Sex ástæður til að styðja VG

Sex ástæður til að styðja VG

February 2nd, 2010 // 11:37 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Mjög raunhæfur möguleiki er á vinstri stjórn í Reykjavík á komandi kjörtímabili samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Skoðanakannanir eru vissulega aldrei meira en vísbending um hvað í vændum gæti verið – ekki meira – en þó það.

Vinstrihreyfingin grænt framboð sem fékk 14% fylgi í síðustu borgarstjórnarkosningum og tvo fulltrúa kjörna, fengi samkvæmt könnun Gallup 19% fylgi og þrjá fulltrúa. Þetta hlýtur að teljast góður árangur, ekki síst í ljósi þess að bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking höfðu kastljós fjölmiðlanna á sér vegna prófkjöra um síðustu helgi.

Sterk útkoma VG í kosningunum í vor er mikilvæg fyrir Reykvíkinga af ýmsum ástæðum.

  1. Í fyrsta lagi aukast þar með líkur á að félagslega sinnað fólk hafi stjórn borgarinnar með höndum næstu fjögur árin.
  2. Í öðru lagi eru minni líkur á því að þeir sem minna mega sín í samfélaginu verði skildir eftir utan gátta. Aldrei er eins mikilvægt og á krepputímum að hafa réttlát og félagslega ábyrg markmið á pólitískri stefnuskrá og innmúruð í  sjálfsvitund þeirra sem með völdin fara. VG hefur sýnt í verki bæði í stjórn og stjórnarandstöðu að þessar áherslur eru ekkert sýndartal  í aðdraganda kosninga. Í öllum störfum okkar eru þau efst á blaði.
  3. Í þriðja lagi aukast líkur á því að jöfnuður og jafnrétti kynjanna verði ætíð á forgangslista borgarstjórnar. Þessi sjónarmið eru inngróin í stefnu VG.
  4. Í fjórða lagi geta menn gengið að því vísu að eignir borgarinnar eru í góðum höndum þar sem við erum annars vegar. VG hefur staðið allra flokka fremst í baráttu gegn markaðs- og einkavinavæðingu undangenginna ára. Nægir þar að nefna málefni sem tengjast Orkuveitu Reykjavíkur. Fátt er eins mikilvægt á krepputímum og að halda vel utan um auðlindir þjóðar og allar dýrmætar eignir hennar. Kjósendur gerðu vel í að hugleiða í hverra höndum þessar eignir eru öruggastar.
  5. Í fimmta lagi gengur enginn gruflandi að áherslum VG í umhverfis og skipulagsmálum.
  6. Í sjötta lagi skulu nefndar áherslur VG á mikilvægi þess að stuðla að háu atvinnustigi með fjölbreyttu atvinnulífi.

Þessari upptalningu má halda áfram og verður það gert eftir því sem nær dregur kosningum en þá munu flokkarnir fjalla um einstaka málaflokka sem snerta lífið í borginni hjá ungum sem öldnum, fjölskyldum og fyrirtækjum.

Á þessari stundu er það gleðiefni að meiri líkur en minni eru á því að mynduð verði vinstri stjórn í Reykjavík. Ég er sannfærður um að enda þótt skoðanakannanir gefi okkur vísbendingu um bærilegan árangur, þá á hann eftir að verða enn meiri eftir því sem fleiri hugsa málið til enda. Þegar fólk leggur niður fyrir sér  hvaða áherslur er mikilvægast að hafa efst á blaði eins og nú háttar til í íslensku samfélagi er VG augljós kostur.


Category : Vefgreinar

Athugasemdir

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi