Lýðræðisbyltingu í borginni

Lýðræðisbyltingu í borginni

February 4th, 2010 // 12:00 pm @ Þorleifur Gunnlaugsson // Engar athugasemdir

Íbúar Reykjavíkur hafa lýst því yfir á opnum borgarafundum að þeir vilji byggja upp hverfi borgarinnar með aukið umboð til beinna áhrifa á ákvarðanir sem snerta líf þeirra.

Þetta má gera með því að færa stóraukin áhrif til hverfisráða að skandinavískri fyrirmynd.  Borgarstjórn afhendi hverfisráðum umboð til athafna þannig að þau verði raunhæfur samráðsvettvangur í hverfunum. Þetta þýðir að þau stýri allri grenndarþjónustu í nánu samstarfi við íbúa.  Börn, ungmenni, foreldrar, aldraðir, innflytjendur og íbúar almennt, hafi þá tilfinningu að þjónusta borgarinnar sé þeirra, fyrir þá og á þeirra forsendum.

Horfið verði frá stofnanalausnum yfir til lausna sem verða til á vettvangi og út frá þörfum þeirra einstaklinga sem þær þurfa þannig að mannréttindi verði virt að fullu.  Þannig náum við að nýta best þá fjármuni sem til eru, þjónustan verði í takti við raunverulegar þarfir og kalli fólks um alvörulýðræði verði svarað í verki.  Með því að færa borgarbúum vald yfir eigin lífi þá vinnum við gegn spillingu sem þrifist hefur alltof lengi.

Valddreifing og kjarajöfnuður ásamt skýrum leikreglum sem fylgt er eftir, eru öflugar aðferðir gegn spillingu.  Þetta hefur komið fram þegar spilling er skoðuð í víðara samhengi.  Heilbrigða stjórnsýslu má finna meðal frændfólks okkar í skandinavíu.  Það sem einkennir útfærslu hins skandinavíska likans er einmitt valddreifing og áhersla á grenndarþjónustu.  Hafa borgir skipt sér niður í hverfi sem hverfisráð stýra og eru kjörin samtímis borgarstjórn í hlutfallskosningu.

Þau hafa fengið það hlutverk að bera fulla ábyrgð á allri grenndarþjónustu í nánu samstarfi við íbúa þeirra. Þessu er öðruvísi farið hér á landi.  Þó að í Reykjavík séu nú þegar til staðar hverfisskipting af hliðstæðum toga og finna má hjá nágrönnum okkar þá starfa hverfisráð hér án alvöru umboðs þannig að niðurstaðan verður sýndarlýðræði.  Miðlæg stjórnun einkennir borgina með lítilli valddreifingu.  Þessu þarf að breyta og færa ábyrgð verkefna nær íbúum Reykjavíkur með því að efla verulega hverfisráðin og lýðræðislegt starf þeirra.

Í Vesturbænum, Miðborginnni, Hlíðunum, Laugardalnum, Háaleitinu, Fossvognum, Breiðholtinu, Árbænum, Norðlingaholti, Grafarholti, Grafarvogi og Kjalarnesi má finna öfluga hverfismenningu sem þarf að fá að blómstra og styðja.  Framfarir borgarinnar verða hjá íbúum sjálfum og hafa þeir sjálfir lýst því yfir á samráðsfundum að slíkt megi best gera í þeirri félagslegu samstöðu sem myndast hefur í hverfum borgarinnar á löngum tíma.

Þetta er hinn raunverulegi mannauður borgarinnar og eiga starfsmenn borgarinnar að styðja íbúa til þess að byggja upp hverfi sín með störfum sínum.  Á móti þarf að draga úr yfirstjórn og koma á ábyrgri fjármálastjórn í leiðinni en stjórnkerfi borgarinnar hefur þanist á síðasta kjörtímabili með tilheyrandi kostnaði sem betur gæti nýst í þjónustu við sjálfa borgarbúa.

Tímar sýndarlýðræðis og ógagnsæis eru liðnir.  Nú þurfum við að byggja upp gegnsætt lýðræði með virkri þátttöku íbúa í hverfunum.  Þannig hreinsum við út spillinguna, gerum þjónustu borgarinnar betri og komum á heilbrigðu lýðræðissamfélagi.


Category : Vefgreinar

Athugasemdir

Stoltur sonur

"Nú getur það verið að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus. Þar sem Þorleifur er ekki bara pabbi minn heldur einn af mínum bestu vinum. En ég er samt sem áður sannfærður um það að engum er betur treystandi en honum til að vinna að þeim málum sem mér finnast vera mikilvægust. Við sameinumst um frelsi, ekki á forsendum fjármagns heldur fólks, við sameinumst um jafnrétti, lýðræði, kvenfrelsi, umhverfisvernd."

Haraldur Ingi Þorleifsson

Vertu áskrifandi