Skoða greinar eftir

Landsvirkjun

September 9th, 2009 // 4:08 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 33 athugasemdir

. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar:

Borgarráð beinir því til fjármálaskrifstofu að gera mat á áhættu borgarinnar af fjárhagslegum ábyrgðum vegna Landsvirkjunar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09070017

Samþykkt.

Category : Úr borginni

HS Orks

September 9th, 2009 // 4:06 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 26 athugasemdir

13. Lagt fram að nýju bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 1. þ.m. þar sem óskað er staðfestingar Borgarstjórnar Reykjavíkur á samþykki stjórnar Orkuveitunnar frá 31. f.m., annars vegar á samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ, dags. s.d., um uppgjör á samkomulagi aðila frá 2. júlí 2007 og hins vegar á kaupsamningi við Magma Energy Sweden A.B., dags. 30. s.m., um sölu á hlutum í HS Orku hf. Jafnframt lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um málið, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. s.m. Þá er lagt fram minnisblað KPMG á Íslandi frá 8. s.m. varðandi fyrirspurnina. R09080037

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Það er alveg ljóst að hér er á ferðinni einkavinavæðing í þeim gjafmilda anda sem réði ríkjum við úthlutun gjafakvótans í sjávarútvegi og þegar einkavinum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru afhentir ríkisbankarnir á silfurfati og í raun borgað með ósómanum. Ennfremur er ljóst að á meðan einkavina- og bankagjafaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, geta myndað meirihluta í sveitarstjórnum landsins hafa þeir öll tök á því að svipta almenning auðlindum sínum og sameiginlegum eigum. Sá samningur sem nú virðist því miður ætla að ná fram að ganga er augljóslega mjög óhagkvæmur fyrir almenning og felur í raun í sér aðför gegn almannahagsmunum. Reiknikúnstir Samfylkingar þarf ekki til að leiða það í ljós en á þeim bænum virðist a.m.k. takmörkuð andstaða við einkavæðingu orkugeirans. Stefna óháðra borgarfulltrúa F-listans er hins vegar alveg skýr: Ekki kemur til greina og ekki á að vera heimilt að selja hlut almennings í orkulindum og orkuveitum til einkaaðila. Ég mótmæli því harðlega að meirihlutinn hafi í raun ýtt út af borðinu tillögu minni í borgarstjórn frá í vor um að óheimilt sé að selja hlut almennings í orkulindum og orkuveitum til einkaaðila. Tillögunni var vísað til borgarráðs og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur ekki fengið neina umfjöllun í borgarráði sem vísaði henni alfarið til nefndar á vegum Orkuveitunnar. Stjórn Orkuveitunnar hefur aldrei fjallað um tillöguna! Öll vinnubrögð í þessu máli og almannahagsmunir kalla á það að núverandi meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur sé komið frá sem allra fyrst.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Þakkað er fyrir svör við spurningum sem beint var til KPMG, KPMG eru endurskoðendur OR og framkvæma því ekki sjálfstætt mat á verðmæti skuldabréfsins sem lagt er fram fyrir 70#PR af greiðslu Magma. KPMG yfirfer því aðeins mat OR á skuldabréfinu varðandi þá þætti sem fram koma í spurningum minnihlutans. Svörin frá KPMG staðfesta fullyrðingar fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um að forsendur meirihlutans við núvirðingu tilboðsins séu óeðlilegar. Meðal þess sem kemur fram í minnisblaði KPMG um áhættuálag: Hvorki Magma Energy, Magma Energy Sweden né HS Orka eru með skráð lánshæfismat. Magma Energy er ungt félag (stofnað 2008) og starfar á tiltölulega ungum markaði sem byggir á nýlegri tækni. Samanburður við sambærileg félög er erfiður. Horfur á fjármálmörkuðum eru ennþá óljósar sem endurspeglast meðal annars í háu áhættuálagi skuldabréfa í sögulegu samhengi. Það er því niðurstaða KPMG að það hefði verið „viðeigandi að notast við nokkuð hærra áhættuálag við núvirðingu skuldabréfsins en OR notast við í sínum útreikningum“. KPMG staðfestir að „eðlilegt sé að notast við áhættuálag ofan á ríkistryggða vexti við mat á ávöxtunarkröfu til núvirðingar bréfsins“. Varðandi áhrif þess að síðustu staðgreiddu viðskipti í HS Orku voru á genginu 4,7 segir í minnisblaði KPMG: „að sé gengið út frá þeirri forsendu að gengið 4,7 endurspegli gangvirði hlutabréfa HS Orku hafi það að öðru óbreyttu áhrif til hækkunar ávöxtunarkröfu“. Ámælisvert er að stjórnarformaður OR hefur á opinberum vettvangi vísað til staðfestingar KPMG á útreikningum meirihlutans. Nú þegar svör KPMG liggja fyrir er þvert á móti ljóst að í þeim felst áfellisdómur yfir forsendum sem gengið er út frá við mat meirihlutans á tilboði Magma.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Varðandi „svör“ borgarstjóra við spurningum sem beint var til borgarinnar hafa fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fjölmargt að athuga og vilja gefa borgarstjóra kost á að draga þau til baka og svara því sem spurt er um í stað þess að snúa út úr. Það er einnig með algerum ólíkindum að borgarstjóri skuli neita að bera saman kjör Magma og kjörin í samningunum við Hafnarfjörð. Augljóst er að borgarstjóri á í miklum vandræðum með að rökstyðja málstað sinn og langt er seilst til að breiða yfir þá dapurlegu vankanta sem eru á fyrirliggjandi samningi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögur:

1. Lagt er til að óskað verði eftir áhættugreiningu óháðra aðila vegna sölu OR á bréfum í HS Orku og hún verði lögð fram. Áhættugreiningin taki til útgefanda skuldabréfs (Magma Energy Sweden) og þeirra veða sem standa að baki skuldabréfinu (bréf í HS Orku). Hafi áhættugreining óháðs aðila ekki farið fram verði hún framkvæmd tafarlaust.

2. Lagt er til að á grundvelli áhættugreiningar framkvæmi óháðir aðilar núvirðingu á fyrirliggjandi tilboði þar sem alvarlegir ágallar hafa komið fram á núvirðisreikningum meirihlutans.

3. Lagt er til að óháður aðili verið fenginn til að gera upp viðskipti OR með bréf í HS Orku frá kaupum á hlutunum til sölu þeirra, þannig að fram komi hvert tap OR af viðskiptunum er og hvert það tap gæti orðið. Lagt er til að umrætt mat verði unnið af aðila sem er vanur að fást við mat tilboða og núvirðisreikninga með það að markmiði að allar lykilupplýsingar liggi fyrir í þessu máli og sameiginlegur skilningur verði á því hvert sé raunverulegt tap af viðskiptunum. Við framkvæmd tillagnanna er lagt til að minnihluti og meirihluti borgarráðs komi sér saman um óháðan aðila til að leggja mat á viðskipti OR með hluti í HS Orku.

4. Þar sem tilboðið sem fyrir liggur er ekki eins hagstætt og haldið hefur verið fram er ennfremur lagt til að í samráði við aðra eigendur OR beini borgarráð því til forstjóra OR að óskað verði eftir því við samkeppnisyfirvöld að Orkuveitunni verði veittur aukinn frestur til að ráðstafa hlut sínum í HS Orku. Jafnframt verði óskað eftir samstarfi við samkeppnisyfirvöld um það hvernig best er að fara með hlutinn í HS Orku með almannahag í huga, hvort nauðsynlegt sé að stofna um hann sérstakt félag eða hvaða aðrar leiðir séu færar sem samræmast samkeppnislögum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Tillögum Samfylkingar og Vinstri grænna er vísað frá, enda tilgangur þeirra sá einn að drepa málinu á dreif og fresta ákvarðanatöku. OR er í þeirri stöðu að verða að selja umræddan hlut í HS Orku og öll þau svör sem lögð hafa verið fram á fundinum staðfesta að sú sala er ásættanleg fyrir fyrirtækið og mikilvæg fyrir eigendur þess. Að því er varðar svör KPMG þá benda þau réttilega á að kjöraðstæður eru ekki í íslensku samfélagi nú, sem eðlilega hefur áhrif á öll viðskipti. Sú niðurstaða er í samræmi við það sem forsvarsmenn félagsins og eigenda hafa sagt um að salan sé vel ásættanleg í því efnahagsástandi sem nú ríkir.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 og er því tillögum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Ljóst er að Orkuveitan hefur vanmetið áhættu vegna kúlulánsins (skuldabréfsins) sem fyrirtækið tekur við sem greiðslu fyrir 70#PR kaupsverðs frá Magma, samkvæmt svörum KPMG. Vegna stöðu fyrirtækisins sem endurskoðenda var það ekki í aðstöðu til að framkvæma það mat. Á grundvelli þessara upplýsinga er með ólíkindum að meirihlutinn vísi frá tillögu um að sjálfstætt mat fari fram á verðgildi og tapi OR vegna kúlulánsins og áreiðanleika Magma og þeirra veða sem lögð eru fram í bréfum HS Orku. Sýnir það betur en flest annað hversu döpur málefnastaða meirihlutans er í því að þvinga fram þetta ólánlega mál.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

1. Aðilum utan EES er bannað að eignast hluta í íslenskum orkufyrirtækjum enda var dótturfélagið Magma Energy Sweden AB stofnað til að komast framhjá íslenskum lögum. Kemur sú staðreynd í veg fyrir það að móðurfélagið Magma, sem er kanadískt félag, geti veitt móðurfélagsábyrgð?

2. Er yfir allan vafa hafið að þessi viðskipti séu lögum samkvæm?

3. Er eðlilegt að OR taki bréf í HS Orku sem veð fyrir skuldabréfinu, þar sem ljóst er að vandkvæðum er háð fyrir OR að taka við veðinu ef illa fer vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins? Væru önnur veð ekki heppilegri?

4. Ítrekuð er sú ósk að öll undirgögn, samningar við Artica finance og aðrir samningar og álit verði lögð fyrir borgarráð. Einnig er óskað eftir öllum upplýsingum varðandi úrskurð Samkeppniseftirlitsins, þ.m.t úrskurði Samkeppniseftirlitsins, áfrýjunarnefndar samkeppnismála, lögfræðileg álit og aðrar forsendur málsins.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Um leið og borgarráðsfulltrúi VG tekur undir gagnrýni á vinnubrögð meirihlutans er áréttuð sú grundvallarafstaða Vinstri grænna að orkufyrirtæki og orkuauðlindir eigi undantekningalaust að vera í almanneigu. Þetta hefur aldrei skipt meira máli en nú vegna mikilvægis orkufyrirtækjanna í uppbyggingu Íslands. Stjórnmálafólk sem er kaþólskara en páfinn þegar um óréttlát samkeppnislög er að ræða en hikar ekki við að fara á svig við lög um eignarhald útlendinga í orkufyrirtækjum er ótrúverðugt. Það er með ólíkindum að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík sé á góðri leið með að klára það sem fulltrúar þessara sömu flokka hófu í ríkisstjórn í upphafi árs 2007. Sú vegferð var farin af fólki sem einskis sveifst í græðgi sinni og skildi samfélagið eftir í rjúkandi rúst. Það er því ólíðandi að frjálshyggjuöflunum skuli takast að nýta sér þá eymd sem þau sköpuðu til áframhaldandi eignaupptöku á almannaeigum. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna höfðar þó enn og aftur til samvisku meirihlutans í Reykjavík og hvetur borgarstjóra til að hafa frumkvæði að viðræðum við ríkisvaldið og önnur sveitarfélög um samfélagslega lausn þessa máls.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Það er öllum orðið ljóst að íslensk lög ná ekki að verja hagsmuni almennings hvað varðar eignarhald á orkuauðlindum þegar leigan er rúmlega 30 milljónir á ári og leigutími í 65 til 130 ár.

Category : Úr borginni

Yfirlýsing frá fulltrúum VG í Reykjavík í stjórn OR vegna tilboðs Magma Energy í hlut OR í Hitaveitu Suðurnesja

August 16th, 2009 // 10:25 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 20 athugasemdir

VG.is 16.8.2009

Fulltrúi VG í Reykjavík í Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur greiddi atkvæði gegn því að haldið yrði áfram viðræðum við Magma Energy um kaup þess á hlut OR í HS Orku.

Það var ljóst á sínum tíma að með ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á hlutafé Grindavíkurkaupstaðar og Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja var Orkuveita Reykjavíkur að gæta samfélagslegra hagsmuna. Kaupin áttu sér stað að frumkvæði umræddra sveitarstjórna sem töldu„veitustarfsemi á Suðurnesjum betur komna á vegum Orkuveitunnar en annarra sem gert hafa tilboð í hlutafé félagsins.“  eins og segir í bókun stjórnar OR 2. Júlí 2007.

Þegar meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti síðan að selja eignarhlut fyrirtækisins í Hitaveitu Suðurnesja hf.  greiddi  Reykjavíkurfulltrúi VG atkvæði gegn tillögunni og bókaði að „Ljóst er ef marka má bókun stjórnar frá fundinum 2. júlí 2007 þá voru kaupin í Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma samþykkt með það að leiðarljósi að halda veitunni í eigu almennings eins og nokkurs er kostur. Hér er lagt til að undirbúa sölu á hlutnum án þess að nokkuð fari fyrir áherslum um samfélagslega hagsmuni og vilja til að halda auðlindum í eigu almennings. Fulltrúi Vinstri grænna getur ekki staðið að samþykkt slíkrar tillögu.“

Nú þegar Reykjanesbær hefur selt hlut sinn í HS Orku til Geysis Green Energy mun fyrirhuguð sala á hlut OR og Hafnarfjarðar bæjar til Kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy færa HS orku í hendur einkaaðila.  Þar með yrði stigið afdrifaríkt skref í átt til einkavæðingar orkugeirans hér á landi.  Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær segir að verðmæti 32 % hlutarins sé allt að 12. milljarðar króna. Þar með eru miklar líkur því að tap OR á sölunni yrði umtalsvert.

Einkavæðing HS orku yrði lýsandi dæmi um hættuna sem skapast þegar einkaaðilar ásælast opinber fyrirtæki með það í huga að nýta sér takmarkað aðgengi þeirri að fjármagni eftir hrun bankanna. Slíkar fordæmalausar aðstæður skapa jarðveg fyrir brunaútsölu á fyrirtækjum í almannaeigu.  Einkavæðing orkufyrirtækja mun ekki tryggja að hagsmunir almennings séu hafðir í fyrirrúmi.

Þorleifur Gunnlaugsson fulltrúi VGR í stjórn OR
Lilja Mósesdóttir varafulltrúi VGR í stjórn OR

Category : Úr fjölmiðlum

Frístundaheimili / Launamunur kynja

January 18th, 2009 // 4:01 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 25 athugasemdir

34. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á fundi borgarráðs þann 27. ágúst sl. var niðurstöðum starfshóps um samstarf íþrótta- og tómstundasviðs og menntasviðs um rekstur frístundaheimila vísað til ÍTR og menntasviðs og áttu tillögur að útfærslum að liggja fyrir þann 1. október. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um hvernig vinnunni miði og hvenær niðurstaðna sé að vænta, nú þegar vika er liðin frá uppgefnum fresti. R09060117

35. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Tillaga um að gerð yrði óháð úttekt á launamun kynjanna hjá Reykjavíkurborg var samþykkt í borgarstjórn þann 16. september 2008. Ítrekaðar fyrirspurnir hafa leitt í ljós að nú rúmu ári seinna er úttektin ekki enn hafin og óljóst hvernig málum verði háttað. Um leið og borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á framtaksleysinu óskar hann eftir tímasettri áætlun um hvernig verkið verði unnið, af hverjum og hvernig greitt verði fyrir þá vinnu. R08020040

Category : Úr borginni

Velferð barna

January 18th, 2009 // 4:00 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 39 athugasemdir

33. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:

Á borgarstjórnarfundi 19. maí sl. lögðu fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar fram tillögu um að skipa aðgerðahóp sem hafi það hlutverk að gera aðgerðaáætlun sem tryggi velferð barna í borginni eins og kostur er. Tillögunni var vísað til borgarráðs sem tók hana til afgreiðslu tæpum 2 mánuðum síðar eða 2. júlí en þar var hún samþykkt og tilnefndur hópur borgarfulltrúa undir forsæti Jórunnar Frímannsdóttur. Aðgerðahópur um velferð barna hefur aðeins haldið 1 fund fyrir einum og hálfum mánuði síðan og ekki hefur verið boðaður annar fundur. Þegar litið er til mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar hafi yfirlit yfir aukinn vanda barna í vaxandi kreppu og geti lagt gott til þegar á bjátar er hægagangur í starfi hópsins skaðlegur sem rekja má til þess að enginn starfsmaður er til staðar. Því leggja fulltrúar VG og Samfylkingar til að aðgerðahópur um málefni barna fái til liðs við sig starfsmann. R08100231

Frestað.

Category : Úr borginni

Bera engan kala til Þorleifs

December 14th, 2008 // 4:44 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 47 athugasemdir

DV Sunnudagur 14. desember 2008 kl 16:17

„Í ljósi umræðunnar sjáum við ástæðu til þess að taka það skýrt fram að umrætt bréf var sent fjölmiðlum með samþykki dóttur okkar og með samþykki og vitund okkar einnig. Þannig var í engu við borgarfulltrúann að sakast,” segja foreldrar stúlkunnar sem skrifaði Þorleifi Gunnlaugssyni bréf um þjónustu unlingaheimilisins Stígs.

Borgarfulltrúinn Þorleifur Gunnlaugsson sendi, fyrir mistök, bréfið til fjölmiðla án þess að fjarlægja nafn stúlkunnar.
Foreldrarnir, sem óska nafnleyndar, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau taka skýrt fram að Þorleifur hafi á öllum stigum málsins haft samband við fjölskylduna og að honum hafi verið umhugað um að ekkert væri gert í óþökk stúlkunnar.

„Við álösum borgarfulltrúanum ekki fyrir eitt eða neitt í hans framgöngu. Þvert á móti þökkum við fyrir einarðan stuðning hans við brýnt málefni.

Umræða um nafnbirtingu má ekki verða til að fólk missi sjónar af mikilvægi málefnisins sjálfs, mikilvægri umræðu um úrræði fyrir unglinga sem lenda í tímabundnum erfiðleikum. Við skorum á fjölmiðla að taka þetta málefni föstum tökum og fjalla um kjarna málsins, hvernig standa á að unglingastarfi í borginni,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Í bréfinu sem stúlkan ritaði kom fram andúð stúlkunnar á því að skerða eigi þjónustu Stígs og Traðar, „þar sem Stígur hefur verið mér lífsnauðsynlegur eftir áfall sem ég lenti í. Ég er 16 ára og búin að vera á Stíg frá því í byrjun síðasta árs og hefur það hjálpað mér meira en orð fá lýst,“ skrifaði hún meðal annars.

Viðbót: Hér að neðan birti ég yfirlýsingu foreldranna í heild sinni.

Yfirlýsing

Reynt hefur verið að drepa á dreif umræðu um niðurskurð borgaryfirvalda á fjárframlagi til unglingastarfs í borginni. Hæst hefur borið bréf sem Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi sendi til fjölmiðla um þetta málefni þar sem fram kom nafn einstaklings án þess að nafnbirting væri sérstaklega heimiluð. Viðkomandi borgarfulltrúi hefur beðist afsökunar á nafnbirtingunni en augljóst er að þar var um mistök að ræða sem hann kom á framfæri við fjölmiðla.

Þetta mál er okkur skylt því bréfritarinn er dóttir okkar. Í ljósi umræðunnar sjáum við ástæðu til þess að taka það skýrt fram að umrætt bréf var sent fjölmiðlum með samþykki dóttur okkar og með samþykki og vitund okkar einnig. Þannig var í engu við borgarfulltrúann að sakast. Á öllum stigum máls hafði hann samband við fjölskylduna og var umhugað um að ekkert væri gert í hennar óþökk.

Við álösum borgarfulltrúanum ekki fyrir eitt eða neitt í hans framgöngu. Þvert á móti þökkum við fyrir einarðan stuðning hans við brýnt málefni.

Umræða um nafnbirtingu má ekki verða til að fólk missi sjónar af mikilvægi málefnisins sjálfs, mikilvægri umræðu um úrræði fyrir unglinga sem lenda í tímabundnum erfiðleikum. Við skorum á fjölmiðla að taka þetta málefni föstum tökum og fjalla um kjarna málsins, hvernig standa á að unglingastarfi í borginni.

Í umræddu bréfi dóttir okkar segir m.a. : “…Ég sendi þér þetta bréf til að sýna þér andúð mína á því máli að skerða niður Stíg og Tröð þar sem að Stígur hefur verð mér lífsnauðsynlegur eftir áfall sem ég lenti í.

Ég er 16 ára og búin að vera á Stíg frá því í byrjun síðasta árs og hefur það hjálpað mér meira en orð fá lýst. Núna þjáist ég af áfallaröskun og félagskvíða og hef gert það lengi en aldrei hefur mér liðið svona vel þar sem að í fyrsta skiptið á ég trausta vini og að mínu mati er það Stíg að þakka.

Þessvegna bið ég þig um að hugsa, ef ekki bara smá, um þetta mál og vonandi koma í veg fyrir að hætt verður með Stíg og Tröð því að svona staðir eru ómetanlegir fyrir unglinga sem eiga erfitt með að fóta sig í raunveruleikanum.”

Foreldri stúlku sem notið hefur stuðnings unglingasmiðju í Reykjavík –xxxxxxdóttir og xxxxxxxson og stúlkan sjálf

PS. Af virðingarskini birtið ekki nöfn okkar né dóttir okkar

Category : Úr fjölmiðlum

Drög að stefnu Vinstri grænna í málefnum utangarðsfólks

September 29th, 2008 // 11:33 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 30 athugasemdir

Fréttablaðið, 29. sep. 2008 06:15

Þorleifur Gunnlaugsson skrifar um utangarðsfólk.

Það sem er fyrst og fremst gott við stefnu borgarinnar í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum er það að hún er fyrsta stefna sinnar tegundar á Íslandi og brautryðjandi sem slík. Utangarðsfólk á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, verja stjórnarskrárvarin mannréttindi og rétt til húsaskjóls. Stefnan er árangur af baráttu þeirra fjölmörgu sem tekið hafa upp hanskann fyrir þetta fólk. Það er verðugt markmið að efla samstarf og forvarnir, auka reglubundna þjónustu, styrkja tímabundin úrræði og fjölga langtíma úrræðum. Stefnan er aðgengileg á vefsvæði Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Stefnumótun

Undirritaður hefur átt sæti í starfshópi á vegum velferðarráðs Reykjavíkur um málefni utangarðsfólks síðan 6. febrúar 2007, eða í rúma nítján mánuði. Hópurinn boðaði fjölmarga hagsmunaaðila og fagfólk til samráðs og hélt átján formlega fundi. Má þar nefna fulltrúa frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða (sem er þekkingarmiðstöð í málaflokknum), Landspítala, SÁÁ, Geðhjálp, Krísuvíkursamtökunum og svo mætti lengi telja.

Safnað hefur verið saman gríðarlegri reynslu og þekkingu sem getur orðið góður grunnur að stefnu borgarinnar í málaflokknum. Þegar drögin að stefnunni voru lögð fram til fyrstu (og einu) umræðu í velferðarráði lagði minnihlutinn til að þau yrðu send til allra þeirra sem að málinu komu til umsagnar. Slíkt er alvanalegt og ber vott um vönduð vinnubrögð og virðingu fyrir þeim sem að málinu hafa komið á formlegan hátt. Þessu var samt sem áður hafnað af hálfu meirihlutans.

Hjáseta

Vinstri græn í velferðarráði og borgarráði ákváðu að sitja hjá við afgreiðslu málsins aðallega af neðangreindum ástæðum:

a) Stefnan tryggir það ekki að utangarðsmenn fái þak yfir höfuðið á þessu ári heldur einhvern tíma á því næsta.

b) Opna á langtíma húsnæðisúrræði fyrir utangarðskonur í neyslu einhvern tíma á næsta ári. Þetta þolir enga bið. Sumar konurnar sjá sig tilneyddar að búa hjá körlum gegn misnotkun.

c) Talað er um að „skammtíma gistiskýli uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til úrræða af þessu tagi. Skoðaður verði núverandi húsakostur og lagðar fram tillögur að breytingum ef þurfa þykir”. Og þetta á að gera einhvern tíma á næsta ári. Starfshópur sem starfað hefur í nítján mánuði hefur ekki skoðað það húsnæði sem er til staðar. Það hefur undirritaður gert og er á þeirri skoðun að neyðarskýlin eru í húsnæði sem er í raun ekki boðlegt þessu veika fólki. Nú þegar þarf að byggja eða kaupa sæmandi húsnæði í miðborginni.

d) Engin hugmyndafræði er í stefnunni um bata og eðlilegt líf. Þótt talað sé um „búsetuúrræði með félagslegum stuðningi” og hafa eigi „samstarf um rekstur á slíku úrræði við viðeigandi aðila” er það ekki útlistað frekar. Stefna í þessum málaflokki sem ekki talar skýrt um leið út úr vandanum er gölluð.
e) Ýmislegt annað er umhugsunarvert eins og það að samkvæmt stefnunni á það ekki að vera tryggt fyrr en á árinu 2010 að utangarðsfólk njóti heimilislæknis.

Drög að stefnu VGR

Eftir þá vinnu sem nú hefur átt sér stað telur undirritaður að eftirfarandi aðgerðir eigi að vera skýrar í stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum utangarðsfólks en sumar þeirra eru nú þegar í stefnu Reykjavíkurborgar:

• Rannsókn í samráði við fagaðila á umfangi þeirra sem teljast til utangarðsfólks. Má þar nefna Landspítalann, SÁÁ, RKÍ, Geðhjálp, Samhjálp, Lögregluna og Þjónustumiðstöð miðborgar.

• Gistiskýli (neyðarathvarf) fyrir konur og karla í neyslu. Staðsett í eða við miðbæinn – tengt mötuneyti. Borgin kaupi eða byggi viðunandi húsnæði.

• Áfangahús fyrir konur og karla í neyslu – staðsett í eða við miðbæinn.

• Færanleg hús fyrir pör og einstaklinga í neyslu sem ekki þrífast í sambýli.

• Búsetuúrræði fyrir konur og karla í neyslu í eða við miðbæ.

• Búsetuúrræði fyrir utangarðsfólk í bata tengt meðferðarstöð. 1-3 ár.

• Búsetuúrræði fyrir utangarðsfólk í bata í Reykjavík með miklu utanumhaldi.

• Félagslegt húsnæði, sjálfstæð búseta.

Höfundur er borgarfulltrúi VG og átti sæti í starfshópi um málefni utangarðsfólks sem nýverið lauk störfum.

Category : Greinar

Lítið og sætt kunningaþjóðfélag

June 12th, 2008 // 12:35 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // 26 athugasemdir

Jóhann Hauksson, dv.is 12. júní 2008

Einkum er um að ræða fyrirtækin Liðsheild og Liðsinni sem keypti á sínum tíma Doktor.is af af Jórunni og fleirum árið 2006. Inpro ehf keypti síðar Liðsinni, en Inpro er í eigu Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. Um tíma sátu Ásta Möller og Jón Þór Sturluson bæði í stjórn Liðsinnis.

Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í velferðarráði Reykjavíkurborgar, er ósáttur við að Reykjavíkurborg hafi gengið til samninga við Heilsuverndarstöðina ehf um rekstur félagslegra íbúða fyrir fyrrverandi áfengis- og vímuefnafíkla. Í frétt dv.is segir hann óumdeilda staðreynd að tilboð SÁÁ hafi verið um fjórðungi lægra en tilboð Heilsuverndarstöðvarinnar.

Fleiri fyrirtæki í eigu borgarinnar og nágrannasveitarfélaga eru í viðskiptum við Heilsuverndarstöðina. Má þar nefna Strætó bs. en stjórnarformaður Strætó bs er Ármann Kr. Ólafsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum meðeigandi í Inpro og Heilsuverndarstöðinni. Ármann segir sjálfur að Strætó bs. hafi verið meðal viðskiptavina Heilsuverndarstöðvarinnar áður en hann gerðist þar hluthafi. Hann mun hafa yfirgefið hluthafahópinn í Heilsuverndarstöðinni þegar ljóst var að hann yrði þingmaður Sjálfstæðisflokksins vegna mögulegra hagsmunaárekstra.

Núverandi hluthafar í Heilsuverndarstöðinni ehf eru sem hér segir: Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir 11,58 prósent, Ágústa Guðmarsdóttir, sjúkraþjálfari 0,32 prósent, Ásta Dís Óladóttir viðskiptafræðingur og sjúkraliði 1,12 prósent,  Bjarney María Hallmannsdóttir hjúkrunarfræðingur 28,71 prósent,  Gestur Pétursson öryggis-, heilsu- og brunaverkfræðingur 37,86 prósent,  Gísli Nils Einarsson hjúkrunarfræðingur  1,23 prósent,  Heilsuverndarstöðin (eigin bréf)  6,38 prósent, Teitur Guðmundsson læknir 11,58 prósent og  VSÓ 1,22 prósent.

Category : Úr fjölmiðlum

Prufugrein

January 20th, 2006 // 11:59 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Comments Off

Category : Greinar og ályktanir

Sá veldur sem á heldur

September 16th, 2005 // 4:23 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Fréttablaðið 16. sep. 2005 03:13

Borgarstjórnarkosningar – Þorleifur Gunnlaugsson

Nokkrir Samfylkingarmenn og stuðningsmenn þeirra hafa verið iðnir við að gera því skóna að Sjálfstæðisflokkurinn nái völdum í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum. Þannig skrifar Heimir Már Pétursson til dæmis grein í Fréttablaðið 25. ágúst. Þar sveiflast hann á milli þess að ætla að mynda breiðfylkingu R-listafólks yfir í að segja að “ef grafararnir vinstra megin línunnar ná undirtökunum með gamaldags Steingríms J-allaballatuggu um að “vinna saman eftir kosningar ” mun ég kjósa Sjálfstæðisflokkinn” . Sem sagt, ef ekki næst samstaða um R-listann er samstarf félagshyggjuaflanna í Reykjavík fyrir bí. Er það virkilega svo að nú megi menn ekki lengur tala um að vinna saman eftir kosningar? Þessu er ég algerlega ósammála. Ég vil að VG starfi með félagshyggjuöflunum í Reykjavík.

Greinilegt er að mörgum var það tilfinningamál að upp úr R-listasamstarfinu skyldi slitna og væri sennilega skynsamlegt, að áhugamenn um áframhaldandi samstarf um stjórn Reykjavíkurborgar, gerist ekki mjög dómharðir í garð samstarfsaðila sinna þótt sitthvað hafi verið látið fjúka í hita leiksins. Það þýðir þó ekki að þegja eigi um efnislegan ágreining. Að sjálfsögðu á að ræða hann. Það getur aldrei verið slæmt að færa rök fyrir máli sínu.

Ég neita því ekki að mér þótti nokkurri furðu sæta að heyra að nú væri það talið ólýðræðislegt að stjórnmálaflokkarnir, sem aðild eiga að Reykjavíkurlistanum, færu með hans mál; flokkarnir (og þá helst VG) voru kallaðir klíkur – talað var um að fámennir hópar (þ.e. félagsfundir VG) tækju ákvörðun fyrir hönd Reykvíkinga; nú riði á, sögðu einkum Samfylkingarmenn, að borgarfulltrúar R-listans og þá ekki síst, borgarstjórinn, leiðtoginn, yrði valinn í opnu prófkjöri. Við í VG viljum vissulega val á fulltrúum en við höfum sameinast um að leyfa ekki auglýsingar og viljum þar með forðast peningaaustur og lýðskrum. Þá leggjum við á það áherslu að lýðræði eigi að vera virkt allt kjörtímabilið, ekki einvörðungu þau sekúndubrot sem kjörseðillinn, hvort srm það er prófkjörseðillinn eða bæjarstjórnarkjörseðillinn er er að detta niður í kjörkassann.

Í fljótu bragði getur prófkjör og leiðtogaval virst lýðræðislegt en hæglega getur það þó snúist upp í andhverfu sína. Í fyrsta lagi eru prófkjör iðulega svo kostnaðarsöm að það er einvörðungu á færi atvinnupólitíkusa og þeirra sem hafa góð efni að taka þátt. Varla telst það lýðræðislegt. Í öðru lagi er hætt við því að það gerist að þeir sem kjörnir eru til forystu, “leiðtogarnir” telji sig lausa allra mála fram að næstu kosningum. Vissluega má segja að þá komi að skuldadögum. Að mínu mati eiga stjórnmálamenn hins vegar að finna fyrir lýðræðislegu aðhaldi allt kjörtímabilið.

Aðeins nánar að þessu. R-listinn er ekki félag, hann er ekki með félagatal, stjórn né heldur hann fundi á milli kosninga. Almennir stuðningsmenn hans hafa enga aðkomu að störfum hans. Samkvæmt uppskrift Samfylkingarinnar væru borgarfulltrúar, kjörnir í opnu prófkjöri, einráðir og “ósnertanlegir” á milli kosninga. Borgarstjóri kjörin í opnu prófkjöri gæti þessvegna setið í óþökk meirihlutans.

Í gagnrýni sinni á VGR vilja andstæðingar okkar meina að félögunum sé stjórnað eins og strengjabrúðum af fámennri flokkseigendaklíku. Sennilega gengur þeim sem þessu halda fram ekkert illt til. Þetta er einfaldlega það sem þeir eru sjálfir vanir úr eigin flokki. Einn mikilvægasti þáttur einræðislegra vinnubragða er að stjórna því sem tekið er á dagskrá. Ég tók til að mynda eftir því að þegar “Þórólfsmálið” var uppi hélt Samfylkingin einn félagsfund. Hann var að mig minnir um skipulagsmál. Á sama tíma logaði allt í fundahöldum hjá VGR. Það sama hefur verið upp á teningnum í hinum ýmsu málum, og hefur það gilt bæði um mál þar sem fólk hefur viljað koma gagnrýni á framfæri eða hvetja fulltrúa sína til að gera enn betur. Allt frá, málefnum húsnæðislausra, Tjarnarkjallaranum til sölunnar á hlutnum í Landsvirkjun. Hafi verið vilji til að taka mál á dagsskrá, hefur það verið gert og málin afgreidd á lýðræðislegan hátt. Alltaf hafa það verið félagarnir í Reykjavík, iðulega á mjög fjölmennum fundum, sem tóku af skarið. Þetta gilti einnig um viðræður um framhald R-listans nú í sumar. Lýðræðislega kjörin stjórn skipaði 3ja manna viðræðnefnd (2 úr stjórn og einn frá stjórn ungliða) og var sú skipan síðan staðfest af félagsfundi. Viðræðunefnd VGR hafði stöðugt samráð við stjórn, samráðsfundi og félagsfundi og að lokum var málið afgreitt af félögunum með yfirgnæfandi meirihluta athvæða.

Ég held að ef menn skoða þessi mál af sanngirni og yfirvegun hljóti menn að sjá að það sem fyrir okkur í VG vakir, er að efla lýðræðislegt aðhald í borginni. Ég hef orðið var við það að kjósendur í Reykjavík gera sér upp til hópa grein fyrir því að VG vill starfa á opinn og lýðræðislegan hátt. Í þjóðarpúlsi Gallúp sem tekin er á lokasspretti R-listaviðræðnanna mælist VG með 19% fylgi. Í Reykjavík verður enginn félagshyggjumeirihluti án VG. Slíkan meirihluta vill Vinstrihreyfingin grænt framboð hins vegar.

Þessu takmarki getum við náð ef við leggjum okkur fram um það. Nú er mál að linni ásökunum, úrtölum og bölbænum. Það er staðreynd að flokkarnir bjóða fram hver um sig næsta vor. Þetta finnst sumum gott, öðrum ekki. Það á við um fólk í öllum þeim flokkum sem hlut eiga að máli. En þetta er staðreynd sem menn þurfa að horfast í augu við. Með því að halda því fram að bjóði flokkarnir fram í sitt hvoru lagi séu þeir að afhenda Sjálfstæðisflokknum völdin er verið að grafa undan möguleikum okkar og afhenda Íhaldinu borgina. Það er ábyrgðarhlutur sem raunverulegir félagshyggjumenn geta ekki leyft sér. Félagshyggjuöflin í Reykjavík mega hvorki leyfa sér uppgjöf né daður við Íhaldið. Staðreyndin er sú að með því að snúa bökum saman höfum við möguleika á að halda borginni. Allt er nú undir okkur sjálfum komið. Sá veldur sem á heldur.

Category : Greinar

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi