Af hverju segir Ólafur F. Magnússon ekki satt?

Af hverju segir Ólafur F. Magnússon ekki satt?

April 13th, 2010 // 3:51 am @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Tekist var á um orkumál í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar fór Ólafur F Magnússon mikinn og ásakaði  Vinstri græn fyrir að hafa greitt atkvæði með öllum lántökum sem Reykjavíkurborg hefur ábyrgst vegna Kárahnjúkavirkjunar,  Landsvirkjunar og raforkusölu til erlendra málmbræðslufyrirtækja vegna fjárfestinga Orkuveitu Reykjavíkur.

Hann dró síðan í land og sagði Vinstri græn hvorki hafa greitt atkvæði með eða á móti lánasamningunum.

Þetta er undarlegur málflutningur frá manni sem er fullkunnugt um andstöðu VG við orkusölu til þungaiðnaðar og hefur sjálfur verið samferða borgarfulltrúum VG í slíkum bókunum og atkvæðagreiðslum.

Á borgarstjórnarfundi 15 janúar 2003 greiddu borgarfulltrúar VG, þau Árni Þór Sigurðsson og Björk Vilhelmsdóttir ásamt Ólafi F Magnússyni atkvæði gegn ábyrgð Reykjavíkurborgará lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Það er undarlegt að stjórnmálamaður sem velur sér listabókstafinn H – fyrir heiðarleika – skuli leyfa sér að fullyrða annað um gjörðir sínar en hægt er að lesa  í fundargerðum fyrirtækja borgarinnar. Ólafur heldur því fram í Silfrinu að alveg frá því í tíð R-listans hafi hann, einn borgarfulltrúa, greitt atkvæði gegn þessum lántökum.

Þetta er ekki rétt. Samkvæmt fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá því 30. ágúst 2006 samþykkti Ólafur sem stjórnarmaður, án þess að bóka eða móralisera á nokkurn hátt, lántöku frá Fortis Bank að upphæð 100 milljónir evra) en stór hluti þeirrar upphæðar fór í virkjanagerð vegna raforkusölu til erlends málmbræðslufyrirtækis (Norðuráls)

Borgarfulltrúar Vinstri grænna og Ólafur F Magnússon eru oft ósammála. En höfum við einhvers staðar átt samleið, þá hefur það verið í umhverfis- og náttúruverndarmálum og málefnum Orkuveitu Reykjavíkur.

Ómálefnalegur málflutningur borgarfulltrúans gagnvart Vinstri grænum hvað þetta varðar er þvíekki lausnarmiðaður  heldur greinilega til þess gerður  að fella keilur.  Honum skyldi þó ekki vera, enn eina ferðina, farið að dreyma um að komst í bólið hjá Íhaldinu?


Category : Vefgreinar

Athugasemdir

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi