borgarstórnar varðandi nefnd óháðra sérfræðinga sem rannsaka átti stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þegar upp er staðið er það ljóst að aldrei hefur staðið til af hálfu borgarstjóra og meðreiðasveina hennar að standa við rannsóknina.

Borgarráð ákvað þann 6. Maí sl. að skipa nefnd til að framkvæma viðamikla rannsókn á stjórnsýslu, stjórnkerfi, og aðkomu stjórnmálafólks,að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum. Til stóð að skipa í nefndina á borgarstjórnarfundi 18 maí en þegar ljóst var að það tækist ekki þar sem skrifstofa borgarstjóra væri að draga lappirnar lagði ég til á borgarstjórnarfundinum að auglýst yrði eftir þremur sérfræðingum í nefndina. Tillagan var samþykkt einróma og jafnframt að borgarráð skyldi skipa í nefndina á fundi sínum í dag, 27. maí.

Borist hafa fjöldi umsókna og tilnefninga í nefndina og um það var rætt að málið hefði forgang þegar tímafrestur væri liðinn sem var á mánudagskvöld. Borgarstjóri boðaði og afboðaði síðan fund um málið þannig að engin vinna kjörinna fulltrúa hefur farið fram vegna skipunar í nefndina og málið var ekki á dagskrá borgarráðs þrátt fyrir ákvörðun borgarstjórnar. Þar með er það fullreynt, nú einum degi fyrir kosningar að ákvörðun um umfangsmikla rannsókn á stjórnsýslu borgarinnar var bara „djók“ í huga Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og félaga.

Category : Vefgreinar

Ert þú með tilnefningar í nefndina?

May 12th, 2010 // 12:08 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 43 athugasemdir

Í borgarráði fimmtudaginn 6. maí var samþykkt að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem mun hafa það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggja fram tillögur að þeim breytingum sem hún telur þörf á.

Jafnframt var samþykkt að nefndin verði skipuð þannig að samkomulag verði um skipan hennar og stefnt er að því að ganga frá þessu á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn kemur, 18. maí. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að gott fólk finnist í þetta verkefni og ég bið lesendur þessvegna um að koma með hugmyndir að góðum aðilum til að sinna þessu vandasama verkefni.

Verkefni nefndarinnar verða ærin og meiningin er sú að þarna verði ekki um neinn hvítþott að ræða. Hún á að  leggja fram starfsáætlun fyrir 1. júní og skila lokaskýrslu ekki síðar en 31. Desember.

Meðal verkefna nefndarinnar er:
-Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

-Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.

-Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

-Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Ef þú veist um einhvern sem þú telur hæfan til að sinna þessu mikilvæga verkefni, vil ég biðja þig um að hafa samband við mig á thorleifur.gunnlaugsson@reykjavik.is.

Category : Vefgreinar

Tillaga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

May 8th, 2010 // 11:03 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 41 athugasemdir

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi og varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga lagði í dag til í stjórn Sambandsins að Lögfræðisviði þess yrði falið að meta  skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis með tilliti til upplýsinga sem þar koma fram og varða sveitarfélögin og lærdóma er viðkoma stjórnkerfi, stjórnsýslu og fjármálastjórn, siðareglur, reglur um skráningu hagsmunatengsla og annað sem að gagni mætti koma fyrir sveitarfélögin. Tillagan var samþykkt en lögfræðisviðinu er falið að skila skýrslu um málið fyrir þing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður í haust en skýrslugerðin verði jafnframt innlegg í endurskoðun sveitarstjórnarlaga.

Tillagan er hér að neðan:

———

Tillaga frá Þorleifi Gunnlaugssyni.

Stjórn sambandsins felur Lögfræði- og velferðarsviði að meta  skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis með tilliti til upplýsinga sem þar koma fram og varða sveitarfélögin og lærdóma er viðkoma stjórnkerfi, stjórnsýslu og fjármálastjórn, siðareglur, reglur um skráningu hagsmunatengsla og annað sem að gagni mætti koma fyrir sveitarfélögin.

Lögfræði- og velferðarsviði er falið að skila skýrslu sinni þannig að hún geti nýst sem innegg í þing sambandsins í haust, jafnframt því sem hún gæti nýst í tengslum við endurskoðun sveitarstjórnarlaga.

Greinargerð:

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis  er ýtarleg umfjöllun um stjórnkerfi og eftirlitsstofnanir íslenska ríkisins og þær umbætur sem nefndin telur þurfa að eiga sér stað á þeim vettvangi.

Þá er í skýrslu vinnuhóps um siðferði að finna umfjöllun um starfshætti og siðferði í stjórnsýslu og stjórnmálum, þ.m.t. varðandi samskipti embættismanna, stjórnmálamanna og einkaaðila.

Efni skýrslunnar snýr eðli máls samkvæmt hvorki beint að stjórnkerfi eða stjórnsýslu sveitarfélaga, enda komu þau ekki með beinum hætti að þeim atburðum sem skýrslan fjallar um. Stjórnkerfi sveitarfélaga er að mörgu leyti ólíkt stjórnkerfi ríkisins. Æðsta vald innan sveitarfélaganna er í höndum fjölskipaðs stjórnvalds, sveitarstjórnar, sem óhjákvæmilega kallar á ákveðna formfestu við ákvarðanatöku, auk þess sem þar sitja fulltrúar bæði meiri- og minnihluta, en ráðherrar fara einir með æðstu stjórn í stjórnsýslu ríkisins, hver á sínu sviði.

Þrátt fyrir þetta hefur skýrslan að geyma mikinn lærdóm um stjórnsýslu, stjórnmál og siðferði sem nýtast þarf öllum þeim sem starfa við opinbera stjórnsýslu hér á landi, jafnt embættismönnum sem kjörnum fulltrúum.

Mikilvægt er því að lærdómur skýrslunnar verði nýttur eins og kostur er við áframhaldandi þróun stjórnkerfis og stjórnsýslu sveitarfélaganna. Í því sambandi hefur skrifstofustjóri borgarstjórnar Reykjavíkur lagt til að  m.a. verði tekin til skoðunar eftirfarandi atriði og er tekið undir það:

a. Ábyrgðar- og verksvið annars vegar embættismanna, þ.m.t. sveitarstjórna, og hins vegar nefnda, ráða og kjörinna fulltrúa. Boðleiðir, stöðuumboð, valdmörk og skipurit.

b. Verkaskipting stjórnmálanna, aðkoma minnihluta, lýðræði og umboð kjósenda.

c. Stjórnarfyrirkomulag B-hluta fyrirtækja, þ.m.t. verkaskipting, stjórnarskipan, eftirlit, boðleiðir og upplýsingagjöf.

d. Siðareglur starfsfólks og kjörinna fulltrúa sem og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum borgarfulltrúa.

e. Skráning upplýsinga, aðgangur að upplýsingum og trúnaður milli aðila.

f. Reglur um gerð fjárhagsáætlunar, fjár- og áhættustýring, áhættumat og eftirlit.

g. Samskipti við einkaaðila sem fara með opinbert fé, hvort sem er á grundvelli samninga, s.s. þjónustu- og verksamninga, eða styrkveitinga.

Category : Vefgreinar

Rannsóknarnefnd yfir Reykjavíkurborg samþykkt í borgarráði

May 6th, 2010 // 6:13 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 40 athugasemdir

Vísir, 06. maí. 2010 14:35

„Við þurfum að endurheimta traust almennings og því liggur beint við að skipa rannsóknarnefnd. Og þá dugir enginn kattaþvottur,” segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, en tillaga hans um að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd yfir Reykjavík, var samþykkt á Borgarráðsfundi í dag.

Um er að ræða nefnd sem er sambærileg rannsóknarnefnd Alþingis og færi meðal annars yfir stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

Þá verður einnig kannað hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

Tillagan um nefndina verður lögð fyrir borgarstjórn eftir tvær vikur til endanlegrar samþykktar. Svo er stefnt að því að nefndin verði skipið 1. júní næstkomandi og að hún ljúki verki sínu 31. desember.

Samkvæmt Þorleifi þá er stefnt að því að nefndin skoði tvö síðustu kjörtímabil.

Í greinagerð sem fylgdi tillögu Þorleifs kemur fram hvaða þætti nefndin muni rannsaka. Þeir eru eftirfarandi:

-Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

-Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar.
-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.

-Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

-Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Category : Úr fjölmiðlum

Öreigar allra landa sameinist

May 1st, 2010 // 11:43 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 40 athugasemdir

Grein úr Morgunblaðinu 1.maí 2010

Í skugga náttúruhamfara og bankaskýrslu hélt Seðlabanki íslands málstofu undir heitinu »Hvernig hefur staða heimilanna breyst og hverju hafa aðgerðir áorkað«. Þar er almennt eignaleysi og fátækt á Íslandi staðfest. Samkvæmt varfærnum niðurstöðum hagfræðinga bankans er húsnæðiseign tæplega 40% heimila minni en engin. 28.000 heimili hafi verið með neikvæða eiginfjárstöðu í febrúar á þessu ári og 24.000 heimili nái ekki endum saman eða séu á mörkum þess, þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Þar með hefur pólitík hægrimanna í upphafi 20. aldar sem vildu gera alla að eignafólki (húseigendum) beðið skipbrot og eftir stendur alþýðan slypp og snauð. Verði ekki spyrnt við fótum verður hún ofurseld húsnæðisbröskurum þar sem Íslendingar, einir Norðurlandaþjóða, hafa ekki komið sér upp almennum félagslegum leigu- og kaupleigumarkaði.

Gegndarlaus græðgi kapítalistanna, frjálshyggjuaflanna, sem vildu setja allt á markað varpar skugga á hugmyndina um blandað hagkerfi og eftir standa í sinni skýrustu mynd höfuðandstæður samfélagsgerðarinnar, auðvaldið og öreigarnir.

1. maí

Það er ekki langt síðan forystufólk úr verkalýðshreyfingunni talaði fyrir því að breyta áherslum á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Kröfugöngur og baráttufundir þóttu orðið gamaldags og í Reykjavík vildu þau sem þannig töluðu frekar halda skemmtun í húsdýragarðinum. En þessar raddir heyrast ekki í dag. Hafi einhvern tímann verið ástæða til að storma út á götur og hefja merki baráttunnar á loft, þá er það núna. Nú er rétt að fylgja í fótspor formæðra okkar og feðra. Þeirra sem með þrotlausri baráttu byggðu upp sanngjarnara samfélag. Þeirra sem þennan dag, undir rauðum fánum réttlætisins, kröfðust þjóðfélagsjöfnuðar og friðar. Þeirra sem fundu til vissu um það að sameinuð myndu þau að lokum sigra því að þar fór fjöldinn sem í raun hafði engu að tapa nema hlekkjunum. Þeirra sem töldu sig eiga meiri samleið með öreigum annarra landa en innlendum kúgurum og að öreigar allra landa myndu að lokum skapa réttlátan heim.

Category : Greinar

Vill rannsóknarnefnd yfir Reykjavíkurborg

April 29th, 2010 // 6:25 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 34 athugasemdir

Visir.is 29.apr 2010

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, lagði fram tillögu á borgaráðs í dag um að fram fari rannsókn á aðdraganda, orsökum og afleiðingum efnahagshrunsins á borgina og fjárhag hennar.

Tillögunni var vísað til aðgerðarhóps borgarráðs sem mun funda um hana á mánudag. Stefnt er að því að afgreiða tillöguna á fundi borgarráðs að viku liðinni.

Í tillögunni kemur fram að slík rannsóknarnefnd ætti meðal annars að kanna stjórnsýslu borgarinnar auk þess sem hún ætti að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

———-

Eyjan 29.4.2010

Tillögu Vinstri grænna í borgarráði þess efnis að farið verði gaumgæfilega í saumana á aðdraganda, orsakir og afleiðingar efnahagshrunsins á borgina og fjárhag hennar var vísað til sérstaks aðgerðarhóps borgarráðs sem taka mun ákvörðun á mánudaginn kemur.

Verði tillagan samþykkt verður skipuð sérstök nefnd sérfræðinga sem fara munu í kjölinn á öllu er viðgekkst í borginni fyrir hrun og eftir með tilvísun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Skal þess gætt að fullt samkomulag allra flokka í borgarstjórn verði um skipan allra sérfræðinga í þá rannsóknarnefnd. Skal hún sérstaklega ganga í:

  • Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum.
  • Að kanna  hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi nokkurn tímann fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
  • Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar og stjórnsýslulegar ákvarðanir.
  • Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.
  • Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.
  • Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar.

Gert er ráð fyrir að tillagan verði afgreidd af borgarráði eftir viku en skilað verði tillögum um hvernig verkið skal unnið fyrir 15. maí. Niðurstaða skal liggja fyrir 31. ágúst.

Category : Úr fjölmiðlum

Borgarráð vill að Orkuveitan elti Landsvirkjun og upplýsi um orkuverð til stóriðju

April 29th, 2010 // 6:22 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Eyjan 29.4.2010

Borgarráð ákvað í dag að beina þeim tilmælum til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að allt orkuverð verði opinberað. Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði, lagði tillögu þess efnis að orkuverð vegna sölu OR til stóriðju verði gert opinbert og var hún samþykkt.

Í greinargerð með tillögunni segir að í ljósi þess að Landsvirkjun ætlar að upplýsa um orkuverð á aðalfundi sínum í næsta mánuði hljóti slíkt leyfi að vera auðsótt fyrir Orkuveituna.

„Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er þar segir: „Stuðlað verði að gagnsæi í orkusölusamningum og leitað leiða til að aflétta leynd af orkuverði til erlendra stóriðjufyrirtækja.  Stefnt verði að jafnræði í verðlagningu raforku í ólíkum atvinnugreinum“. Norðurál er eitt þeirra fyrirtækja sem skipta við Landsvirkjun en HS orka og OR selja einnig orku til Norðuráls,“ segir í greinargerðinni.

Category : Úr fjölmiðlum

Atvinnulausir og þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð fái frítt í sund og fleira

April 21st, 2010 // 10:49 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 41 athugasemdir

Ræða í borgarstjórn 20.apríl 2010

Forseti, borgarfulltrúar. Með leyfi forseta flyt ég tillögu sem að hluta til er samhljóða tillögu sem ég flutti hér í borgarstjórn 16. mars síðastliðinn. Tillagan fjallar um það að atvinnulausum og fólki á fjárhagsaðstoð verði gert kleift að sækja sundstaði borgarinnar sér að kostnaðarlausu en við hana er nú bætt tillögu um að það sama gildi um bókasöfn borgarinnar. Það er nú svo í mínum huga allavega að þessi tillaga er neyðarbrauð. Hún túlkar þá staðreynd að hér í borg er fólk sem ekki hefur efni á því að veita sér það sem öðrum finnst vera sjálfsagt. Hún túlkar þá staðreynd að í borginni okkar er fátækum að fjölga.

Fátækt er í sjálfu sér afstætt hugtak og þegar kemur að tölfræðinni skiptir náttúrlega máli að skilgreiningar séu á hreinu. Evrópusambandið og OECD tala um afstæð fátæktarmörk. Þá er fólk skilgreint sem fátækt ef tekjur þess fara undir fyrirfram skilgreint hlutfall af tekjum tiltekins viðmiðunarhóps. Í tilfelli Evrópusambandsins sem  notar þessa aðferð við mælingar á fátækt meðal aðildarríkja,  er þar miðað við að einstaklingur sé fátækur ef tekjur hans eru lægri en 50% af miðgildi ráðstöfunartekna landa hans. Í þeim mælingum er einnig tekið tillit til fjölskyldustærðar og reiknað með að maki þurfi 70% af tekjum sambýliskonu eða -manns og börn þarfnist 50% af tekjum fullorðinnar manneskju. Því miður hafa ekki verið að mér vitandi reiknuð út fátækramörk á Íslandi en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera, hafi það ekki verið gert, þá er nauðsynlegt að gera það þannig að umræðan við þessar aðstæður verði á vitrænu stigi.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem rædd verður hér á eftir, hefur tröllriðið allri umræðu undanfarna daga. Í skugga skýrslunnar var haldin stórmerkileg málstofa á vegum Seðlabanka Íslands undir heitinu „Hvernig hefur staða heimilanna breyst á undanförnum árum og hverju fá aðgerðir í þágu heimilanna áorkað?“ Þar voru frummælendur þau Karen Á. Vignisdóttir og Þorvarður Tjörvi Ólafsson sem eru bæði hagfræðingar Seðlabankans. Þeirra málflutningur og glærurnar sem þau notuðust við má sjá á heimasíðu Seðlabankans og ég hvet ykkur til að skoða þær. Ég ætla svo sem ekki að kafa djúpt í þær núna enda er þar um að ræða, að mati okkar, borgarfulltrúa Vinstri grænna, dagskrárefni út af fyrir sig. Við  leggjum sem sagt til að staða heimilanna með tilliti til aukinnar fátæktar verði sett á dagskrá næsta fundar borgarstjórnar. Ég vil þó nefna að í máli hagfræðinganna kemur það fram að 14% heimila ná ekki endum saman og að 8% að auki eigi í mesta basli með að ná endum saman. Að um 28.000 heimili séu með neikvæða eiginfjárstöðu og þegar staða barnafólks þar sem allt heimilisfólk er yngra en 40 ára er skoðuð kemur í ljós að eiginfjárstaðan er neikvæð hjá 65% þeirra. Að 20% einstæðra foreldra nái ekki endum saman og 15% til viðbótar séu á mörkunum. Og þá kemur náttúrlega ekki á óvart að af 8.850 heimilum með tekjur um eða undir 150.000 kr. á mánuði er 80% þeirra í sérstökum vanda. 80% af 8.850 heimilum.

Og það er einmitt þetta fólk sem ætti að njóta góðs af  tillögunni sem  hér er lögð fram. Í ræðunni sem ég flutti hér 16. mars rakti ég feril þessa máls. Munnlega tillögu sem ég vísaði til aðgerðahóps borgarráðs í desember 2008 en á þeim tíma vorum við að reikna með 7% atvinnuleysi, og fannst það alveg svakalegt. Ég held að það sé um 10% í dag. Atvinnumálahópurinn undir forystu Svandísar Svavarsdóttur sendi borgarráði skýrslu 16. febrúar 2009 þar sem lagt var til  að athugaður yrði sá kostur að bjóða atvinnulausum frítt í sund og á bókasafn til að tryggja samfélagslega virkni þeirra. Ég fór í gegnum kostnað borgarinnar vegna tillögunnar og ætla ekki að gera það aftur hér, ég fór nokkuð nákvæmlega í gegnum mögulegan kostnað, það er erfitt að reikna þetta út nákvæmlega, en að mínu mati er hann ekki verulegur miðað við þau gæði sem af tillögunni hljótast.

Forseti, borgarfulltrúar. Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur rekur sjö sundlaugar. Í þjónustu sundlauganna birtist vel sá þáttur í menningu borgarbúa sem við tengjum við heilbrigða lífshætti, jafnframt því sem segja má að sundlaugarnar séu aldingarðar Íslands, þar sem íbúarnir, í stað þess að sitja á bekkjum garðanna, sitja á bekkjum pottanna og ræða málin, hvernig sem veðrið er. Og menning okkar á sér einnig djúpar rætur í bókasöfnum borgarinnar. Grunnurinn að Borgarbókasafninu sem var stofnað 1919 var lagður með fé sem fékkst við sölu á fiskibátum sem borgin átti og seldi til Frakklands, þetta var verið að segja mér áðan. Stofnun alþýðubókasafns var einmitt eitt af skilyrðum fyrir sölunni. Borgarbókasafn hefur ávallt verið mikilvægt en líklega aldrei sem nú þar sem þjónusta og safnkostur þess veitir aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hægt er að hugsa sér auk þess sem hæft starfsfólk safnana getur auðveldað gestum leit sína að þeim upplýsingum sem þeir sækjast eftir. Mikil fjölgun atvinnulausa og fólks á fjárhagsaðstoð hefur kallað á virkniáætlun sem verið er að ýta úr vör. Að forða fólki frá þeirri deyfð og því þunglyndi sem fylgt getur aðgerðaleysinu og hjálpa því aftur inn á vinnumarkaðinn og til almennrar virkni er þetta og þessi tillaga þjóðhagslega hagkvæm. Hvatning til sundferða og heimsókna á bókasöfn getur átt stóran þátt í að auka lífsgæði atvinnulausra og þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar. En eins og áður sagði er tillagan sem hér er lögð fram  í raun neyðarbrauð.

Samfélag sem sættir sig við fátækt íbúa sinna er ekki gott samfélag. Sú þróun sem við horfum upp á þar sem æ fleiri fara niður fyrir fátæktarmörk er ekki það sem við viljum. Ég, sem félagshyggjumaður, hlýt að gera þá kröfu að allir hafi nægar tekjur til að framfleyta sér og sínum á sómasamlegan hátt. Að við bjóðum ekki upp á samfélag sérlausna fyrir fátæka sem myndast með biðröðum á hjálparstofnunum, svo dæmi sé tekið. Að allir hafi rétt til að lifa með reisn og því verði ekki náð nema að lágmarkslaun, hvort sem það eru samfélagslaun í formi fjárhagsaðstoðar, tryggingabóta og atvinnuleysisbóta eða samningar á milli verkalýðfélaga og atvinnurekaenda, að allir hafi tekjur sem dugi til þess að lifa sómasamlega lífi. En þannig er það því miður ekki í dag, góðir borgarfulltrúar. Fjárhagsaðstoðin og atvinnuleysisbæturnar standa í stað á meðan verðbólgan stígur. Þeir fátæku verða fátækari og við þær aðstæður er tillaga sem þessi réttlætanleg.

Tillagan er þá þessi:

Lagt er til að þeir íbúar borgarinnar sem eru atvinnulausir og þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð fái frítt á sundstaði borgarinnar og frí notendakort að þjónustu Borgarbókasafns út árið 2010. Borgarstjóri útfæri nánar framkvæmd tillögunnar.

Og að lokum vil ég árétta það að í samskiptum mínum við starfsfólk borgarinnar tel ég að tryggja megi það að atvinnulausir og fólk á fjárhagsaðstoð geti notið þessa án þess að verða sér á nokkurn hátt til minnkunar.


Category : Úr borginni

Hrafninn reiður

April 20th, 2010 // 4:01 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // 30 athugasemdir

Smugan : 19.4.2010 14:22

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri fékk frest til klukkan níu á föstudag til að taka til í kringum lóð sína í Lauganestanga. Fyrirhugað var að framkvæmdir hæfust í dag en því hefur Hrafn mótmælt harðlega.

Áralangt stríð hefur staðið um framkvæmdir Hrafns á Lauganestanga en borgaryfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir linkind í málinu.

Í bréfi frá borgaryfirvöldum til fjölmiðla kemur fram að umrætt svæði á Laugarnesi sé ekki bara land í eigu borgarinnar heldur útivistarsvæði, sem sé á Náttúruminjaskrá. Þar sé einnig að finna friðlýstar fornminjar. Bæði Forleifavernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa nú gert alvarlegar athugasemdir við umgengni á svæðinu og telja að þær feli meðal annars í sér brot á þjóðminjalögum.

Magnaður frekjugangur
Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi Vg átti frumkvæðið að gripið er til aðgerða nú gegn Hrafni en slíkt hefur þó staðið til lengi. Dofri Hermannsson segir á bloggi sínu að Hrafn hafi komist upp með magnaðan frekjugang gagnvart umhverfi sínu í Laugarnesinu. ,,Hann hefur látið stórvirkar vinnuvélar ryðja hluta af friðlýstri fjöru neðan við hýbýli sín og lagt undir sig svæði umhverfis lóð sína sem er margfalt stærra en lóðin sjálf. Sumu af draslinu hefur hann stillt upp á stöðum sem njóta verndar vegna menningarverðmæta og fornleifa.“

Umburðarlyndi borgaryfirvalda
Og líkt og Þorleifur hefur sagt í viðtali við Smuguna, finnst Dofra Hermannssyni að  umburðarlyndi gagnvart Hrafni hafi verið sýnu meira en gagnvart öðrum borgarbúum í sömu stöðu.

,,Borgaryfirvöld hafa sýnt frekjugangi Hrafns Gunnlaugssonar ótrúlegt umburðarlyndi. Látið hann komast upp með að byggja kofaskrifli og stilla upp drasli á stærð við hús út um allt á meðan venjulegt fólk er jafnvel látið rífa kvisti af húsum sínum af því það var ekki búið að stimpla teikningar áður en byrjað var að byggja.“

Category : Úr fjölmiðlum

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi